Eggert Gunn­þór Jóns­son fær að snúa aftur til starfa sinna sem leik­maður og þjálfari hjá FH í Hafnar­firði. Það til­kynnti fé­lagið á síðu sinni í gær. Félagið spilar nú við ÍBV á heimavelli sínum í Kaplakrika í Bestu deildinni og hóf Eggert leikinn.

Á föstu­daginn var greint frá því að héraðs­sak­sóknari hefði látið niður falla kyn­ferðis­brota­mál sitt á hendur Eggerti og Aroni Einari Gunnars­syni en þeir voru báðir sakaðir um að hafa nauðgað konu í Kaup­manna­höfn árið 2010. Fyrir um þremur vikum óskaði félagið eftir því að hann myndi stíga til hliðar á meðan rannsókn málsins færi fram og fordæmdi allt ofbeldi.

Á vef FH segir að í sam­ræmi við fyrri yfir­lýsingar fé­lagsins og í ljósi nýrrar stöðu í máli Eggerts þá hafi fé­lagið á­kveðið að hann megi aftur halda til fyrri starfa og verði aftur hluti af leik­manna­hópi fé­lagsins.

„Fé­lagið hefur lagt á­herslu á vönduð og fag­leg vinnu­brögð í þessu við­kvæma máli og mun ekki tjá sig frekar um málið,“ segir að lokum.