„Ég held að ég hafi bara verið heppinn“, segir Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður Af­stöðu – fé­lags fanga á Ís­landi um þá sál­fræði­þjónustu sem hann naut á alls 16 árum sem hann sat í fangelsi en hann hitti á öllum þeim árum sál­fræðing einungis sjö sinnum.

Guð­mundur Ingi er í við­tali í þættinum 21 á Hring­braut í kvöld. Hann sækist eftir einu af efstu sætum á lista Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík. Hann hefur hefur reynslu sem fáir hafa haft sem vilja inn á Al­þingi. Hann hefur setið í fangelsi í alls 16 ár fyrir of­beldis­lausa glæpi. Hann var laus við eftir­lit, ökkla­bandið í ágúst liðnum.

Hann vill benda á brota­lamir í refsi­kerfinu hér á landi. „Al­gjör­lega, og ef við tökum bara fangelsis­kerfið þá vil ég al­ger­lega um­turna því“.

„Ég held að fólk átti sig ekki al­menni­lega á því hvað það eru margir sem eru frelsis­sviptir og sem tengjast þeim hópi og ekkert endi­lega bara í fangelsum, það eru að­stand­endur, börn og vinir, þetta er rosa­lega stór hópur og ég held að þessi hópur vilji fara að sjá breytingar. Ég held að allir séu sam­mála því að það þarf að taka upp endur­hæfingar­stefnu, eða það sem við köllum betrun svona al­mennt og það mun skila sam­fé­laginu til baka ó­trú­lega miklum á­vinningi“, segir Guð­mundur Ingi.

Grundvallar mannréttindi

Að­spurður um reglur um kjör­gengi varðandi hreint saka­vott­orð, sem Guð­mundur Ingi er ekki með, segir hann að það þurfi ekki til heldur flekk­laust mann­orð sam­kvæmt lögum sem hann hefur kynnt sér vel: „Eitt­hvað sem við köllum upp­reist æra sem al­deilis hefur verið talað um á síðustu árum, að upp­reist æra var felld niður í lögum 2018 og það var bætt inn í kosninga­lögin. Fjórða og fimmta grein kosninga­laganna taka ein­mitt til míns kjör­gengis og þar er ó­flekkað mann­orð skil­greint og þegar maður hefur lokið af­plánun að fullu þá er maður með ó­flekkað mann­orð og ég hef lokið minni af­plánun að fullu sam­kvæmt lögum um fullnustu refsinga“, út­skýrir Guð­mundur og þar með sé hann kjör­gengur.

„Enda eru þetta grund­vallar­réttindi sem menn hafa“.

Þú ert búinn að borga þína skuld við sam­fé­lagið, heldurðu að sam­fé­lagið líti svo á? Má fara af Litla Hrauni yfir á Al­þingi?

„Ég er ekki að hugsa mikið um það, ég er bara búinn að vinna að á­kveðnum málum undan­farin ár, ég hef öðlast of­boðs­lega mikla þekkingu og reynslu af þessum mála­flokki, ég er bara að vinna að því í dag og mun vinna að því á­fram“.

„Eitt af því sem við erum að vinna með eru dóm­þolar og frum­skógur reglu­gerða í stjórn­sýslunni er ó­trú­legur og erfitt að komast í gegnum hann, sér­stak­lega í þessum mála­flokki og ég hef verið í því að fræða al­menning og stjórn­völd sem eiga mjög erfitt með að komast inn í þessi mál. Við höfum séð það bara með gölluðum lögum og illa unnum og illa orðuðum, samt er þetta unnið af lög­fræðingum og fleirum. Ég vil laga þetta“.

Þú ert að segja að það vanti reynsluna í byggingu reglu­gerða og laga?

„Já, það þarf að taka gras­rótar­sam­tök og frjáls fé­laga­sam­tök að­eins meira inn í þetta“.