Gísli Álfgeirsson minnist heitinnar eiginkonu sinnar, Olgu Steinunnar Weywadt Stefánsdóttur, sem lést árið 2019 eftir langvarandi baráttu við krabbamein. Olga Steinunn háði baráttuna um tæplega sex ára skeið eftir að hafa greinst árið 2013, aðeins 37 ára gömul.

Gísli biðlar til heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra að endurskoða nýjar reglur um breyttan aldur kvenna í brjóstamyndatökur þannig að þær leggi ekki konur í óþarfa hættu. Hægt er að skrifa undir áskorunina á vefsíðunni Change.org.

„Framtíðin var breytt, því næst var að fara heim og reyna að útskýra fyrir börnum okkar þá, 5, 7 og 16 ára hvernig við myndum takast á við breyttar aðstæður.“

Olga Steinunn var mikil baráttu kona sem alla tíð ræddi veikindin og meinið opinskátt, bæði í samtali við fjölmiðla og með því að blogga um reynsluna. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 árið 2019 vöktu hjónin athygli á að þörf sé á betri umgjörð fyrir börn veikra foreldra.

Gísli rifjar upp daginn sem breytti öllu. „Olga horfði út í tómið og náði engu sem læknirinn sagði. Ég man að læknirinn reyndi að útskýra allt fyrir mér en í eyrunum var suð og ljósin urðu allt í einu ótrúlega björt svo mér sortnaði fyrir augum. Framtíðin var breytt, því næst var að fara heim og reyna að útskýra fyrir börnum okkar þá, 5, 7 og 16 ára hvernig við myndum takast á við breyttar aðstæður.“

Eftir fréttirnar hafi dauðinn andað allan tímann í hálsmálið á þeim og framtíðin var engin, bara mannskemmandi bið.Segist hann hafa vonað að samfélagið myndi þróast og lækka skimunaraldur niður í 35.

Frestaði breytingum um ótiltekinn tíma

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákvað í síðustu viku að fresta um ótiltekinn tíma breytingum á neðri mörkum aldursviðmiða vegna skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Kynna þurfi betur áformaðar breytingar og fagleg rök að baki þeim en færa átti upphaf skimana til 50 ára í stað fertugs. Ákvörðun um að hækka efri mörk aldursviðmiðanna úr 69 árum í 74 ár stendur óbreytt.

Svandís sagðist hvorki hafa forsendur né ástæður til að draga í efa faglegt mat sérfræðinga skimunarráðs eða embættis landlæknis um aldursviðmið krabbameinsskimana. Aftur á móti sé þarna um nokkuð miklar breytingar að ræða varðandi neðri aldursviðmiðin sem skiljanlega veki ýmsar spurningar, ekki síst hjá þeim konum sem eiga í hlut.

Skimun veitir ekki 100 prósent öryggi

Gísli segir að nauðsynlegt að upplýsa konur í landinu hvað búi að baki slíkrara alvarlegrar ákvörðunar enda hafi hún áhrif á líf margra kvenna og fjölskyldna þeirra á ári hverju

„Skimun veitir ekki 100 prósent öryggi, það er alltaf möguleiki á fölskum niðurstöðum. Þar af leiðandi skiptir mestu máli að fræðsla og upplýsingar séu góðar,“ skrifar Gísli. Af færslunni að dæma hefur hann sökkt sér í greinar og bækur um brjóstaskimanir hér á landi og kynnt sér rannsóknir frá Svíþjóð. Segist hann hafa rekið augun í að konur á öllu aldri skuli ekki nýta sér betur skimanir. Hér má sjá samantekt af tölfræðinni sem hann fer nánar yfir í færslu sinni.

  • Í brjóstaskimun er 60% þátttaka
  • í stroku er 67% þátttaka
  • Með reglulegri skimun er hægt að draga niður dánartíðni um 20 - 25%
  • 90% kvenna sem fá brjótakrabbamein hafa enga fjölskyldusögu
  • Brjóstakrabbamein 30% allra krabbameinstilfella kvenna
  • 47 konur greinast á ári og 5 deyja úr brjóstakrabbameini eða í kringum 1 af hverri 10
  • 66 konur greindust á árunum 2015 til 2019 fyrir 40 ára aldur
  • Hefði aldursviðmiðið verið 50 ára hefðu bæst við 153 konur

„Af hverju skrifa ég þetta? Því ég vil reyna að koma í veg fyrir að fólk upplifi missi, eins og ég, og í þessu málefni er hægt að minnka það með reglubundnum skimunum.“