Brynja Dan Gunnarsdóttir varaþingmaður Framsóknarflokksins steig í pontu í dag á Alþingi í umræðum um störf þingsins og sagðist auðmjúk og þakklát að fá að standa þar og tala, að fá að taka þátt. Brynja situr á þingi þessa vikuna í stað Ásmundar Einars Daðasonar barna- og menntamálaráðherra, en hann er staddur erlendis út vikuna.
„Ástæðan fyrir veru minni hér er sú að ég vil láta gott af mér leiða. Það er svo magnað að fá að taka þátt, fá að nýta krafta sína í þágu betra samfélags, eins og við öll sem sitjum hér erum að gera,“ sagði Brynja.
Hún fór yfir það í ræðu sinni hvað dró hana að stjórnmálum og sagði að auðvitað yrðu aldrei allir sammála en að með því að vinna samt saman væri hægt að búa fólkinu í landinu gott líf.
Þá sagði hún Ásmund Einar aðra ástæðu fyrir því að hún ákvað að stíga inn í pólitíkina.
„Okkar skoðanir liggja samhliða þegar kemur að börnunum okkar, að búa þeim eins öruggt samfélag og hægt er. Ég lít svo á að öll börn séu okkar börn og okkur beri að vernda þau, grípa þau og styðja. Ég nefni einnig allar þessar flottu ungu konur sem við eigum í pólitíkinni en það eru forréttindi að eiga þær sem fyrirmyndir og hvatningu fyrir okkur hinar. Það gefur okkur kjark, dug og þor.“
Hún sagðist stolt af því að vera Íslendingur og að alltaf megi gera betur.
„Spurningin er bara hvernig við ætlum að bretta upp ermar og halda áfram. Ég er hér því að ég vil gera meira en að sitja heima og kvarta yfir því sem betur má fara. Ef við ætlum að breyta þurfum við að leiða með fordæmi. Ég vil vera partur af því fordæmi, partur af breytingunum,“ sagði hún að lokum.