Viðar Eggertsson leikstjóri og leikari var í viðtali hjá Sigmund Erni í Fréttavakt Hringbrautar og Fréttablaðsins í gær þar sem hann ræddi bágleg kjör eldriborgara hér á landi.

Nýlega skrifaði Viðar grein í Fréttablaðið sem bar heitið Ævina á enda í fátækt þar sem hann sagði frá eftirlaunaþegum á Íslandi sem hafa valið að flytjast erlendis sökum þess að þeir fjármunir sem þeir hafa milli handanna eru ekki nægir til að dekka framfærslukostnað hér á landi.

„Ég kynntist konu og ákvað að segja sögu hennar án þess að hún sé greinanleg. Þetta er kona sem er búin að vera í láglaunastörfum allt sitt líf, eins og svo margir aðrir, hún hefur verið heimavinnandi, í fiskvinnslu og umönnunarstörfum. Þegar hún var komin yfir sextugt var hún að niðurlotum komin“ sagði Viðar.

Konunni bauðst að taka snemmtöku lífeyris þegar hún varð 65 ára, nema þegar slíkt er gert þá skerðist lífeyrir varanlega. Auk þess átti hún lítið í lífeyrissjóði sökum þess hvað hún hafði þénað lítið yfir ævina.

„Hún átti lítið hús með dóttur sinni. Hennar hluti af því voru 15 milljónir. Hún fór að leita sér að húsnæði og það auðvitað fannst ekki íbúð fyrir 15 milljónir. Þá hugsaði hún með sér að hún mundi eftir húsi á Spáni í þorpi sem hún vildi búa í þegar hún var yngri. Hún setti sér það markmið að finna sér hús þar.“

Konan fluttist til Spánar þar sem ellilífeyririnn endist lengur en hér á landi. Viðar segir að nauðsynlegt sé að spyrja spurninga um kerfið sem íslenskir eldriborgarar þurfa að lifa við. Auk þess sér hann sjálfur fram á að lifa við fátækt í ellinni.

„Ég verð fátækt gamalmenni í þessu kerfi, það er alveg á hreinu, ég er að vísu svo heppinn að ég mun trúlega eiga skuldlausa eign, það hefur alltaf verið markmið mitt. En það hefur tekið alla ævina, allt sparifé mitt alla ævina hefur alla ævina farið í það.“

Horfið á allt viðtalið við Viðar hér fyrir ofan.

Fréttavaktin er sýnd alla virka daga á Hringbraut og Fréttablaðið.is