„Óheppilegt“ og „elur á fordómum“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78, um umræðu um tengsl apabólu við samkynhneigð.

Vísað er til kynlífs samkynhneigðra karlmanna í fréttatilkynningu sóttvarnarlæknis frá 20. maí en rætt hefur verið um tengsl apabólu og samkynhneigðar eftir að smit fóru að greinast bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

„Ég ætla ekki að fara að saka sóttvarnarlækni um einhverskonar fordóma. En þetta er óheppilegt, mjög óheppilegt" segir Daníel og bætir við: „Ég veit ekki til þess að svona sýkingar fari mikið í manngreinarálit.“

„Við vitum alveg hvernig orðræðan var í kringum alnæmi og ég veit að þetta er líka bara virkilega sárt fyrir þá stráka sem lifðu í gegnum það að lesa eitthvað svona,“ segir Daníel.

„Við vitum nefnilega að sumt fólk getur alið á þessu og gripið svona upplýsingar.“

Nú þegar tilfelli af apabólu eru orðin 131 í heiminum finnst honum einnig undarlegt að draga þessar upplýsingar inn í umræðuna.

„Mér finnst þetta vera ótrúlega óþarft á þessu stigi þegar ekki fleiri tilfelli eru á alþjóðavísu og svo ég vil ég bæta því við að hefði þetta verið rekið til einhverskonar annars kynlífs þá leyfi ég mér að stórefast um að það hefði komið fram.“

Daníel bendir einnig á að tengsl séu á milli þessarar orðræðu og þess að samkynhneigðum sé enn ekki leyft að gefa blóð.

„Það voru tillögur um það að samkynhneigðir mættu gefa blóð gegn því að vera skírlífir í heilt ár. En þær tillögur gengu aldrei í gegn. En það er verið að skoða löggjöfina í kringum blóðgjöfina eins og er og við væntum þess að fá upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu í júní.“