Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segist ekki vita nákvæmlega hvað Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, átti við þegar hann sagði fjölgun flóttamanna til Íslands vera fordæmalausa og að hún væri ekki tilviljun. „Að mörgu leyti er þar um að ræða misnotkun á verndarkerfinu sem er auðvitað alvarlegt.“
Jón lét ummælin falla í viðtali við Vísi fyrr í vikunni. „Ég veit ekki nákvæmlega hvað ráðherrann á við, ég verð að viðurkenna það,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að þessi hlut málaflokksins sé hjá dómsmálaráðherra og að hann verði að skýra hvað hann á við.
Arndís Anna Kristínar- og Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, sagði í Fréttavaktinni á Hringbraut í gær að ummæli dómsmálaráðherra væru röng og til þess fallin að ala á fordómum og að það væri alvarlegt.
Ekki verið að misnota kerfið
Guðmundur Ingi segist aðspurður ekki endilega telja að verið sé að misnota kerfið þó að margt fólk hafi sótt hingað til lands í von um að fá vernd.
„Stærsti hluti þeirra er vegna pólitískrar ákvörðunar okkar ríkisstjórnar að taka á móti fólki frá Úkraínu. Það er langsamlega stærsti hluti þeirra sem hingað koma í ár. Þó það sé vissulega fólk að koma frá fleiri ríkjum,“ segir Guðmundur Ingi. Hvert og eitt tilfelli um vernd sé metið og að reynt sé að taka eins vel á móti því fólki sem hljóti vernd hér á landi.
„Það er verkefnið mitt að reyna að stuðla að því að það fólk geti aðlagast íslensku samfélagi eins hratt og örugglega og hægt er. Við erum meðal annars að setja hóp í gang núna sem á að horfa til stefnumótunar í þessum málaflokki. Það tel ég að sé afskaplega mikilvægt til þess að við getum betur tekið utan um þann fjölda sem hingað er að koma og að hann nái betur að aðlagast íslensku samfélagi. Þannig að við horfum ekki til þess að hér geti orðið til tvær eða fleiri þjóðir í landinu, við þurfum öll að vera landsmenn,“ segir Guðmundur Ingi.
Frumvarp fyrsta skrefið
Dómsmálaráðherra kvaðst einnig í vikunni hlynntur vinnu við frumvarp sem auðveldar fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins að koma hingað til lands að vinna og kallaði eftir aðgerðum Guðmundar Inga.
Guðmundur Ingi segir ráðherranefnd um innflytjendur og flóttamenn, sem sett var á laggirnar í vor, hafa sérstaklega tekið utan um atvinnuleyfi útlendinga. Verkefnið sé hluti af stjórnarsáttmálanum og starfshópur á milli þriggja ráðuneyta fari með það.
„Ég mun koma með frumvarp núna á haustþingi sem snýr sérstaklega að nýsköpunarsérfræðingum. Það verður svona fyrsta skrefið sem við erum að stíga í þessum málum,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að málið sé í farvegi.