Brynjar Níels­son, að­stoðar­maður dóms­mála­ráð­herra og vara­þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, segir suma fjöl­miðla hér á landi drifna á­fram af pólitískum hags­munum og nefnir Fréttablaðið og Kjarnann sem dæmi. Brynjar ræddi málin á­samt Jakobi Bjarnar Grétars­syni, blaða­manni í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Jakob mót­mæli Brynjari þar harð­lega en þeir voru fengnir í þáttinn í til­efni af Face­book færslu Brynjars um málið. „Fjöl­miðlar og fjöl­miðla­menn eru svo pikk­fastir í eigin pólitík að þeir eru hættir að skynja og skilja hvað er spilling. Kannski hafa þeir aldrei gert það,“ skrifaði Brynjar meðal annars og var Jakobi ekki skemmt og svaraði honum með at­huga­semd.

„Æji, Brynjar minn. Það er til marks um að menn séu komnir út í horn þegar þeir vilja kenna fjöl­miðlum um og gera út á blóra­bögguls­hlut­verk þeirra. Þó þetta virki alltaf á til­tekið mengi hey­hausa ætti þessi taktík að vera fyrir neðan þína virðingu.“

Sjálfur er Brynjar búinn að gera viðtalið í Bítinu á Bylgjunni upp í spánýrri Facebook færslu. Þar segist hann hafa fengið leiðsögn í „svokölluðum fjölmiðlafræðum“ hjá Jakobi Bjarnari og skilst í hnotskurn á Jakobi að fjölmiðlar væru bara að skrifa það sem fólkið í landinu vilji lesa. Niðurstaða Brynjars er þá að fjölmiðlamenn eru alveg eins og stjórnmálamenn sem segja bara það sem þeir halda að fólkið vilji heyra.

Bæði að tala um fjöl­miðla­menn og fjöl­miðlana

Brynjar var í Bítinu á Bylgjunni í morgun spurður að því hvað hann væri að agnúast út í fjöl­miðla. „Hug­myndir mínar um fjöl­miðla er að þeir séu upp­lýsandi, dragi fram­ stað­reyndir, spyrji erfiðra spurninga og afla skýringa. En þeir virka á mig, auð­vitað ekki allir, eins og grúppíur fyrir á­kveðin sjónar­mið. Þeir eru bara eins og hver önnur hags­muna­sam­tök.“

Spurði Jakob hann þá hvort hann væri að tala um fjöl­miðlana sjálfa eða fjöl­miðla­menn. Svaraði Brynjar: „Hvort tveggja. Þeir eru bara eins og hver annar hags­muna­hópur.“

Svaraði Jakob því þá að Brynjar þyrfti að skil­greina það betur hverja hann ætti við. „Hverja ertu þá að tala um? það þarf að skil­greina það. Við hérna erum í blaða­manna­fé­laginu, störfum sam­kvæmt siða­reglum. Við sem hópur störfum sam­kvæmt siða­reglum og þegar þú segir eitt­hvað svona þá er þetta næsti bær við at­vinnu­róg. Okkur ber að gæta sann­girni, vera ekki að draga á­kveðna tauma, fjalla um mál­efni af hlut­lægni og sann­girni.“

Skaut Brynjar þá inn í hvort að Jakob teldi að allir fjöl­miðlar geri það alltaf. „Nei, ég var að segja það áðan, þeir eru bara eins ó­líkir og þeir eru margir,“ svaraði Jakob.

„Auð­vitað eru þeir ó­líkir,“ svaraði Brynjar þá. „Alveg eins og stjórn­mála­menn eru eins ó­líkir og þeir eru margir og svo fram­vegis. Ég er bara að segja: Mér finnst þetta meira á­berandi. Það er ekki verið að reyna að leita skýringa. Ekki verið að spyrja spurninga, ekki upp­lýsa um stað­reyndir og svo fram­vegis. Þeir eru bara í sömu pólitík og ég. Sumir þeirra.“

Nöfn auka­at­riði

Þátta­stjórnandinn Heimir Karls­son spurði Brynjar þá hvort hann ætti við að það væru ekki beint fjöl­miðlarnir heldur ein­staka blaða­menn sem væru að ganga erinda eigin skoðana?

„Sumir fjöl­miðlar eru bara stofnaðir í kringum einn mann, eitt ag­enda eða eitt sjónar­mið,“ svaraði Brynjar og þegar þeir fé­lagar ýttu á hann um svör við því hvaða fjöl­miðil hann ætti við svaraði hann:

„Hver á einn nánast heilt fjöl­miðla­veldi? Ég veit ekki einu sinni hvað fjöl­miðla­fyrir­tækið heitir, hvað heitir það, Torg?“ spurði Brynjar og spurði Heimir þá hvort hann ætti við Frétta­blaðið, sem er í eigu Torgs.

„Hann er að tala um Helga Magnús­son, geri ég ráð fyrir,“ skaut Jakob inn í en Helgi er eigandi Torgs. „Já auð­vitað er ég að tala um hann,“ svaraði Brynjar þá.

„Ef þið viljið draga út úr mér ein­hver nöfn sem er al­gjört auka­at­riði í þessu. Ég er bara að horfa á þessa fjöl­miðla, ég sé alveg hvernig þeir starfa, í hvaða ag­endu þeir eru. Ekki það að það komi ekki öðru hvoru ein­hverjar fréttir.“

Nefndi Brynjar næst Þórð Snæ Júlíus­son, rit­stjóra Kjarnans. „Þetta er bara ein­hver fjöl­miðill í kringum hann. Þeir stofnuðu þetta ein­hverjir tveir strákar og annar er horfinn,“ sagði Brynjar.

„Þannig blasir þetta við mér og örugg­lega mörgum öðrum. Að þarna eru menn bara í á­kveðinni pólitík. Þetta snýst um að tala gegn ein­hverju, þetta snýst um að tala gegn fisk­veiði­kerfinu, þetta snýst um að tala gegn á­kveðnum stjórn­mála­mönnum, þetta er alltaf sama fólkið, alltaf sömu sjónar­miðin. Ég segi: Af hverju stofnið þið ekki bara hags­muna­blað? Af hverju eruð þið að þykjast vera ein­hver al­vöru fjöl­miðill? Þannig blasir þetta við mér, það er bara það sem ég er að segja.“

Blaða­mönnum fækkað um helming

Jakob benti þá á að hann liti svo á að það sé ekki blaða­mennska ef menn eru að draga ein­hverja tauma, það heiti bara á­róður. Við­horfs­breyting hefði átt sér stað eftir að flokks­pólitísk blöð hurfu á braut.

„Ég kalla eftir gagn­rýni - en hún verður að vera vit­ræn, hún getur ekki verið í svona al­hæfingar­stíl,“ sagði Jakob og kannaðist ekki við að vera við­kvæmur vegna málsins. „Ég er bara að segja að þetta hljómar eins og at­vinnu­rógur í mín eyru, vegna þess að ekki hef ég sjálfur hug­mynd um það hvaða tauma ég á að vera að draga.“

Þá benti Jakob á nýjar tölur sem sýna að starfandi fólki í fjöl­miðlum hefur fækkað um helming á tæpum tveimur árum. „Við erum með fjöl­miðla sem eru að berjast í bökkum, við erum í nauð­vörn. Þess vegna finnst mér svo mikil­vægt, þegar menn eins og þú, sem nærð eyrum margra, ert pólitíkus, ert vara­þing­maður, ert að­stoðar­maður dóms­mála­ráð­herra, að þú talir með svo­lítið á­byrgum hætti.“

„Vegna þess, og það er mjög mikil­vægt að hafa þetta á bak­við eyrað, að við erum korter í það að einu upp­lýsingarnar sem verða al­menningi að­gengi­legar, verði hamperaðar, skrifaðar, fram­bornar af hags­muna­aðilum. Við erum komin með fleiri upp­lýsinga­full­trúa senni­lega hjá hinu opin­bera, sem starfa á mun betri launum.“

Eðli málsins sam­kvæmt í stjórnar­and­stöðu

Svaraði Brynjar þá að sér þætti enginn munur á þeim fjöl­miðlum sem hann hefði nefnt og hags­muna­aðilum. Jakob sagði að hann ætti þá að beina spjótum sínum að við­komandi en ekki setja alla fjöl­miðla undir sama hatt.

„Þegar menn eru að gagn­rýna stjórn­mála­menn og tala um stjórn­mála­stéttina eru menn ekkert að pikka út einn og einn. Ég er bara að horfa á heildar­myndina,“ svaraði Brynjar.

„Ég horfi á þetta gerast þannig að sumir þessara fjöl­miðla eru farnir að haga sér eins og hags­muna­hópa, eru í á­kveðnu ag­enda og telja sig svo vera ein­hvers­konar frjálsa fjöl­miðla. Segiði bara að þið séuð í pólitík og hafið á­kveðið að gera það í nafni pólitíkur.“

Jakob svaraði þá að eðli málsins sam­kvæmt væru blaða­menn á einn eða annan hátt í stjórnar­and­stöðu. „Þeim ber að gagn­rýna vald­hafa og þá sem eru við völd hverju sinni. Og af því að það hefur verið þannig, því miður segir ein­hver, að Sjálf­stæðis­flokkurinn er búinn að vera hér við völd undan­farna ára­tugi, þá halda þeir ein­hvern veginn, á­lyktunar­hæfnin er nú ekki betri en svo, að þeir halda það að fjöl­miðla­menn og blaða­menn sem eiga að veita þeim að­hald séu ein­hvern veginn á móti þeim eða ein­hvers­konar and­stæðingur þeirra.“

Ekki að tala um Sýn né Moggann

Brynjar sagðist telja það mis­skilning. „Enda sagði ég í upp­hafi: Menn eiga að spyrja spurninga og menn eiga að grafast fyrir. En maður sér alveg muninn og fólk sér það, að sumir fjöl­miðlar, ég er ekki að tala um Sýn, ég er ekki að tala um Moggann, eða svona al­vöru fjöl­miðla. Svo er fullt af al­vöru fjöl­miðla­mönnum hjá RÚV líka,“ sagði Brynjar og bætti við:

„Ég er bara að tala um að það sést alveg í gegn þegar menn eru ekkert í þessu, heldur eru menn bara að berjast eins og hver annar hags­muna­hópur. Þess vegna held ég, Jakob að svona margir taki undir það sem ég er að segja.“

Þátta­stjórnandinn Heimir Karls­son á Bítinu spurði Brynjar þá, hvort að blaða­menn á Frétta­blaðinu og Kjarnanum væru með ag­enda? Hvort það væri ekki í lagi að Þórður á Kjarnanum hefði á­kveðnar pólitískar skoðanir og skrifi þannig?

„Já já, þeir mega alveg gera það en þeir verða þá að þola það að ég gagn­rýni þá og finnist þetta ekki heppi­legt. Og ég treysti þeim ekki sem fjöl­miðli ef þeir ætla að vera alltaf svona. Það er nefni­lega það, menn mega allt mín vegna, það er það merki­lega við mig,“ svaraði Brynjar og minnti á að þátta­stjórn­endur hefðu beðið um að hann nefndi dæmi um fjöl­miðla.

„Þið heimtuðuð ein­hver nöfn. Ég get tekið Mann­líf, ég get tekið Stundina, ég get tekið whate­ver.“