Birna Dröfn Jónasdóttir
Laugardagur 11. mars 2023
05.00 GMT

Ég ólst upp á Selfossi og flutti í rauninni ekki þaðan fyrr en ég varð 24 ára,“ segir þúsundþjalasmiðurinn Einar Bárðarson.

„Það var mjög næs að alast þar upp en ég hélt oft að ég væri að missa af voða miklu af því ég bjó ekki í borginni eða New York eða á einhverjum stærri stað,“ segir Einar.

Þegar hann var sextán ára fór Einar sem skiptinemi til Bandaríkjanna og komst að því að þar væru líka smábæir líkt og Selfoss. „Þá var ég í þorpi sem var rúmlega helmingi minna en Selfoss og það kenndi manni ýmislegt.“

Einar kom heim frá Bandaríkjunum og kláraði framhaldsskóla, hann var vinmargur og naut sín vel á Selfossi. Þegar hann var 24 ára ákvað hann að fara aftur til Bandaríkjanna og mennta sig. Hann fór til Arizona í fjögurra ára nám í markaðsfræði.

Spurður að því hvernig hann hafi fjármagnað dýrt nám í Bandaríkjunum segist Einar meðal annars hafa selt lítið fyrirtæki sem hann átti. „Þegar ég fór sem skiptinemi var ég heppinn að fá að fara í gegnum Rótarýklúbbinn. Mamma mín og pabbi tóku á móti skiptinema í staðinn,“ segir hann.

„En svo þegar ég fór út í nám var ég ungur maður og átti orðið eitthvert dótarí, ég seldi bílinn minn og litla auglýsingastofu sem ég átti til að geta farið.“


Ég seldi bílinn minn og litla auglýsingastofu sem ég átti til að geta farið.


Einar var þarna búinn að stofna sitt fyrsta fyrirtæki og segist aðspurður alltaf hafa verið bæði stórtækur og framtakssamur. „Amma mín og afi í móðurætt voru frumkvöðlar og atvinnurekendur, allir bræður mömmu voru í atvinnurekstri og mamma mín og pabbi líka. Ég leyfi mér að segja að ég er mun áhættusæknari en þetta fólk en ég lærði ungur að vinna og að maður gæti skapað sér tækifæri sjálfur,“ segir hann.

Einar byrjaði að selja dagblöð aðeins sjö ára gamall, hann var orðinn plötusnúður þegar hann var tólf ára, á unglingsárunum hengdi hann upp plaköt fyrir hinar ýmsu hljómsveitir ásamt því að spila sjálfur í hljómsveit. Hann samdi tónlist og fagnar um þessar mundir 25 ára lagahöfundarafmæli sínu en aldarfjórðungur er síðan lagið Farin kom út.

Fréttablaðið/Valli

Hann hefur starfað hjá Hafnarfjarðarbæ, Reykjavíkurborg, Kynn­is­ferðum og Votlendissjóði. Hann stofnaði Plokkdaginn, er með sitt eigið hlaðvarp, var dómari í Idol og X-Factor og hefur starfað sem umboðsmaður, hann er af mörgum kallaður umboðsmaður Íslands. Þó að listinn sé langur er hann ekki tæmandi.

„Blóðfaðir minn og mamma skildu áður en ég man eftir mér og mamma mín eignaðist svo góðan mann sem gekk mér í föðurstað og hefur reynst mér vel, þar var ég eins og svo oft mjög heppinn. En þegar maður eldist og les meira um skilnaðarbörn og alls konar sem tengist þeim þá sér maður að í undirmeðvitundinni eru þau að leita að viðurkenningu,“ segir Einar.

„Kannski útskýrir það að einhverju leyti af hverju ég er svona stórtækur og sæki í að gleðja og bæta samfélagið í gegnum umhverfismál og skemmtun. Stundum spyr ég mig: Af hverju fór ég ekki bara í að græða peninga bara fyrir sjálfan mig og nota hæfileikana mína bara í það?“ segir hann.

„En þó að ég hafi oft lent í alls konar ævintýrum og vandræðum þá get ég ekki sagt að ég sjái eftir neinu sem ég hef tekið þátt í í gegnum tíðina og ég er ekkert endilega viss um að ég væri hamingjusamari ef ég hefði farið einhverja aðra leið í þessu.“

Byrjaði snemma í tónlist

Einar hefur alltaf haft mikinn áhuga á tónlist og byrjaði snemma að spila. Sitt fyrsta lagin, Farin, samdi hann fyrir hljómsveitina Skítamóral en bróðir hans spilaði á gítar í hljómsveitinni. Þá var Einar 25 ára. Síðan þá hefur hann samið fjölda annarra laga fyrir Skítamóral, Á móti sól, Nylon og Björgvin Halldórsson, svo dæmi séu tekin.

„Mér fannst ekkert mál að gera þetta fyrir Skítamóral. Þar var ég einhvern veginn réttur maður á réttum stað. Svo gerði ég eitthvað fyrir Á móti sól og þá hugsaði ég: Ókei, ég get gert þetta fyrir aðra,“ segir Einar.


Þar var ég einhvern veginn réttur maður á réttum stað. Svo gerði ég eitthvað fyrir Á móti sól og þá hugsaði ég: Ókei, ég get gert þetta fyrir aðra.


„En svo þegar Björgvin Halldórsson tók lag eftir mig, það var eitthvað allt annað. Þá var ég allt í einu orðinn alvöru lagahöfundur og í hópi með Jóhanni G. Jóhannssyni og Gunnari Þórðar, það er „A-list“ dæmi,“ segir hann.

Spurður að því hvernig það hafi komið til að Björgvin Halldórsson söng lag eftir hann segir Einar þá hafa verið saman í veiðiferð. „Við vorum frammi í stofu að drekka vískí langt fram eftir og hlusta á einhver demó, svo nokkrum dögum seinna hringir hann í mig og vildi skoða betur lag sem heitir Ég sé þig, en það er eitt af mínum betri lögum,“ segir hann.

„Svo var mjög fyndið þegar hann sagði mér að þetta yrði á plötu sem kæmi út um haustið, safnplötu með hans bestu ballöðum. Ég minnti hann á að þetta lag væri ekki einu sinni komið út. Hann sagði bara: Ég veit það að þetta er þannig lag,“ bætir Einar hlæjandi við.

Nylon og Luxor

Fyrir nítján árum stofnaði Einar Nylon-flokkinn. Um var að ræða stúlknaband sem naut mikilla vinsælda hér á Íslandi en túraði einnig um Bretland. Klara Elíasdóttir, Alma Guðmundsdóttir, Emilía Óskarsdóttir og Steinunn Camilla Sigurðardóttir skipuðu bandið og ber Einar þeim vel söguna.

„Ég var auðvitað að róa í blindni þegar þetta band var sett saman en það var ótrúleg gæfa yfir þessu, þær voru svo duglegar. Það var svo mikill hraði í þessu, þær voru í útlöndum að syngja með Westlife og Girls Aloud og það hefði verið svo ótrúlega auðvelt að fara út af sporinu en engin þeirra gerði það,“ segir Einar.

Hann segist afar stoltur af þeim öllum, hann sé í mestu sambandi við Klöru og Steinunni. „Mér þykir ótrúlega vænt um þær allar en við Klara náðum einhvern veginn saman. Einhverjir Nylon-aðdáendur héldu meira að segja að ég hefði skírt dóttur mína í höfuðið á henni en það var nú í höfuðið á mömmu minni sem heitir líka Klara,“ segir Einar.

Einar hefur samið fjölmörg lög sem Íslendingar þekkja vel. Hann segir magnaða tilfinningu þegar fólk skemmtir sér og syngur með lögum hans.
Fréttablaðið/Valli

Nokkrum árum eftir að Einar stofnaði stúlknabandið Nylon stofnaði hann strákasveitina Luxor sem ekki varð eins langlíf og Einar hafði gert sér vonir um.

„Á þessum tíma gáfum við út klassíska plötu með Garðari Cortes sem fór á toppinn í Bretlandi og var tilnefnd til bresku tónlistarverðlaunanna, Nylon var að spila á Wembley og úti um allt en svo er fólk alltaf hlæjandi að mér vegna Luxor. Eins og núna þegar Back­street Boys eru að koma hingað þá fer það aftur í gang. Maður er búinn að gera svo margt en ef nafn Einars Bárðarsonar kemur fram í spurningakeppni framhaldsskólanna þá er það alltaf um Luxor flokkinn,“ segir Einar.

„Ég ber einn ábyrgð á því hvernig fór, þetta voru og eru flottir strákar. Ég var þarna með of mörg járn í eldinum og gat ekki sinnt þessu eins og ég hefði viljað og maður uppsker eins og maður sáir.“

Erfið lífsreynsla

Einar er giftur Áslaugu Thelmu Einarsdóttur. Hún hefur undanfarin ár verið mikið í fjölmiðlum eftir að henni var fyrirvaralaust vikið úr starfi hjá Orku náttúrunnar, undirfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Áslaug greindi frá því árið 2018 að henni hefði verið sagt upp eftir að hafa kvartað undan framkomu yfirmanns síns. Hún höfðaði mál á hendur Orku náttúrunnar og Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að Orka náttúrunnar hefði brotið gegn Áslaugu Thelmu með því hvernig uppsögnin var framkvæmd og var bótaskylda fyrirtækisins viðurkennd.

Einar segir málið hafa haft mikil áhrif á fjölskylduna. „Við erum samheldin hjón og höfum gengið í gegnum alls konar mál sem hafa komið til okkar í gegnum tíðina og ég er alveg rosalega stoltur af henni,“ segir Einar.


Við erum samheldin hjón og höfum gengið í gegnum alls konar mál sem hafa komið til okkar í gegnum tíðina og ég er alveg rosalega stoltur af henni.


„Hún fórnaði gríðarlega miklu með því að stíga fram og það sér ekki enn fyrir endann á því, þetta mál er enn þá í gangi,“ segir hann og bætir við að nú sé dómkvaddur matsmaður að fara yfir málið og þann miska sem Áslaug varð fyrir.

„Ég held að það hafi enginn vinnuveitandi á Íslandi smánað einn einstakling með jafn ógeðfelldum hætti og gert var í þessu tilfelli. Miðað við hvað eignarhald Orkuveitu Reykjavíkur liggur víða er með ólíkindum að enginn hafi þurft að taka ábyrgð,“ segir Einar.

„Þrátt fyrir að málið hafi unnist í Landsrétti og uppsögnin hafi verið dæmd ólögmæt og fyrirtækið sakað um vítavert gáleysi gagnvart starfsmanninum þráast þau við,“ bætir Einar við.

„Þetta er búið að hafa mikil áhrif á okkur og búið að vera ömurlegt. Ég myndi ekki ráðleggja neinum, alla vega ekki þeim sem mér þykir vænt um, að stíga fram og segja frá í svona aðstæðum. Ég get ekki mælt með þessu fyrir nokkurn mann af því að þegar til kastanna kemur þá er sá sem stígur fram bara einn síns liðs, og sérstaklega gagnvart svona pólitísku veldi eins og Orkuveitan er,“ segir Einar.

„Og þetta segi ég í því samhengi að hún væri líklega búin að draga sig út úr þessu ef ekki væri fyrir það að hún vill ekki að einhver annar þurfi að taka þessa baráttu og ganga í gegnum það sama. Þess vegna vill hún klára þetta en þetta hefur verið mjög erfið lífsreynsla,“ segir Einar.

„Seinni árin höfum við mest verið að passa að tala sem minnst um þetta út á við og gæta þess þannig að þetta marki ekki líf okkar og fjölskyldunnar meira en þarf. En ég veð eld og brennistein með þessari konu og geri það stoltur,“ bætir Einar við.

Fréttablaðið/Valli

Votlendissjóður

Einar hefur verið starfandi framkvæmdastjóri Votlendissjóðs frá árinu 2019. Fyrir rúmum mánuði síðan lét sjóðurinn af sölu kolefniseininga og Einar hætti störfum. „Til þess að örva landeigendur til samstarfs vildum við fá alþjóðlegar vottanir á vinnu sjóðsins og það er vinna sem er ekki auðvelt mál. Það er enginn í heiminum með vottun í þessum ferlum og þannig um frumkvöðlastarf að ræða,“ útskýrir Einar.

„Það hefur mikil upplýsingaóreiða verið í gangi um endurheimt votlendis sem erfitt hefur verið að vinda ofan af,“ segir Einar. „Núna eru Landgræðslan og Landbúnaðarháskóli Íslands að vinna samantektir á öllum þeim rannsóknum sem unnar hafa verið á framræstum mýrum á Íslandi en birting þeirra niðurstaðna er forsenda vottunarinnar sem við erum að sækja um,“ bætir hann við.

„Fyrra módel sjóðsins bauð landeigendum að endurheimtin væri unnin þeim að kostnaðarlausu. Ekki bara sem loftslagsaðgerð heldur líka endurheimt vistkerfa mýranna sem er ekki síður mikilvæg,“ segir hann. „Umhverfið frá stofnun sjóðsins hefur hins vegar tekið hröðum breytingum sem við höfum sjálf tekið þátt í að móta og nú viljum við halda áfram að vera þetta samfélagslega afl ábyrgðar og sækja okkur öflugustu vottun sem hægt er að fá á svona starfsemi,“ segir Einar stoltur og bætir við að sjóðurinn sé sjálfseignarsjóður og ekki hagnaðardrifinn.

Þrátt fyrir að starfa ekki enn fyrir Votlendissjóð brennur endurheimt votlendis á Einari og mun hann vera stjórn sjóðsins og stjórnarformanni hans innan handar í þeirri vinnu sem fram undan er. „Magnið af koltvíoxíði sem við höfum bundið er á við þúsundir bifreiða árlega en við hefðum viljað gera miklu meira,“ segir hann.

„Þegar þú endurheimtir jörð einu sinni þá ertu í rauninni að stöðva árlega losun mörg ár fram í tímann. Svo er önnur vídd í þessu sú að þegar við endurheimtum mýrlendi þá erum við að endurheimta vistkerfi, svæðið tekur sitt upprunalega líf aftur. Sá hluti vinnunnar hefur verið mér mesti hvatinn í þessari vinnu.“

Fréttablaðið/Valli

Ekki mikill djammari

Um síðustu aldamót var Skítamórall á toppi ferilsins og lög Einars ómuðu víða. Farin, Spenntur, Myndir og fleiri lög voru á toppnum og sveitaballamenningin á Íslandi var mikil. Spurður að því hvort hann hafi lifað rokkstjörnulífsstíl um aldamótin segir Einar svo ekki vera, hann hafi alltaf verið í vinnunni frá níu til fimm.

„En ég held að menn hafi nú prófað ýmislegt og svo annaðhvort ílengjast menn í því eða ekki,“ segir hann og bætir við að hann hafi aldrei verið mikill djammari sjálfur. „Eiginlega svo lítill að ég tók þá ákvörðun fyrir sjálfan mig fyrir nokkrum árum að hætta alveg að drekka. Þetta gerði ég með bætta heilsu að leiðarljósi og ég vildi undirbúa mig fyrir það að verða miðaldra,“ segir Einar.

„Ég ætlaði bara að hætta í eitt ár og var aðeins að fikta við edrú lífsstílinn og svo fannst mér þetta bara svo fínt og leið miklu betur svo ég er enn hættur,“ bætir hann við.

„Við hjónin förum sjaldan út að skemmta okkur. Við erum mjög heima- og fjölskyldukær þegar öllu er á botninn hvolft og þetta er í rauninni búið að vera miklu minna mál en ég hélt. Ég hélt að ég myndi léttast við það að hætta að drekka en svo var ég alltaf að verðlauna mig með alls konar öðru svo það gekk ekki vel. Þegar maður er kominn á þennan aldur þá þarf maður bara að fara að velja gáfulegri hluti í mataræði,“ segir hann en Einar verður 51 árs í næstu viku.


Ég hélt að ég myndi léttast við það að hætta að drekka en svo var ég alltaf að verðlauna mig með alls konar öðru svo það gekk ekki vel.


Ertu einn af þeim sem eru alltaf að reyna að létta sig?

„Ég hef alltaf verið í yfirvigt og í smáslag við það en síðustu ár hef ég fundið smá jafnvægi í þessu og í dag er ég léttari en ég hef verið svona síðustu 10 eða 20 árin þannig að mér líður bara vel,“ segir hann.

„En ég hef aldrei verið í einhverjum sjálfsásökunum eða liðið illa yfir því hvernig ég er eða hvernig ég er ekki. Ég er með rosalega mikið sjálfstraust og kannski meira en góðu hófi gegnir,“ útskýrir hann.

„Einhvern tímann fannst manni skrítið að fólk með anorexíu sæi ekki vandann þegar það lítur í spegil en þegar maður horfir svo sjálfur í spegil og sér ekki að maður sé of þungur þá fattar maður að maður sé að glíma við sambærilegt vandamál frá hinum endanum, að þetta sé einhvern veginn tengt sjálfsmyndinni,“ segir Einar.

„Ég sé ekki líkamlega heilsu mína í spegli, ég þarf að mæla hana einhvern veginn öðruvísi,“ segir Einar sem reynir að hjóla mikið og hefur mikinn áhuga á hreyfingu, hann á meðal annars Hengils Ultra hlaupið og Kia gullhringinn, fjölmenn almenningsíþróttamót.

Einar hefur fagnað árunum 25 frá því að Farin kom út með þrennum tónleikum. Áður fyrr var hann ekki mikið fyrir það að vera uppi á sviði heldur vildi vera bak við tjöldin. Núna segist hann njóta sviðsljóssins. „Ég er bara kominn á þann aldur að fólk veit að ég er ekkert að reyna að vera kúl, ég er bara eins og einn af Olsen-bræðrunum,“ segir hann.

„Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og ég get alveg hugsað mér að gera meira af þessu, að koma fram.“

Einar er maður margra hatta og segist þakklátur fyrir sinn feril.Hans nýjasta verkefni er hlaðvarpið Einmitt.
Fréttablaðið/Valli

Hvernig er tilfinningin að heyra áhorfendur syngja með lögunum sem þú samdir fyrir áratugum síðan?

„Það er ótrúleg tilfinning. Ég hélt á tónleikunum á Selfossi að þetta yrðu bara rólegheit en það var bara mætt þarna alls konar fólk af Skímó- og Nylon-kynslóðinni sem öskursöng og var í banastuði. Ég fékk bara smá áfall en þetta var geggjað,“ segir hann.

„Það er alveg ótrúlegt að sjá fólk jafnvel syngja með lögum sem ég hélt kannski að væru ekki svona vinsæl. Þetta er ótrúlega fallegt og mikil blessun, bara að hafa einhvern veginn getað gert þetta. Eitt er að semja lög en annað er að þau hafi fundið einhvern farveg þannig að þau skipti einhverju máli fyrir fólk í lífinu,“ segir Einar.

„Ég er bara virkilega þakklátur,“ segir Einar Bárðarson að lokum.

Athugasemdir