„Ég ætla ekkert að leyna því að það kom mér mjög á óvart á sínum tíma að ég skyldi hafa verið valinn í þetta ráðuneyti dómsmála. Og það skal segjast alveg eins og er að ég var þónokkuð stressaður yfir þeim stóru og viðkvæmu verkefnunum sem biðu mín,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í ítarlegu viðtali í Fréttablaðinu í dag.
„Það er nú bara svo að sá sem velst til forystu í þessu ráðuneyti er á ákveðnu jarðsprengjusvæði. Það sést kannski best á því hvað mannabreytingarnar hafa verið örar í ráðuneytinu á undanförnum árum. Ætli ég sé ekki áttundi ráðherrann hér á einum áratug. Það segir sig sjálft að þetta er óþægilegt fyrir starfsfólk og hin mikilvægu málefni ráðuneytisins.“
Hann segir að þar komi til enn ein ástæða þess að óheppilegt sé að skipta um mann í brúnni, en margrætt hefur verið um að Guðrún Hafsteinsdóttir taki við af honum á næstu vikum, þótt ekkert sé raunar víst í þessum efnum. Og Jón segir það ekki vera farsælt.
„Það vantar stöðugleika í þetta ráðuneyti. Ég er ekki fyrr búinn að koma mér vel inn í öll flóknustu mál þess áður en ég mögulega á að hverfa á braut,“ segir ráðherrann sem mörgum hefur sýnst hafa verið í kapphlaupi við tímann við að koma breytingum í framkvæmd.
„Ég og aðstoðarmenn mínir gerðum okkur strax grein fyrir því að við hefðum mögulega takmarkaðan tíma til breytinga. Við þyrftum að hafa hraðar hendur, enda vildum við koma miklu í verk. Það var kominn tími á nauðsynlegar breytingar.“