Mál blaðamannanna sem hafa verið boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglu hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum í vikunni. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, tjáði sig um málið á þriðjudagskvöld og hlaut mikil viðbrögð við skrifum sínum sem birtust á Facebook.

Nú hefur hann birt aðra færslu varðandi málið. Greint hefur verið frá því að málið varði umfjöllun fjölmiðla um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja. Í nýrri færslu sinni ítrekar Bjarni þá skoðun sína að ekki sé hægt að velta fyrir sér hvað málið varðar nákvæmlega, þar sem það eina sem hefur verið gefið upp um það opinberlega sé að um sé að ræða rannsókn á meintu broti á friðhelgi einkalífs

„Ég benti á að ekki væri innistæða, á þessu stigi máls, til að gera athugasemdir við að lögregla óskaði eftir því að taka skýrslur af fréttamönnunum, enda væri málið einfaldlega til rannsóknar. Það eina sem við vitum með vissu um rannsóknina er að hún varðar brot á friðhelgi einkalífs.“ segir Bjarni í nýrri færslu sinni.

„Engin innistæða fyrir uppþoti“

Fjármálaráðherra minnist þá á þau fjölmörgu svör sem hann fékk við færslu sinni. Hann vill meina að þau hafi flest varðað hluti sem hann hafi hreinlega ekki verið að tjá sig um.

„Þar fór fram tilfinningaþrunginn málflutningur, t.d. um að það væri grundvallaratriði í frjálsu lýðræðissamfélagi að mega segja fréttir án afskipta stjórnvalda. Að dómafordæmi væru fyrir því að blaðamenn þyrftu ekki að gefa upp heimildarmenn og bent var á að sérlög giltu um blaðamenn í ákveðnum tilvikum.“ segir Bjarni sem bætir síðan við „Ég var reyndar ekkert að tjá mig um þessi atriði,“ og segir að honum hafi þótt umfjöllun fjölmiðla væri „frábrugðinn því þegar almennir borgarar eiga í hlut.“

„Á þessu stigi málsins finnst mér auk þess engin innistæða fyrir uppþoti vegna boðunar í skýrslutöku, en fréttir hafa mest byggt á forsendum þeirra sem hafa réttarstöðu sakbornings í málinu, um það hvað þeir telja að til standi að spyrja þá um.“

Bjarni segir að fréttamenn verða hreinlega að „þola að lögreglan sinni þeirri skyldu að rannsaka mál þar sem grunur er um brot á lögum. Og það skýtur skökku við að fréttamenn því sem næst yfirtaki fréttatíma með málflutning sinn.“

Þá segir hann að það geti ekki talist alvarlegt að taka lögregluskýrslu undir rannsókn máls „jafnvel þótt blaðamenn eigi í hlut“.