Söng­konan Mó­eiður Júníus­dóttir prýðir for­síðu helgar­blaðs Frétta­blaðsins en þar segir hún meðal annars frá því hvernig hún tók á­kvörðun um að hætta að syngja fyrir um tveimur ára­tugum eftir að hafa náð góðum plötu­samningi í Banda­ríkjunum.

Platan kom út í Banda­ríkjunum, Evrópu og Japan og Móa ferðaðist víða með bandi sínum. „Ég hitaði meðal annars upp fyrir Moby og þetta voru spennandi tímar.“

Móa hafði sett sér það mark­mið að vera komin með góðan plötu­samning fyrir 25 ára aldurinn og það rétt tókst. En draumar sem rætast eru ekki alltaf eins og vonast hafði verið til.

„Þetta var allt annar heimur en ég hafði vanist.“

Móa gerði samning upp á nokkrar plötur og fékk fyrir hann fyrir­fram­greiðslu. Út­gáfu­fé­lagið aftur á móti sá um kostnaðar­sama fram­leiðslu, mynd­bönd og markaðs­setningu.

„Þarna var ég orðin sölu­vara og sat fundi þar sem fundar­gestir voru aðal­lega karlar og um­ræðu­efnið hvernig best væri að markaðs­setja mig. Þetta er harður biss­ness. Það er talað um mann í þriðju per­sónu en maður situr á staðnum.“ Móa fann jafn­framt fyrir pressu um að standa sig, það væri fólk að treysta á hana. „Maður er orðinn sölu­vara og það er verið að leggja pening í „vöruna“. Allt í einu var það ekki bara ég að koma fram eins og ég var vön. En sjálf hafði ég ekki hugsað lengra en bara þessa plötu.“

Móa fann sig ekki í þessum stóra heimi og tók á­kvörðun um að stíga til hliðar og fara aftur heim en á­hrifin voru djúp­stæð.

„Í fyrsta lagi var ég komin á enda­stöð. Ég var hætt að vera for­vitin. Ég hafði alltaf haft að­gang að þessum heimi sem tón­listin er - fyrir mér var það fal­legur heimur og að ein­hverju leyti trúar­legur. Þarna var þetta bara orðið biss­ness. Ég var orðin biss­ness og röddin mín. Þú ert að selja sjálfan þig og það gengur alveg nærri manni, það gerir það.“

„Ég hef alltaf haft mikinn á­huga á sjálfs­myndinni, hún og það hvernig hún verður til er mér mjög hug­leikið. Ég held að ég hafi svo­lítið lent í því að röddin mín tók yfir. Ég fékk alltaf svo mikið hrós fyrir sönginn að hún tók eigin­lega bara yfir sjálfs­mynd mína og það er pínu hættu­legt.“

Móa tók á­kvörðun um að hætta að syngja. „Það var með­vituð á­kvörðun enda er mér illa við að láta bara eitt­hvað gerast. Svo ég tók harða af­stöðu um að syngja ekki,“ segir hún en viður­kennir að það hafi tekið á.

En gleðin var farin og því fannst Móu ó­tækt að halda á­fram. „Ég kom heim og mig langaði hvorki að syngja né gera tón­list. Ég var 28 ára og komin með al­gjört ógeð á öllu sem þessu fylgdi. Ég hugsaði með mér að ég nennti ekki í enn eitt boðið,“ segir Móa. Hún vissi þó að hana langaði eins og frá unga aldri, að eignast fjöl­skyldu og fljót­lega eftir heim­komuna ein­beitti hún sér að móður­hlut­verkinu.