Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sem tilkynnir að í helgarviðali Fréttablaðsins í dag að hann ætli að láta af forystuhlutverki sínu í flokknum fyrir landsfundinn í haust, hefur setið lengur á formannsstóli flokksins en nokkur annar í 22 ára sögu flokksins.

Hann segist hafa tekið við formennsku á mestu örlagatímum í sögu flokksins, eftir kosningarnar 2016, þegar flokkurinn fékk aðeins þrja menn kjörna, þar af hann, eina kjördæmakjörna þingmann flokksins. Lægra geti risið varla orðið á þingflokki.

„Ég var kallaður útfararstjóri Samfylkingarinnar þegar ég tók við formennskunni af Oddnýju G. Harðardóttur sem hafði strax sagt af sér eftir kosningaúrslitin og átti eftir að reynast mér afskaplega vel,“ segir Logi þegar hann rifjar upp þessa umbrotatíma, en hann var varla tekinn við sem varaformaður flokksins að hann var orðinn formaður hans í desember á þessu undarlega kosningaári.

Ekki hafði hann órað fyrir því hlutverki nokkrum mánuðum áður. „En fyrst ég var orðinn formaður svona óvænt hugsaði ég með sjálfum mér, það er ekkert annað að gera en að spýta í lófana, þetta er alvöru verkefni og ég tek það alvarlega, mjög alvarlega.“

Og eftirleikinn þekkja menn.

„Núna spá engir Samfylkingunni dauða, heldur spyr fólk sig þeirrar eðlilegu spurningar af hverju flokkurinn sé ekki með að minnsta kosti tuttugu prósenta fylgi. Svarið við því er einfalt, hann á að geta orðið slíkur flokkur, enda hefur hann alla burði til þess, en einn lykillinn að því er að hann fái nýtt blóð í forystuna,“ segir Logi og lemur hæfilega fast í borðið – og það er greinilegt að honum er meira umhugað um hreyfingu jafnaðarmanna en eigin hag í pólitíkinni.