Gunnar Ingvar Leifs­son naut þjónustu VIRK um skeið vegna þrá­látrar van­líðunar sem olli því að hann varð að taka sér leyfi frá störfum um tíma. Gunnar Ingvar segir frá því hvað varð til þess að hann leitaði sér að­stoðar í við­tali á vef VIRK og hvað hjálpaði honum í gegnum það

„Ég þurfti að kljást við for­dóma áður en ég leitaði að­stoðar. Ég er alinn upp við að menn eigi að bíta á jaxlinn og harka af sér. Ég er af kyn­slóð sem á­stundaði ekki víl eða vol,“ segir Gunnar Ingvar í við­talinu.

Hann segir frá því að hann hafi alltaf verið heilsu­hraustur og að því hafi það komið honum mikið á ó­vart þegar hann fór að finna fyrir þrá­látum verkjum á þrí­tugs­aldri.

„Árið 1995 voru verkirnir í líkama mínum orðnir veru­legir. Ég leitaði til heimilis­læknis og hann greindi mig með veik­leika í stoð­kerfinu, ef­laust slit­gigt. Við tók til­rauna­starf­semi næstu árin með hin ýmsu lyf, sem báru mis­góðan árangur sum hver með slæmum auka­verkunum. Í þessi þrjá­tíu ár sem veikindi hafa þjakað mig hafa þau stig­magnast. Ég leitaði til kírópraktors. Það endaði með að hann taldi að ég þyrfti að leita til bæklunar­læknis þar sem hann gat ekkert gert fyrir mig. Gerð var að­gerð á öxlinni á mér og ég hélt að þar með yrði vandi minn leystur, en það var ekki svo. Mér versnaði. Sumir töldu að þessir verkir gætu stafað af vefjagigt. Ég fór til gigtar­læknis og fékk þann úr­skurð að að ég væri með vefjagigt. Hvað er nú það? sagði ég hneykslaður. Ég hafði for­dóma gagn­vart þessari sjúk­dóms­greiningu. Vildi ekki viður­kenna að ég væri með gigt sem engin læknis­fræði­leg skýring væri á. Við­brögð mín voru að leggja æ harðar að mér. Ég var í af­neitun. Sumir sem eru með mikla verki deyfa sig með verkja­lyfjum eða á­fengi og en það hef ég aldrei gert,“ segir Gunnar Ingvar í við­talinu.

Fór í veikindaleyfi 2019

Hann fer svo yfir það hvernig það bættist við veikindin. Fyrst var hann greindur með astma og svo fór þreyta að gera vart við sig og hann með þrá­látar sýkingar í lungum auk þess sem hann glímdi við svefn­leysi. Þá komst hann að þeirri niður­stöðu, með gigtar­lækninum sínum, að hann skyldi sækja um að­stoð hjá ÞRAUT.

Hann fékk góðan stuðning í vinnu til að sinna henni á­fram en segir að árið 2019 hafi hann tekið á­kvörðun um að fara í veikinda­leyfi en að það hafi alls ekki verið auð­veld á­kvörðun.

„Ég ekki alveg sáttur, var enn í nokkurri af­neitun. Það er ó­trú­legt hvað hugurinn getur verið ó­sveigjan­legur gagn­vart líkam­legum verkum – sem er slæmt – hugur og líkami þurfa að vinna saman. Læknirinn gerði mér þá ljóst að þessi veikindi gætu haft eitt­hvað með kulnun að gera. Maður áttar sig ekki á að eðli­lega er hætta á kulnun þegar fólk er lengi mikið lasið. Ég hef þó aldrei fundið fyrir leiðindum eða á­huga­leysi gagn­vart vinnunni. Ég var alltaf opinn fyrir öllum nýjungum og að gera það sem þyrfti – ég hafði bara ekki orku til þess. Ég var gjör­sam­lega kominn í þrot.“

Hann komst að í þjónustu hjá VIRK og byrjaði að stunda göngur og fór til sál­fræðings haustið 2019 og svo í nóvember sama ár komst hann að hjá ÞRAUT.

„Í endur­hæfingunni hjá ÞRAUT var ég innan um fólk sem stríddi við sömu vanda­mál og ég. Þá breyttist hugar­á­stand mitt og for­dómarnir minnkuðu. Ég áttaði mig á að ég var ekki sá eini sem var að glíma við svona veikindi. Þessi nýja sýn á­samt góðri þjálfun skilaði mér undra­verðum bata. Ég fór úr 75 veikinda­stigum af hundrað niður í 32. Og fljót­lega var ég kominn niður í 27 stig. Vefjagigtin var samt alltaf til staðar, en nú var ég kominn með vopn í hendurnar, ekki að­eins gegn líkam­legum veikinum, heldur líka and­legum. Hjá VIRK voru menn satt að segja undrandi á hve vel mér fór fram,“ segir Gunnar Ingvar.

Við­talið er hægt að lesa hér í heild sinni.