Hæstiréttur mun ekki taka fyrir mál Elínborgar Hörpu Önundardóttur aðgerðarsinna, sem hefur verið sakfelld á tveimur dómstigum fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.
Hæstiréttur ákvarðaði það á þriðjudag, en í úrskurðinum segir að málið hafi ekki verulega almenna þýðingu eða sé mjög mikilvægt af öðrum ástæðum.
Í samtali við Fréttablaðið segist Elínborg, sem gengur einnig undir nafninu Elí, að niðurstaðan komi sér ekki á óvart.
„Dómskerfið er búið að sýna sína afstöðu í málinu,“ segir hán. „Dómstólarnir virðast vera á þeirri skoðun að lögreglan eigi að hafa alræðisvald,“
Elí veltir fyrir sér hvers vegna mál sitt hafi verið slitið frá málum annara mótmælenda sem handteknir voru í sama máli og vísar til laga um að mál skulu tekin fyrir saman nema að verulegir rannsóknarhagsmunir séu í húfi. Hán segist hvorki hafa fengið svör frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, né frá ríkislögreglustjóra varðandi það.
Hán bendir á að það hafi aukið kostnað mótmælendanna umtalsvert, en líka kostnað ríkisins. „Ég upplifi réttarhöldin sem refsingu út af fyrir sig.“
Mál Elí mun nú sameinast öðrum málum sem varða mótmæli sem tekin verða fyrir í Mannréttindadómstóli Evrópu.