„Ég held áfram að bíða þar til að eitthvað breytist,“ segir Margrét Sigríður Guðmundsdóttir sextug kona með MS-sjúkdóminn sem dvelur á hjúkrunarheimilinu Seltjörn þrátt fyrir að samningur hennar hafi runnið út í byrjun desember. Undir venjulegum kringumstæðum hefði Margrét Sigríður átt að flytja út fyrir 1. desember síðastliðinn en þar sem Kópavogsbær og ríkið hafa ekki enn útvegað henni annað búsetuúrræði dvelur hún þar enn.

Þjónustan fer ekki saman

Forstjóri Seltjarnar sagði upp samningi við Margréti Sigríði þar sem þjónustan sem hún þarf fer ekki saman með þjónustu aldraðra.

Margrét Sigríður hefur glímt við MS-sjúkdóminn í níu ár og þarf mikla aðhlynningu. Hún er með lögheimili í Kópavogi en bærinn hefur ekki getað útvegað henni viðeigandi búsetuúrræði.

Bærinn segir engin úrræði laus og vísar ábyrgð á málinu til ríkisins. Ríkið vísar hins vegar ábyrgðinni til sveitarfélagsins.

Þreytt á ástandinu

Flóki Ásgeirsson, lögmaður Margrétar Sigríðar, segir lítið hafa gerst í máli hennar annað en viðræður milli Kópavogsbæjar og heilbrigðisráðuneytisins. „Það er ekkert í hendi en ég er nú tiltölulega bjartsýnn á að þær viðræður leiði til einhvers.“

Sjálf er Margrét Sigríður orðin þreytt á ástandinu enda ekki í fyrsta skipti sem hún lendir á milli í kerfinu. Árið 2020 var Margrét Sigríður heimilislaus allt þar til henni var komið fyrir á hjúkrunarheimili þar sem hún hefur dvalið í tæp tvö ár gegn vilja sínum.

Upplifir sig vanmáttuga

Aðspurð um líðan sína á Margrét Sigríður erfitt að koma tilfinningum sínum í orð. „Það er mjög erfitt að orða þetta, mér líður ótrúlega illa útaf svo mörgu. Það eru margir hlutir sem safnast saman,“ segir Margrét Sigríður og heldur áfram: „Ég er nú búin að ganga í gegnum ýmislegt síðustu þrjú ár en það er eiginlega bara fyrst núna í byrjun desember,“ segir hún og tekur smá pásu.

„Ég finn bara hvernig ég lokast, stundum langar mig ekki einu sinni að svara í símann. Ég upplifi mig rosalega vanmáttuga og þetta eru töff dagar.“

Margrét Sigríður segir baráttuhuginn á undanhaldi þessa dagana. „Maður getur ekki endalaust haldið andlitinu.“

Kvíðir niðurstöðunni

Margrét Sigríður vonast til að mál hennar leysist sem allra fyrst en kvíðir niðurstöðunni þó. „Verður mér komið fyrir á öðru hjúkrunarheimili? Það er líka kvíði í manni yfir því. Hvað verður næsta skref og hvaða lausn fæ ég.“

Það skipti öllu máli hvaða úrræði henni muni standa til boða, að fara á annað hjúkrunarheimili sé dauðadæmt.

Margrét Sigríður nefnir gamlárskvöld sem dæmi en hún eyddi kvöldinu á hjúkrunarheimilinu. „Þetta er svo dapurt fyrir manneskju í minni stöðu,“ segir hún að lokum.