Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, segist hafa upplifað ákveðið áfall þegar hún og maður hennar hafi staðið frammi fyrir því að þurfa að leita sér aðstoðar við að stækka fjölskylduna og eignast barn. Tæknifrjóvgunarferlið í heild sinni hafi verið þeim andlega erfitt og, að sögn Hildar, niðurlægjandi.
„Ég held að í rauninni sé fyrsta áfallið það yfir höfuð að þetta sé erfitt. Að þetta takist ekki, eitthvað sem maður hefur gert ráð fyrir síðan maður var tíu ára. Að þurfa að leita sér aðstoðar var kannski fyrsta áfallið og svo þegar aðstoðin gekk ekki heldur, það var bara virkilega mikið sjokk,“ segir Hildur.
Hildur segist vilja stíga fram með sína sögu til þess að stuðla að meiri umræðu um ófrjósemi og á sama tíma minnka þann smánarblett sem henni fylgi. Ófrjósemi sé algengari en fólki gruni og mjög margar fjölskyldur sem glími við hana.
„Í rauninni er ekkert óeðlilegt við að þurfa aðstoð við þetta, eins og margir glíma við allskonar í lífinu og þurfa að leita sér aðstoðar til þess. Miðað við að þetta hefur alltaf verið svona, þaggað niður og farið með í hljóði, sem er alveg skiljanlegt. En ég held að það sé kannski betra að við reynum að taka þessu sem eðlilegum hlut. Þetta er mjög algengt og mjög margar fjölskyldur sem glíma við þetta,“ segir Hildur.
Síðastliðið vor lagði Hildur fram á Alþingi, frumvarp um breytingar á lögum um tæknifrjóvgun. Í viðtali við Fréttablaðið sagði Hildur að í frumvarpinu sé lögð til einföldun á lögum og reglum og boðað aukið frelsi í lagaumgjörð tæknifrjóvgana, með þeim undirtóni að fólki sé treystandi til að fara í þessa vegferð eins og það helst kýs.
Fann fyrir skömm og niðurlægingu
Í ferlinu segist Hildur hafa fundið fyrir ákveðinni niðurlægingu. Hún hafi skammast sín fyrir að þetta hafi ekki tekist hjá henni. Eitthvað sem hún hafi gert ráð fyrir að væri í lagi.
„Þetta er niðurlægjandi ferli. Ég upplifði mig eins og mér væri að mistakast sem kona,“ segir Hildur, og bætir við:
„Og það er bara kannski partur af því að vera manneskja. Að viðurkenna mistök. En þetta var ekkert mér að kenna og á endanum verður maður að fyrirgefa sjálfum sér. Svona er bara lífið,“ segir Hildur.
Í haust bar hins vegar til tíðinda þegar áttunda meðferð Hildar bar árangur, og á hún von á sér í apríl á næsta ári. Hildur segir það einstaklega gleðilegt að þetta hafi tekist á endanum. Hún sé mjög meðvituð um hvað hún sé heppin, þá sér í lagi sökum aldurs hennar.
„Fyrst þegar við leituðum okkur aðstoðar þá er ég ekki orðin fertug og það fannst mér í lagi. Svo líður tímin, biðlistinn hérna er langur og svo hjálpaði Covid alls ekki til. Þannig að það var allt sett á pásu í einhverja mánuði, með tilheyrandi biðlistum. Þannig að tíminn leið og ég, auðvitað, varð eldri. Það bættist í skömmustubunkann, en ég er alveg brött,“ segir Hildur.
Hildur ræddi um ófrjósemina, tæknifrjóvgunarferlið og pólitíkina við Sigmund Erni í þættinum Mannamál sem sýndur var á Hringbraut fyrr í kvöld. Viðtalið í fullri lengd má sjá hér að neðan.