Hildur Sverris­dóttir, þing­kona Sjálf­stæðis­flokksins, segist hafa upp­lifað á­kveðið á­fall þegar hún og maður hennar hafi staðið frammi fyrir því að þurfa að leita sér að­stoðar við að stækka fjöl­skylduna og eignast barn. Tæknifrjóvgunarferlið í heild sinni hafi verið þeim and­lega erfitt og, að sögn Hildar, niður­lægjandi.

„Ég held að í rauninni sé fyrsta á­fallið það yfir höfuð að þetta sé erfitt. Að þetta takist ekki, eitt­hvað sem maður hefur gert ráð fyrir síðan maður var tíu ára. Að þurfa að leita sér að­stoðar var kannski fyrsta á­fallið og svo þegar að­stoðin gekk ekki heldur, það var bara virki­lega mikið sjokk,“ segir Hildur.

Hildur segist vilja stíga fram með sína sögu til þess að stuðla að meiri um­ræðu um ó­frjó­semi og á sama tíma minnka þann smánar­blett sem henni fylgi. Ó­frjó­semi sé al­gengari en fólki gruni og mjög margar fjöl­skyldur sem glími við hana.

„Í rauninni er ekkert ó­eðli­legt við að þurfa að­stoð við þetta, eins og margir glíma við alls­konar í lífinu og þurfa að leita sér að­stoðar til þess. Miðað við að þetta hefur alltaf verið svona, þaggað niður og farið með í hljóði, sem er alveg skiljan­legt. En ég held að það sé kannski betra að við reynum að taka þessu sem eðli­legum hlut. Þetta er mjög al­gengt og mjög margar fjöl­skyldur sem glíma við þetta,“ segir Hildur.

Síðastliðið vor lagði Hildur fram á Al­þingi, frum­varp um breytingar á lögum um tækni­frjóvgun. Í við­tali við Frétta­blaðið sagði Hildur að í frum­varpinu sé lögð til ein­földun á lögum og reglum og boðað aukið frelsi í lagaum­gjörð tækni­frjóvgana, með þeim undir­tóni að fólki sé treystandi til að fara í þessa veg­ferð eins og það helst kýs.

Fann fyrir skömm og niðurlægingu

Í ferlinu segist Hildur hafa fundið fyrir á­kveðinni niður­lægingu. Hún hafi skammast sín fyrir að þetta hafi ekki tekist hjá henni. Eitt­hvað sem hún hafi gert ráð fyrir að væri í lagi.

„Þetta er niður­lægjandi ferli. Ég upp­lifði mig eins og mér væri að mis­takast sem kona,“ segir Hildur, og bætir við:

„Og það er bara kannski partur af því að vera manneskja. Að viður­kenna mis­tök. En þetta var ekkert mér að kenna og á endanum verður maður að fyrir­gefa sjálfum sér. Svona er bara lífið,“ segir Hildur.

Í haust bar hins vegar til tíðinda þegar áttunda með­ferð Hildar bar árangur, og á hún von á sér í apríl á næsta ári. Hildur segir það ein­stak­lega gleði­legt að þetta hafi tekist á endanum. Hún sé mjög með­vituð um hvað hún sé heppin, þá sér í lagi sökum aldurs hennar.

„Fyrst þegar við leituðum okkur að­stoðar þá er ég ekki orðin fer­tug og það fannst mér í lagi. Svo líður tímin, bið­listinn hérna er langur og svo hjálpaði Co­vid alls ekki til. Þannig að það var allt sett á pásu í ein­hverja mánuði, með til­heyrandi bið­listum. Þannig að tíminn leið og ég, auð­vitað, varð eldri. Það bættist í skömmustu­bunkann, en ég er alveg brött,“ segir Hildur.

Hildur ræddi um ó­frjó­semina, tæknifrjóvgunarferlið og pólitíkina við Sig­mund Erni í þættinum Manna­mál sem sýndur var á Hringbraut fyrr í kvöld. Við­talið í fullri lengd má sjá hér að neðan.