Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur krafist fundar með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, eigi síðar en í fyrramálið. Fundinn segir hún mjög mikilvægan og vísar til ákvörðunar ríkissáttasemjara um að leggja fram miðlunartillögu þann 26. janúar síðastliðinn í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi Sólveig Önnu til Guðmundar Inga sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Hún leggur mikinn þunga í að fundurinn fari fram í fyrramálið þar sem fyrirtaka í dómsmáli sem ríkissáttasemjari hefur höfðað til að fá kjörskrá Eflingar afhenda fer fram síðar á morgun og annað kvöld mun Efling tilkynna úrslit atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun Eflingarfélaga hjá Íslandshótelum.

„Ég undirstrika við þig að um er að ræða grafalvarlegt fordæmisgefandi mál sem snýr að lögmæti stofnana aðila vinnumarkaðarins, grundvallaréttindum vinnandi fólks og því trausti sem verkafólki verður unnt að bera til opinbers ramma vinnumarkaðsmála á Íslandi til framtíðar,“ segir Sólveig Anna jafnframt í bréfinu sem hún sendi Guðmundi Inga í gær.

Tillagan komi of snemma

Líkt og greint hefur verið frá ákvað Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í liðinni viku að stíga inn í kjaradeilur aðila vinnumarkaðarins með því að leggja fram miðlunartillögu. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd og segja margir tillöguna lagða fram of snemma í deilunum.

Guðmundur Ingi sagðist skilja gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á tímasetningu miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Hann vildi þó ekki meta hvort tímasetningin væri rétt eða röng og vísaði alfarið á ríkissáttasemjara. Það væri hans að meta hvort og hvenær miðlunartillaga væri notuð í kjaradeilum.

Að sögn Guðmundar Inga er þó eitt af verkefnum stjórnarsáttmálans að skoða hlutverk ríkissáttasemjara og segir hann það fram undan að skoða lagaumgjörð hans í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

Óskar eftir áheyrn án tafar

„Þrátt fyrir augljósa lagalega annmarka, skýrar vísbendingar um hlutdrægni, stórkostlega skert traust verkalýðshreyfingarinnar á embætti ríkissáttasemjara og fjölmargar áskoranir um að embættið dragi svonefnda miðlunartillögu sína til baka hefur embættið ekki gert það, heldur þvert á móti aukið á forherðingu sína. Kom það berlega í ljós síðastliðinn föstudag þegar embættið lét Héraðsdóm Reykjavíkur birta Eflingu fyrirkall vegna dómsmáls þar sem krafist er afhendingar á viðkvæmum persónuupplýsingum Eflingarfélaga, án þess að fyrir slíkri afhendingu séu lagaheimildir svo sem félagið hefur lýst ítarlega í samskiptum við embættið sem félagið hefur birt opinberlega,“ segir Sólveig Anna í bréfi sínu til Guðmundar Inga.

Hún segir að í ljósi pólitískrar og stjórnsýslulegrar ábyrgðar hans á framlagningu ríkissáttasemjara á miðlunartillögu og tilhæfulausri kröfu embættisins um afhendingu gagna úr félagaskrá Eflingar geri hún kröfu um áheyrn án tafar.

Á Facebook-síðu sinni segist Sólveig Anna vona að ráðherra verði við kröfu sinni. „Það ástand sem ríkissáttasemjari hefur skapað með framferði sínu er óþolandi. Við það verður ekki unað.“