Freyja Haraldsdóttir hefur nú loks fengið þau svör frá Barnaverndarstofu um að hún sé hæf til að vera fósturforeldri. Að sögn Freyju er þetta mjög ánægjuleg niðurstaða en hún segist aldrei hafa búist við neinu öðru en að hún yrði metin hæf.

„Þetta er auðvitað búið að vera langt og strangt ferli, erfitt og óréttlátt, en það er bara ótrúlega gott að það er komin niðurstaða og ég trúi því að þetta sé alveg þess virði og ég hlakka til að takast á við það hlutverk að verða vonandi sem fyrst fósturforeldri,“ segir Freyja í samtali við Fréttablaðið.

Margra ára ferli

Freyja sótti fyrst árið 2014 um að gerast fósturforeldri en var þá hafnað af Barnaverndarstofu. Hún kærði þá niðurstöðuna til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti niðurstöðu Barnaverndarstofu. Næst fór málið til dómstóla og endaði í Hæstarétti með sigri Freyju.

„Aðal hindrunin var í rauninni að ég fékk ekki að fara hefðbundna leið og ég fékk ekki réttláta málsmeðferð, það var alla vega það sem að dómstóllinn skar úr um, að ég ætti rétt á að fara í gegnum sama matsferli og aðrir,“ segir Freyja en Hæstiréttur komst að niðurstöðu í lok árs 2019.

Frá því að dómurinn féll hefur Freyja farið á námskeið fyrir verðandi fósturforeldra sem lauk í fyrra og nú er hún komin á lista yfir fósturforeldra. Við tekur bið en það er metið í hverju tilfelli hvaða barn á heima hjá hvaða foreldri.

Samfélagið þurfi að fara í naflaskoðun

„Auðvitað vonar maður það bara að þetta stuðli að því að þetta breyti viðhorfum til fatlaðra foreldra og fatlaðs fólks almennt, bæði hvað varðar eðlilega málsmeðferð og að allir hafi sömu tækifæri og sé ekki mismunað á grundvelli fötlunar, en líka bara að samfélagið fari svolítið í naflaskoðun og endurskoðun á því hvernig það skilgreinir fötlun,“ segir Freyja.

Hún segir það vera ríkjandi viðhorf að fatlað fólk eigi til dæmis ekki að vera foreldri og að ófatlað fólk séu þau einu sem ráða við það hlutverk. „Það er bara mjög mikilvægt í nútímasamfélagi að okkur finnist það bara eðlilegt að fatlað fólk sinni foreldrahlutverkinu“ segir Freyja og bætir við að það þurfi einnig að breyta viðhorfum til þess að þurfa til þess aðstoð.

„Við þurfum að horfast í augu við að óháð fötlun erum við öll hvert öðru háð og við þurfum öll einhverja aðstoð. Sumt fatlað fólk þarf aðstoð í foreldrahlutverkinu og það þýðir ekki að við séum passífir og óvirkir þátttakendur í lífi barnanna okkar, heldur erum við frumábytgðaraðilar og í virku hlutverki í uppeldi þeirra,“ segir Freyja.