Gísli Páll Páls­son, for­stjóri Grundar­heimilanna, segist ekki hafa trúað eigin eyrum þegar hann fékk sím­tal fyrir skemmstu um erfiða stöðu Land­spítalans.

Í að­sendri grein í Morgun­blaðinu segir Gísli að sím­hringingin hafi komið frá Sjúkra­tryggingum Ís­lands, eða heil­brigðis­ráðu­neytinu, og verið á þá leið að allt of margir aldraðir ein­staklingar dveldu á Land­spítalanum, ein­staklingar sem ættu frekar að búa á hjúkrunar­heimili en að eyða síðustu ævi­dögunum á há­tækni­sjúkra­húsi.

„Sem er sko al­gjör­lega satt. En sím­talinu fylgdi ó­trú­leg beiðni. Hvort við gætum ekki bætt við rúmum í ein­stak­lings­her­bergi Grundar þannig að það kæmust tveir heimilis­menn í eins manns her­bergi. Hoppað ára­tugi aftur í tímann í einu sím­tali. Og pissað ræki­lega í báða skóna. Ég trúði varla því sem ég heyrði, en þetta er dag­satt!,“ segir hann.

Jákvæðri þróun snúið við

Í grein sinni segir Gísli að á Grundar­heimilunum, á Grund og í Ási, hafi verið unnið mark­visst að því að fækka tví­býlum og eins manns her­bergi út­búin með sér­bað­her­bergi fyrir hvern og einn. Enn séu þó nokkur tví­býli á Grund og á Ási en stefnt sé að því að þau verði úr sögunni á næstu árum.

„En þarna var sem sagt verið að snúa við já­kvæðri og skyn­sam­legri þróun undan­farinna ára á auga­bragði. Ein­hverjir gætu sagt að þetta yrði bara til bráða­birgða og stæði stutt yfir,“ segir Gísli sem bendir á að sagan kenni okkur annað.

„Lítið til dæmis á Vífils­staði sem Land­spítalinn rekur. Hefð­bundnum hjúkrunar­heimilis­rekstri var hætt þar árið 2010, enda hús­næðið og öll að­staða alls­endis ó­full­nægjandi til slíks. En viti menn, í lok árs 2013 var opnuð þar bið­deild LSH, til bráða­birgða og er enn rekin sem slík fyrir þá sem hafa lokið með­ferð á sjúkra­húsinu og bíða þess að komast í varan­lega dvöl á hjúkrunar­heimili. Þar búa í dag 42 ein­staklingar. Átta ára bráða­birgða­úr­ræði? Hvað ætli lang­tíma­úr­ræði nái yfir langan tíma?“

Forneskjulegar hugmyndir

Gísli segir að lokum að stjórn­völd hafi dregið lappirnar um of varðandi upp­byggingu nýrra hjúkrunar­rýma á suð­vestur­horni landsins.

„Reglu­lega dúkkar upp um­ræða meðal opin­berra aðila um aukna heima­hjúkrun og heima­þjónustu, en eins og hingað til eru slík vil­yrði því miður frekar í orði en á borði. Aukin þjónusta heim er að sjálf­sögðu af hinu góða en hún dugar ekki til því aldurs­sam­setning þjóðarinnar er með þeim hætti að við þurfum einnig ný hjúkrunar­rými. Vonandi sér ný ríkis­stjórn ljósið og dregur til baka þessar forn­eskju­legu hug­myndir um að fjölga ein­stak­lingum í þeim her­bergjum sem nú­verandi heimilis­menn hjúkrunar­heimila búa í í dag. Pissið verður fljótt kalt í skónum.“