Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og annar vara­for­seti Al­þingis, var gómaður í for­seta­stól í gær við að fá sér í vörina. At­vikið náðist á upp­töku og fjallaði Vísirfyrst um málið þar sem Brynjar er sagður „troða vænni tóbaks­tuggu í vör“ á for­seta­stóli.

Brynjar neitar því hins vegar al­farið að um tóbak hafi verið að ræða enda hefur hann verið tóbaks­laus í heilt ár.

„Þetta var ekki tóbak sko, þetta var bara nikó­tín. Ég held að það sé ekkert bannað frekar en að fá sér ópal,“ segir Brynjar í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Ég hef bara litið á þetta þannig að ef ég get sett upp í mig ópal get ég sett upp í mig nikó­tín­púða. Ég geri engan greinar­mun á því enda er mikil­vægt að geta haldið ein­beitingu og vöku í þessum stól,“ segir hann léttur.

„Þetta er ekki allt ein­hver skemmti­at­riði ef menn halda það,“ bætir hann við.

Hressti sig við á meðan ráðherra ræddi um veiðar á sæbjúgum

Á meðan Brynjar hlóð í vörina var Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra í pontu að tala um veiðar í fisk­veiði­land­helgi Ís­lands og stjórn fisk­veiða.

Kristján var í miðri ræðu að tala um aukinn á­huga á veiðum á hrygg­leysingjum, sæ­bjúgum og í­gul­kerum þegar Brynjar á­kvað að hressa sig við.

Brynjar reykti um ára­bil en hefur ekki reykt núna í næstum heilt ár. „Ég þarf mitt nikó­tín eins og aðrir þurfa kaffi. Ég hef ekki brúkað tóbak í ár,“ segir hann.

„Svo geta menn auð­vitað haft ein­hverja skoðun á því hvort for­seti [Al­þingis] eigi að stinga upp í sig nokkrum sköpuðum hlut. En hann drekkur vatn, sumir fá sér ópal og sumir nikó­tín­púða,“ segir Brynjar að lokum.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.