Anna Valdís Jónsdóttir varaformaður og verkefnastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands á Reykjanesi segist taka fulla ábyrgð á færslu sem birt var á Facebook-síðu samtakanna í gær þar sem kom fram að matarúthlutun færi líklega fram daginn eftir, í dag, og að byrjað yrði á Íslendingum.
Færslan hefur vakið mikla athygli og reiði og hafa samtökin verið sökuð um rasisma. Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, er einn þeirra sem vakti athygli á færslunni og sagði skiptinguna brjóta í bága við stjórnarskránna því um væri að ræða mismunun. Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, W.O.M.E.N., hafa fordæmt færsluna og ýmsir aðilar á samfélagsmiðlum í dag.
„Ég er búin að sjá um fjölskylduhjálpina á Suðurnesjum í fjórtán ár og þetta er alger mistúlkun,“ segir Anna Valdís og harmar að Ásgerði Jónu Flosadóttur, formanni samtakanna, hafi verið kennt um þetta og látin svara fyrir þetta í dag.
Barnalega orðuð
„Það er langt því frá að vera í lagi. Við erum ekki sama manneskjan og það er þannig að ég bað minn sjálfboðaliða að skrifa færsluna því við höfðum ekki komist í vinnu frá því fyrir helgi og það átti að vera úthlutun á þriðjudag og í dag,“ segir Anna Valdís og að hún hafi beðið sjálfboðaliðann að koma því áleiðis að úthlutunin ætti að vera tvískipt því það komast ekki inn nema fimm í einu. Það ætti einfaldlega að byrja á Íslendingum og svo myndu erlendis ríkisborgarar taka við. Hún segir að það hafi allir átt að fá mat og það hefði allt eins getað verið á hinn veginn, fyrst útlendingar og svo Íslendingar. Það sé gert til hagræðingar vegna tungumálaörðugleika og annars.
„Það vissu það allir sem fengu úthlutun að Íslendingar yrðu annan daginn og útlendingar hinn. Það kvartaði enginn yfir því. Að þetta sé skrumskælt og talað um að við séum rasistar skil ég ekki. Ásgerður Jóna á ekki að bera minn skít, það er ég sem ber hann. Ég svara fyrir sjálfa mig. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir þessa færslu. Ég er ekki rasisti og hef aldrei verið það. Ég ber virðingu fyrir útlendingum,“ segir Anna Valdís og að færslan hafi ekki verið illa meint en viðurkennir að hún hafi verið barnalega eða illa orðuð.
„En ég tek þennan skít á mig,“ segir hún aftur.

Býður Pírata velkomna
Hún segir stóran hluta þeirra sem leita til þeirra vera erlenda ríkisborgara og að hún sé með túlka annan hvern dag til að aðstoða við úthlutun til þeirra. Í síðasta mánuði voru rúmlega 1.400 matargjafir sem fóru að stórum hluta til útlendinga að sögn Önnu Valdísar.
„Að kalla okkur rasista. Það er það síðasta sem ég skal vera kölluð,“ segir hún.
Hún segir að á morgun verði úthlutun og að hún verði ekki tvískipt. Það verði að öllum líkindum unnið langt fram á kvöld og að sjálfboðaliðar þiggi alla þá hjálp sem er í boði en Anna Valdís hvetur sérstaklega Pírata til að koma og aðstoða við úthlutunina.
„Ég býð þá velkomna á morgun. Þeir mega gjarnan koma að hjálpa okkur. Að standa í kuldanum og hjálpa fólki að bera í bílana. Að þreifa á hlutunum og sjá hvernig þeir fara fram. Við vinnum þá til miðnættis og við munum leggja það á okkur. Við ætluðum að skipta þessu í tvennt til að komast hjá því en gerum það ekki núna,“ segir Anna Valdís og á þá við að aðeins verði ein úthlutun fyrir alla saman.
„Fyrir hundrað manns tekur úthlutun um fimm klukkutíma,“ segir Anna Valdís en hún á von á því að fá í það minnsta 250 fjölskyldur til sín á morgun í leit að aðstoð.