Anna Val­dís Jóns­dóttir vara­for­maður og verk­efna­stjóri Fjöl­skyldu­hjálpar Ís­lands á Reykja­nesi segist taka fulla á­byrgð á færslu sem birt var á Face­book-síðu sam­takanna í gær þar sem kom fram að matar­út­hlutun færi lík­lega fram daginn eftir, í dag, og að byrjað yrði á Ís­lendingum.

Færslan hefur vakið mikla at­hygli og reiði og hafa sam­tökin verið sökuð um ras­isma. Þing­maður Pírata, Björn Leví Gunnars­son, er einn þeirra sem vakti at­hygli á færslunni og sagði skiptinguna brjóta í bága við stjórnar­skránna því um væri að ræða mis­munun. Sam­tök kvenna af er­lendum upp­runa á Ís­landi, W.O.M.E.N., hafa for­dæmt færsluna og ýmsir aðilar á sam­fé­lags­miðlum í dag.

„Ég er búin að sjá um fjöl­skyldu­hjálpina á Suður­nesjum í fjór­tán ár og þetta er al­ger mis­túlkun,“ segir Anna Val­dís og harmar að Ás­gerði Jónu Flosa­dóttur, for­manni sam­takanna, hafi verið kennt um þetta og látin svara fyrir þetta í dag.

Barnalega orðuð

„Það er langt því frá að vera í lagi. Við erum ekki sama manneskjan og það er þannig að ég bað minn sjálf­boða­liða að skrifa færsluna því við höfðum ekki komist í vinnu frá því fyrir helgi og það átti að vera út­hlutun á þriðju­dag og í dag,“ segir Anna Val­dís og að hún hafi beðið sjálf­boða­liðann að koma því á­leiðis að út­hlutunin ætti að vera tví­skipt því það komast ekki inn nema fimm í einu. Það ætti ein­fald­lega að byrja á Ís­lendingum og svo myndu er­lendis ríkis­borgarar taka við. Hún segir að það hafi allir átt að fá mat og það hefði allt eins getað verið á hinn veginn, fyrst út­lendingar og svo Ís­lendingar. Það sé gert til hag­ræðingar vegna tungu­mála­örðug­leika og annars.

„Það vissu það allir sem fengu út­hlutun að Ís­lendingar yrðu annan daginn og út­lendingar hinn. Það kvartaði enginn yfir því. Að þetta sé skrum­skælt og talað um að við séum ras­istar skil ég ekki. Ás­gerður Jóna á ekki að bera minn skít, það er ég sem ber hann. Ég svara fyrir sjálfa mig. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir þessa færslu. Ég er ekki ras­isti og hef aldrei verið það. Ég ber virðingu fyrir út­lendingum,“ segir Anna Val­dís og að færslan hafi ekki verið illa meint en viðurkennir að hún hafi verið barnalega eða illa orðuð.

„En ég tek þennan skít á mig,“ segir hún aftur.

Færslan sem um ræðir, sem nú hefur verið tekin út.

Býður Pírata velkomna

Hún segir stóran hluta þeirra sem leita til þeirra vera er­lenda ríkis­borgara og að hún sé með túlka annan hvern dag til að að­stoða við út­hlutun til þeirra. Í síðasta mánuði voru rúm­lega 1.400 matar­gjafir sem fóru að stórum hluta til út­lendinga að sögn Önnu Val­dísar.

„Að kalla okkur ras­ista. Það er það síðasta sem ég skal vera kölluð,“ segir hún.

Hún segir að á morgun verði út­hlutun og að hún verði ekki tví­skipt. Það verði að öllum líkindum unnið langt fram á kvöld og að sjálf­boða­liðar þiggi alla þá hjálp sem er í boði en Anna Val­dís hvetur sér­stak­lega Pírata til að koma og að­stoða við út­hlutunina.

„Ég býð þá vel­komna á morgun. Þeir mega gjarnan koma að hjálpa okkur. Að standa í kuldanum og hjálpa fólki að bera í bílana. Að þreifa á hlutunum og sjá hvernig þeir fara fram. Við vinnum þá til mið­nættis og við munum leggja það á okkur. Við ætluðum að skipta þessu í tvennt til að komast hjá því en gerum það ekki núna,“ segir Anna Val­dís og á þá við að að­eins verði ein út­hlutun fyrir alla saman.

„Fyrir hundrað manns tekur út­hlutun um fimm klukku­tíma,“ segir Anna Val­dís en hún á von á því að fá í það minnsta 250 fjöl­skyldur til sín á morgun í leit að að­stoð.