Sól­veig Anna Jóns­dóttir, fyrr­verandi for­maður Eflingar, telur ekki að hún hafi gert mis­tök þegar hún sagði af störfum fyrir viku síðan. „Ég tel að ég hafi ekki haft um neitt annað að ræða,“ segir hún í við­tali í Silfrinu.

Sól­veig segir að þegar á­sakanir berast fjöl­miðlum um að á skrif­stofu Eflingar væri ógnar­stjórn og af­töku­listar þá sé búið að setja bar­áttu hennar og Viðars Þor­steins­sonar, fyrrum fram­kvæmdar­stjóra Eflingar, með fé­lags­fólkinu verði orðin ó­trú­verðug.

„Með þessu var búið að taka það allra mikil­vægasta sem ég hef haft, sem er mann­orð mitt og sú geta sem ég hef haft í því að leiða þessa rót­tæku og mark­vissu rétt­lætis­bar­áttu fé­lags­fólks,“ segir Sól­veig.

Kölluð peð og strengjabrúða

Sól­veig hefur að hennar sögn þurft að þola ýmis­legt strax frá fyrsta degi þegar hún tók við sem for­maður fé­lagsins. „Ég held að ör­fáar mann­eskjur á seinustu árum hafi þurft að þola jafn ó­trú­legar ó­svífnar at­lögur að per­sónu,“ segir hún.

„Ég hef verið kölluð þjófur, því var lengi haldið fram að ég væri að á­sælast sjóði fé­lagsins í annar­legum til­gangi, auð­vitað bara hel­ber lygi. Ég hef verið kölluð peð, strengja­brúða, og svo fram­vegis,“ segir Sól­veig.

Vegna þess segir Sól­veig að innan skrif­stofunnar hafi orðið til í vissum hópi starfs­fólks á­kveðin stemning þar sem mætti segja hvað sem er um hana og beita sér gegn henni með grófum hætti.

Sól­veig segist sjá helst eftir því að hafa um­borið svo­leiðis um­tal og hafi ekki beitt sér með á­kveðnari hætti á skrif­stofunni í valdi þess um­boðs sem henni hafi verið út­hlutað af fé­lags­fólki Eflingar þegar hún var kjörin.

Ályktunin sett saman af fámennum hópi

Sól­veig segir þessa stemningu meðal þessa fá­menna hóps innan skrif­stofunnar hafa náð vissu há­marki með á­lyktunni sem send var á stjórn­endur í byrjun júní, þar sem talað er um ógnar­stjórn og af­töku­lista.

„At­burðar­rásin eins og hún birtist mér og sam­kvæmt þeim upp­lýsingum sem ég hef þá er þessi á­lyktun sett saman af fá­mennum hópi eins og ég segi þá er hún send á mjög fá­mennan hóp innan stjórnar,“ segir Sól­veig.

Það fer þó á endanum þannig að fleiri komast á snoðir um á­lyktunina, þeirra á meðal stjórnar­maðurinn Guð­mundur Bald­vins­son. Svo kemur að því að fjöl­miðlar heyra af á­lyktuninni sem leiðir til að blaða­maður Rúv hefur sam­band við Sól­veigu þennan fimmtu­dag fyrir rúmri viku, eins og flestum er kunnugt.

„Þá á­kveð ég að reyna þessa að­ferð að fara og hóf­stillt, að ég tel mjög jarð­bundið að út­skýra fyrir starfs­manna­hópnum hvað sé að fara að gerast, þetta sé komið, þetta muni fara í fjöl­miðla,“ segir Sól­veig um starfs­manna­fundinn sem fór fram á föstu­deginum.

Sól­veig segist telja að stærsti hluti hópsins hafi ekki séð á­lyktunina. „Þess vegna hugsa ég með mér að þegar þau sjái þessar lýsingar þá muni þau átta sig á því hversu tryllings­legt þetta er og að þau muni í það minnsta vilja segja við fjöl­miðla, við ís­lenskt sam­fé­lag að nei, á skrif­stofu eflingar ríkir ekki ógnar­stjórn,“ segir hún.

„Ég reyni að út­skýra þetta allt fyrir fólki og ég auð­vitað vona að það skilji hvað ég sé að segja en svo áttaði ég mig bara á því þegar klukku­tímarnir líða að það sé ef­laust ekki að fara að gerast og svo verður það niður­staðan,“ segir Sól­veig.

Tilgangslaust að halda áfram án trúverðugleikans

Eitt­hvað af fólkinu sem starfar á skrif­stofunni hefur sagt að þau hafi ekki viljað að Sól­veig myndi hætta heldur að tekist yrði á málunum innan­húss. Sól­veig segist ekki geta skilið þá stöðu.

„Ég skil nú bara ekki hvað það þýðir vegna þess að ég út­skýrði með al­gjör­lega skýrum hætti eins skýrum og ég get hugsað mér, hverju ég stæði frammi fyrir og að ef þetta færi í fjöl­miðla þá gæti ég ekki starfað, þá væri búið að taka af mér þetta mikil­vægasta vopn, trú­verðug­leikann,“ segir Sól­veig.

Hún segir að án trú­verðug­leikans væri til­gangs­laust fyrir hana að halda á­fram störfum því þá væri and­stæðingum hennar vopn í hendi þegar hún berst fyrir réttindum annarra.

„Það væri alltaf hægt að segja bæði við mig og þessar mann­eskjur: „Já, kemur hún þessi þarna með af­töku­listann, þessi með ógnar­stjórnina, þessi klikkaða, þessi vonda.“ Það gefur auga­leið að þetta myndi ekki ganga upp, ég sá það og þessi at­burða­rás sem farið hefur af stað í kjöl­farið bara sýnir og sannar að ég hafði aug­ljós­lega rétt fyrir mér,“ segir Sól­veig.

Enn getur Sól­veig ekki sagt af eða á hvort hún muni bjóða sig fram aftur til for­mennsku í mars en hún hefur lýst því yfir að hún muni halda á­fram að taka þátt í bar­áttunni.