Matreiðslukonan Helga Gabríela segir að hún hafi brotnað í gær og fundist hún tilneydd til að svara fólki sem var að ráðast á hana og fjölskyldu hennar á netinu. Eiginmaður Helgu, fjölmiðlamaðurinn Frosti Logason hefur legið undir mikilli gagnrýni í kjölfarið að hann sagði að grínistinn Stefán Vigfússon hefði gott að því „að fá högg á kjaftinn“.
Helgu var nóg boðið í gær og svaraði fyrir sig og Frosta í gær á Twitter, en hún hefur eytt færslunum. Hún segist sjá eftir að hafa svarað í sömu mynt. Ummælin fóru víða á samfélagsmiðlum og greindi DV meðal annars frá þeim.
„Síðastliðið ár hefur verið eitt erfiðasta ár sem ég hef upplifað. Þegar fyrrverandi kærasta eiginmanns míns ákvað að koma opinberlega fram með einhliða frásögn sína af sambandi þeirra sem lauk fyrir 10 árum umturnaðist líf fjölskyldu minnar,“ segir Helga á Facebook.
Þegar hún kynnist Frosta árið 2014 var hann enn að jafna sig á andlegu ofbeldi sem hann varð fyrir í fyrra sambandi. Hún segist vita nógu mikið um það mál til að vita hversu ósanngjarna umfjöllun Frosti hefur fengið.
„Eiginmaður minn axlaði þá ábyrgð á sinni eigin líðan með mikilli sjálfsvinnu með fagaðilum, sálfræðingi og áfallaþerapista. Upp úr því fór líf okkar að blómstra, við giftum okkur, eignuðumst börn og höfum síðan þá verið að einbeita okkur að því að rækta fjölskylduna. Það varð okkur því mikið áfall þegar umrædd fyrrverandi kærasta tók málið upp með þessum hætti, tíu árum eftir þeirra síðustu samskipti og málaði eiginmann minn upp sem verstu ófreskju,“ segir Helga.
Helga segist ekki ætlast til þess að fólk skilji hvernig það er að vera í þeim aðstæðum, að andrúmsloftið í þjóðfélaginu bjóði ekki upp á að karlmaður verji sig gegn slíkum árásum.
„Eitt er að vera ein heima með börnin á meðan maðurinn minn fer á sjóinn og annað að upplifa allar árásirnar á hann, sem hafa verið nær linnulausar síðustu 10 mánuði. Ég upplifi þær árásir sem árásir á mig og það sem verra er, ég upplifi þær sem árásir á börnin mín,“ segir Helga.
Hún segir að hún hafi aldrei svarað fyrir sig, en í gær hafi ákveðnu hámarki verið náð og henni fannst hún tilneydd til að svara.
„Ég svaraði í sömu mynt og ég sé mikið eftir því. Ég var ekki með sjálfri mér. Auðvitað átti ég aldrei að svara og ég mun aldrei gera það aftur,“ segir hún að lokum.