Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir faraldurinn ekki endilega vera á uppleið hérlendis en hægt sé að gagna að því sem gefnu að ef slakað verði á takmörkunum núna muni hann fara upp. Kári var gestur Morgunútvarps Rásar 2 í morgun.

„Jólin eru hættulegur tími þegar það kemur að þessum faraldri, vegna þess að þetta er tími sem við komum saman í stærri hópum en annars. Ég held að það væri skynsamlegt að sætta sig við það að nú eigi maður að njóta jólanna í faðmi lítillar fjölskyldu sinnar og ekki vera að draga saman stórfjölskylduna og svo framvegis."

Hann segir mikilvægt að horfa aftur til fyrstu bylgju faraldursins, þær aðgerðir sem gripið hafi verið til dugi vel. „Það tók 6 vikur að ná tökum á faraldrinum með þeim hófstilltu aðgerðum sem gripið var til. Um leið og fólk fer að vera óþolinmótt og kallar eftir meira frelsi þá fer allt úr böndunum. Aðalverkefnið núna er að njóta komandi árstíðar í kyrrþey og passa sig á því að troða sér ekki um of í verslanir til að kaupa jólagjafir."

Sér ekki svigrúm til að rýmka takmarkanir

Kári segist ekki sjá fram á að hægt verði að aflétta núgildandi takmörkunum sem eru í gildi til 2. desember næstkomandi. „Ég held að prísinn við það að rýmka væri of hár. Einu breytingar sem ég myndi vilja sjá væru breytingar á landamærunum. Ég tel óskynsamlegt að leyfa tveggja vikna sóttkví og held það myndi þjóna hagsmunum samfélagsins mest að hafa tvöfalda skimun og fimm daga sóttkví. Ég tel það skynsamlegast vegna þess við höfum séð einstaka veiru lauma sér inn til landsins meðal fólks sem á að vera í sóttkví en á erfitt með að standa við hana."

Stofnaði fanklúbbinn

Aðspurður um ólíkar skoðanir hans og Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis upp á síðkastið svarar Kári að hann telji Þórólf hafa unnið verk sitt afar vel. „Hann hefur staðið vaktina lengi og ég held að hann, eins og margir aðrir, sé farinn að þreytast."

Kári segir rangt að líta svo á að þegar hann gagnrýni takmarkaðan hluta af vinnu sóttvarnalæknis þá sé um að ræða aðför að Þórólfi. „Ég stofnaði fanklúbbinn, þannig þetta er hreinn misskilningur."

Hann telur hins vegar óskynsamlegt að vera að tjá sig um hluti sem eiga að gerast í framtíðinni. „Þríeykið hefur verið að boða afléttun takmarkanna, með því hafa þau verið að ýta undir óraunhæfar væntingar sem ég tel óskynsamlegt og ekki hlutverk sóttvarnalæknis að gera slíkt. Að því sögðu tel ég Þórólf hafa unnið sitt verk gríðarlega vel. Þórólfur verður þó að vera opinn fyrir gagnrýni og má alls ekki líta á hana sem persónulega árás. Í mínu tilfelli er alls ekki um árás að ræða."

Eðlilegast að bólusetja þá elstu fyrst

Talsvert hefur verið rætt um hverjir verði bólusettir fyrst þegar bóluefni kemur á markað og í flestum tilvikum hafa heilbrigðisstarfsmenn, einkum þeir sem eru í mikilli smithættu í störfum sínum , verið settir í efsta forgang.  Kári sagði í þættinum 21 á Hringbraut á dögunum að hann teldi forgangsröðunina ekki endilega vera rétta.

Í viðtali við Morgunútvarpið í morgun segir Kári muninn á forgangsröðinni sem hann leggi til og það sem komi fram í reglugerð heilbrigðisráðherra ekki vera mikinn.

„Ég held að við eigum að bólusetja þá fyrst sem eru í mestri hættu á að smitast og þá sem eru í mestu hættu á því að deyja við að smitast."

Kári segir að heilbrigðisstarfsfólk sé ekki í meiri hættu á því að sýkjast. „Vegna þess að þegar við skoðuðum mótefni í Íslendingum þá skoðuðum við sérstaklega mótefni í starfsmönnum Landspítalans og heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og komumst að raun um að það var nákvæmlega sami hundraðshluti af heilbrigðisstarfsmönnum og Íslendingum almennt sem hafði sýkst. Sem bendir til þess að heilbrigðisstarfsmenn séu ekkert meira útsettir fyrir smiti en aðrir.“

„En þó ber að geta að ef heilbrigðisstarfsfólk sýkist þá er hætta á að þeir breiði það út meðal þeirra sem eru sjúklingar á sjúkrahúsum t.d. Þannig ég held að það væri skynsamlegt að setja heilbrigðisstarsfólk sem er að umgangast þá sem eru að sýkjast í forgang. "

Auk þess segir Kári það ekki rétt að ætla að setja alla yfir 60 ára í sama forgangshópinn. „Þeir sem eru yfir 85 ára aldri eru með 28% prósent líkur á því að deyja en þeir sem eru á milli 60 og 70 ára með tæplega 2% líkur á því að deyja. Mér þykir því eðlilegast að byrja á þeim elstu. Það er ekki sanngjarnt að setja menn sem eru með 2% og 28% líkur á að deyja í sama hóp," segir Kári á lokum.