Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar og for­maður vel­ferðar­nefndar, telur nauð­syn­legt að þingið hafi að­komu að því breyta reglum um sótt­varnir hér­lendis eftir frávísun Landsréttar á kæru sóttvarnalæknis.

Frétta­blaðið greindi frá því fyrr í kvöld að Svan­dís Svavars­dóttir vinnur nú að nýrri reglu­gerð sem mun setja skýrari og strangari reglur fyrir heima­sótt­kví. Helga Vala segir hins vegar ljóst að þar sem héraðs­dómur hefur sagt að fyrri reglu­gerð eigi ekki stoð í lögum þarf að leggja til laga­breytingu til að skylda fólk í sótt­varnar­hús framveigis.

„Þegar um er að ræða svona miklar þvingunar­að­gerðir að skikka fólk til að halda til á á­kveðnum stað þá þarf að vera skýr heimild í lögum. Það er ó­um­deilt og um það snýst niður­staða héraðs­dóms. Þú lappar ekki upp á reglu­gerð til að heimila slíkt, þú gerir það með laga­breytingu,“ segir Helga Vala.

„Ég sé ekki að heil­brigðis­ráð­herra geti gert þetta án þess að fara í gegnum þingið. Hún hefur enga heimild aðra. Hún verður að hafa lögin með sér. Þau eru ekki þarna. Það er enginn annar sem setur lög nema Al­þingi nema hún ætli að hlaupa út á Bessa­staði með bráða­birgða­lög sem hún gæti gert á morgun eða hinn en þá þarf þingið á mánu­dag að stað­festa þau lög.“

Ekkert því til fyrirstöðu að kalla þing saman

Helga Vala segir jafn­framt að ekkert kemur í veg fyrir að þingið komi saman á morgun og setji þetta í lög. Það eina sem þarf er vilji ríkis­stjórnarinnar.

„Af því að þó ég sé hluti af lög­gjafanum þá er ég þing­maður í stjórnar­and­stöðu. Ef ég myndi setja fram svona frum­varp þá fer það bara aftast í röðina og for­seti Al­þingis, sem er með dag­skrár­valdið, myndi ekki einu sinni opna tölvu­póstinn skoða hvað ég er að gera. Með fullri virðingu,“ segir Helga Vala.

„Ef ráð­herra myndi leggja þetta til á morgun væri hægt að sam­þykkja þetta fyrir mið­nætti en mögu­lega kemur hún þessu ekki í gegnum ríkis­stjórnina,“ bætir hún við.

Helga Vala segir jafn­framt að Svan­dís ætti að fara í hausatalningu og at­huga hvort það sé ekki meiri­hluti á Al­þingi fyrir laga­breytingunni. „Því ég held að svo sé,“ segir Helga Vala.

Helga Vala segir jafnframt að það skjóti skökku við að á sama tíma að unnið sé að því að skylda Ís­lendinga sem koma hingað til landsins frá á­hættu­svæðum í far­sóttar­hús tekur reglu­gerð dóms­mála­ráð­herra gildi sem leyfir bólu­settum ferða­mönnum utan Schen­gen að sleppa við sótt­kví.

„Annað hvort tökum við al­var­lega það sem sér­fræðingur í far­alds­fræðum segir, sem er okkar sótt­varna­læknir, þegar hann segir fullum fetum að hann hafi veru­legar á­hyggjur af stöðunni núna. Það voru sex smit utan sótt­kvíar að greinast núna og þau má rekja til ein­stak­lings sem kom hingað með vott­orð,“ segir Helga Vala að lokum.