Trausti Fannar Vals­son, for­seti laga­deildar Há­skóla Ís­lands og sér­fræðingur í stjórn­sýslu­rétti, mætti á opin fund í undir­búnings­nefnd fyrir rann­sókn kjör­bréfa á Al­þingi í dag.

Hann fór yfir tengsl stjórn­sýslu­laga við á­kvarðanir yfir­kjör­stjórnar í Norð­vestur­kjör­dæmi í tengslum við endur­talningu at­kvæða og störf undir­búnings­kjör­bréfa­nefndar.

Að mati Trausta teljast ekki allar á­kvarðanir yfir­kjör­stjórnar stjórn­valds­á­kvarðanir. Hann velti því upp hvort bókun um niður­stöðu talningar teldist stjórnvaldsá­kvörðun sem slík og þá hvort það þyrfti þá að aftur­kalla á­kvörðunina til að mega telja aftur.

„Stjórn­sýslu­lögin gilda ekki nema að um stjórn­valds­á­kvörðun sé að ræða að öllu jöfnu. Al­mennar ráð­stafanir að hálfu stjórn­valda, ef við horfum á kjör­stjórnir og fram­kvæmd talningar, þá teljast þær að mínu mati ekki vera stjórn­valds­á­kvarðanir. Hins vegar geta ein­stakar á­kvarðanir kjör­stjórnar verið það,“ sagði Trausti á fundinum.

Trausti færði síðan mál sitt yfir á endutalninguna í Norð­vestur­kjör­dæmi og velti því upp hvort niður­staðan eftir fyrstu talningu væri stjórn­valds­á­kvörðun eða ekki.

„Ef að yfir­kjör­stjórn kjör­dæmis hefur lokið talningu og bókað um niður­stöður í gerða­bók í sam­ræmi við það verk­lag sem lýst er í kosninga­lögunum. Er þá sú á­kvörðun endan­leg? Og eru af­leiðingar þess þá slíkar að yfir­kjör­stjórn megi ekki taka málið upp aftur og telja aftur nema full­nægt sé þá skil­yrðum stjórn­sýslu­laga um aftur­köllun á­kvörðunarinnar eða ein­hverjum sam­bæri­legum skil­yrðum,“ velti Trausti upp.

Hann velti síðan upp annarri spurningu um hvort fyrsta talningin ætti að standa ef seinni talningin var ekki rétt fram­kvæmd en vildi sjálfur síðan ekki taka af­stöðu til þess.

„Þessi bókun yfir­kjör­stjórnar telst ekki vera stjórn­valds­á­kvörðun í mínum skilningi,“ bætti Trausti við. „Þetta er bókun um niður­stöðu talningar. Sam­hliða því að lesa niður­stöðu talningar tekur kjör­stjórn ein­hverjar á­kvarðanir sem geta verið stjórn­valds­á­kvarðanir en ég tel þetta ekki vera stjórn­valds­á­kvörðun,“ sagði Trausti.

„Spurningin um það hvort það sé heimilt að telja aftur er þýðingar­mikil“

Trausti sagði þetta ekki hafa þýðingu um niður­stöðu máls þar sem kosninga­lögin ganga framar stjórn­sýslu­lögum og inni­halda kæru­heimildir.

Hann sagði hins vegar mikil­vægt að svara þeirri spurningu um hvort það hafi verið heimild til að telja aftur.

„Spurningin um það hvort það sé heimilt að telja aftur er þýðingar­mikil því ef við veltum fyrir okkur þeim ann­mörkum á kosningum sem geta leitt til ó­gildingar þá þurfum við að hafa í huga hversu veru­legir ann­markarnir eru. Ann­markar sem hafa þær af­leiðingar að efnis­leg niður­staða er röng eru þeir taldir veru­legir og geta leitt til ó­gildingar. Ann­markar sem fremur eru um fram­kvæmd og við sjáum ekki fyrir okkur að geti haft á­hrif á niður­stöðu kosninga þeir ættu al­mennt ekki að leiða til ó­gildingar,“ sagði Trausti.

Ljósmynd/skjáskot

„Þess vegna er mikil­vægt að átta sig á því hvort það var heimilt að telja aftur því það breytti jú niður­stöðu,“ sagði Trausti áður en hann hélt tölu um ann­marka í stjórn­sýslu­málum al­mennt.

Að þeirri tölu lokinni svaraði Trausti loks eigin spurningu en hann taldi endur­talninguna vera lögum sam­kvæmt.

„Ef ekki var heimilt að endur­telja getur slíkt falið í sér efnis­legan ann­marka á þeirri niður­stöðu sem kom frá kjör­stjórninni. En þegar yfir þetta er farið þá sé ég hins vegar ekkert í lögum sem bannar endur­talningu,“ sagði Trausti og bætti við að hann væri að tala ab­strakt.