Helena Rós Sturludóttir
Sunnudagur 7. ágúst 2022
20.15 GMT

Alexander Aron Guðjónsson, rafvirki og meðstjórnandi Hinsegin Vesturland, segir upplifun margra á landsbyggðinni vera að hinsegin fólk sé eingöngu að finna í Reykjavík. Þrátt fyrir að það sé svo sannarlega ekki raunin sá hann sjálfur fyrir sér að þurfa flytja frá heimabæ sínum, Akranesi, til borgarinnar til að koma út úr skápnum þegar hann var yngri.

„Ég sá fyrir mér að ég gæti ekki verið samkynhneigður á Akranesi,“ segir Alexander Aron og bætir við að það hafi skort hinsegin fyrirmyndir þar.

„Það er svo mikilvægt í öllu að hafa einhverjar fyrirmyndir. Sama hversu lítið eða stórt það er. Sama hvort það er í íþróttum eða í námi eða hverju sem er,“ segir Alexander Aron. Mikilvægt sé að einstaklingar geti speglað sig í sínu nærumhverfi.

Síðustu daga hafa Hinsegin dagar í Reykjavík farið fram en þeir náðu hámarki í gær þegar Gleðigangan fór fram.

Allt í Reykjavík

„Þegar ég var að finna út hver ég væri var ég eitthvað að gúggla, hommar á Íslandi og samkynhneigðir á Íslandi,“ segir Alexander Aron og útskýrir að allt fólkið sem kom upp í leitarvélinni hafi verið staðsett í Reykjavík.

Alexander Aron segist hafa vitað af einum hinseginn einstakling á Akranesi á meðan heilt hinseginn samfélag væri að finna í Reykjavík.

Við það bættist svo öll þjónusta tengd hinsegin einstaklingum, öll aðstoð og samtök, allt staðsett í Reykjavík.

Ég er hommi

Aðspurður segir Alexander Aron hafa fundið það mjög snemma að hann væri samkynhneigður.

Það hafi svo ekki verið fyrr en í áttunda bekk sem honum tókst loks að viðurkenna það fyrir sjálfum sér og segja það upphátt.

„Ég fer inn á bað heima hjá mér, loka hurðinni og kveiki á sturtunni. Svo stend ég bara fyrir framan spegilinn og ég hugsaði ég fer ekki héðan út fyrr en ég segi þetta upphátt.

Ég var hágrátandi og gat ekki hætt að gráta fyrr en ég sagði upphátt: Ég er hommi,“ segir Alexander Aron og bætir við að hann hafi talið að heimurinn myndi enda þá og þegar.

Þegar fram var komið fannst honum nóg að hafa viðurkennt þetta fyrir sjálfum sér. Næst á dagskrá var að halda áfram með lífið, eignast konu og börn.

Óttaðist viðbrögðin

Það var ekki fyrr en einu og hálfu ári síðar sem Alexander Aron sagði vinkonu sinni frá því að hann væri samkynhneigður. Alexander Aron segir vinkonu sína hafa tekið því mjög vel og að hún hafi verið þakklát traustinu. Því næst hafi hún spurt hvenær hann ætlaði að segja foreldrum sínum en Alexander Aron segir að það hafi í raun aldrei verið inni í myndinni þá.

„Ég var bara hræddur um viðbrögðin. Ég vildi ekki bregðast þeim. En svo á ég bara besta samband í heimi við foreldra mína, þau eru best,“ segir Alexander Aron og ljómar. Þau séu hans helstu stuðningsmenn í einu og öllu.

Eftirminnileg stund

Alexander Aron rifjar upp stundina þegar hann sagði foreldrum sínum frá. „Mamma sagðist vera búin að þekkja mig allt mitt líf og að hún hefði vitað þetta.“ Síðan bætti hún við: „Það er ekki nóg að þora segja þetta í dimmu, þú verður að þora segja þetta í björtu.“

Síðan liðu nokkrar vikur þar til Alexander Aron ákvað að leyfa fréttunum að spyrjast út og voru viðbrögðin góð.

Að sögn Alexanders Aron eru nokkrir úr hans vinahópi frá Akranesi hinsegin og áður en þau komu út úr skápnum héldu þau öll að þau væru ein.

„Það er mjög skemmtileg tilfinning hvað ég þekki orðið marga hinsegin frá Akranesi. En svo finnst mér líka fínt að koma til Reykjavíkur í meiri hinsegin kjarna,“ segir Alexander Aron.

Alexander Aron elskar að mála sig og vera með skartgripi sem taka pláss og í fötum sem lætur fólk taka eftir sér.
Fréttablaðið/Valli

Hinsegin Vesturland

Alexander Aron er í stjórn Hinsegin Vesturland en hann telur mikla þörf fyrir félög eins og Hinsegin Vesturland á landsbyggðinni en félagið var stofnað í febrúar í fyrra. Eftir mörg bakslög dugi engin vettlingatök.

Hann telur mun auðveldara að koma út úr skápnum í bæjum sem eru nálægt Reykjavík, líkt og Akranesi, frekar en þeim sem eru lengra úti á landi. „Þá ertu komin í miklu minni þéttbýliskjarna þar sem þessi málefni eru bara ekkert rædd. Þeim er svolítið sópað undir teppið.“

Alexander Aron segir fræðslu nauðsynlega allan ársins hring. Þá sé ekki nóg að vera með fræðslu fyrir börn og unglinga heldur þurfi líka að fræða foreldra. Best væri ef foreldrar hinsegin barna fræddu aðra foreldra. „Það er ekki heimsendir að barnið þitt sé hinsegin.“

Meira en gleði og glimmer

„Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú að við sýnum stuðning í við hinsegin fólk enda snýst gleðigangan ekki bara um gleði og glimmer heldur mannréttindi og frelsi hinsegin fólks. Við mótmælum hatri og fögnum fjölbreytileikanum,“ segir Alexander Aron um Hinsegin daga sem hafa staðið yfir í Reykjavík síðastliðna viku.

„Ungmenni eru framtíðin og hinsegin ungmenni eiga fordómalausa framtíð fulla af ást skilið,“ segir Alexander Aron að lokum.

Athugasemdir