Inda Björk, aðstandandi einstaklinga með fíknisjúkdóma, er gestur í nýjasta þætti hlaðvarpsins Það er von. Þar lýsir hún opinskátt reynslu sinni sem aðstandanda en maður hennar og sonur glíma við slíkan vanda.

Móðir hennar féll fyrir eigin hendi þegar Inda var ungabarn eftir mikla neyslu. Inda segir frá því að orsök móðurmissins hafi verið leyndarmál og slík mál ekki verið rædd í þá daga. „Ég er orðin 18 eða 19 þegar ég kemst að því hvernig móðir mín deyr,“ segir hún.

Eiginmaður hennar hefur verið í bata frá fíknisjúkdóm síðan 1997. „Hann er leiðinlegasti alkinn í heimi, þegar hann er í því,“ segir hún um mann sinn þegar hann er í neyslu.

Ákvað að vera klikkaða mamma

Elsti sonur Indu hefur í nokkur ár barist við fíknisjúkdóm. Í hlaðvarpinu tjáir hún sig um þær tilfinningar sem því fylgja að eiga barn sem glímir við þann vanda. Hún ákvað að eigin sögn að vera klikkaða mamman og átti þá von heitasta að enginn vildi neyta vímuefna með syni hennar. „Ég ruddist inn í partí og sló hættulega menn,“ segir hún um það hvernig hún reyndi að bjarga syni sínum úr neyslu.

Er álagið vegna vanda sonar hennar var orðið mikið greip hún til þess ráðs að ganga Helgafellið í Hafnafirði að veturlagi, sama hvernig viðraði. „Ég stóð uppi á fellinu, horfði yfir ljósin í borginni og hugsaði með mér: Ég veit ekki hvar sonur minn er.“

Indu tókst með aðstoð annarra að koma syni sínum í meðferð. Hann fór í meðferð bæði hér á landi og í Svíþjóð en er hann kom heim féll hann og byrjaði aftur í neyslu. Það stóð ekki langt yfir og þakkar hún fyrir það, „því ég er ekki viss um að ég hefði hreinlega lifað það af.“