Jóhanna Guðrún Jónsdóttir segir frá því í viðtali við helgarblað Fréttablaðsins hvernig hún og maðurinn hennar, Ólafur Friðrik Ólafsson, fundu hvort annað á ný.

Jóhanna og Ólafur tóku saman fyrir tveimur árum en það voru ekki þeirra fyrstu kynni enda höfðu þau verið par á sínum yngri árum, eða frá 2008 til 2010.

Aðspurð hvort þetta sé sönnun þess að lengi lifi í gömlum glæðum skellir Jóhanna upp úr og segir:

„Já, ætli það ekki bara. Við höfðum ekkert talað saman í öll þessi ár. Við vorum búin að fara út í lífið og gera alls konar hluti sitt í hvoru lagi en ekkert búin að mætast. Ég rakst svo á hann eftir að ég skildi. Ég upplifði það sem þessa ákveðnu stýringu, ég átti bara að hitta þennan mann.“

Jóhanna segir að eftir þennan óvænta fund hafi þau tekið upp spjall og fljótt hafi verið ljóst í hvað stefndi þó svo hún hafi alls ekki verið á leið í nýtt samband, nýskilin með tvö lítil börn.

„Þetta var alls ekki planið mitt, ég ætlaði bara að skapa mér líf með börnunum mínum tveimur. Ég ætlaði að prófa það í einhver ár svo þetta var alveg u-beygja. Það var heldur ekkert planað að eignast barn svo snemma en hún er náttúrlega fullkomin og við gætum ekki verið glaðari með hana. Hún er algjört ljós í lífi allra í kring.“