Kraumandi óánægju gætir á Twitter í garð Icelandair, vegna aflýstra flugferða. „Ég ráðlegg ykkur að fara ekki til Íslands svo þið sleppið við að hafa samskipti við Icelandair,“ segir einn farþeginn. Mikil örtröð er á flugvellinum.

Þrjátíu og fjórum flugferðum hefur í dag verið frestað, samkvæmt upplýsingasíðu Isavia um brottfarir og komur til og frá Keflavíkurflugvelli. Ástæðan er mikill vindur. Fyrir vikið bíða fjölmargir flugfarþegar þess nú að vita hvort þeir komist í flug.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að sautján flugferðum hefði verið aflýst, flestum með Icelandair til Norður-Ameríku en einnig nokkrum Evrópuflugum.

Alls hefur 24 ferðum frá flugvellinum verið aflýst í dag en einnig er búið að aflýsa 15 flugferðum til Íslands. Þeirra á meðal eru flug heim frá Oslo, Barcelona, Brussel og Kaupmannahöfn. Fjölmargar vélar Icelandair lenda þó á Keflavíkurflugvelli um eða undir miðnættið.

Hér má sjá hvaða flugferðir til landsins hafa verið felld niður í dag:

Hér má sjá hvaða flugferðir frá landinu verða ekki farnar í dag.

Á Twitter má greina mikla gremju gagnvart stöðunni. Hún bitnar aðallega á Icelandair. Fjölmargir kvarta yfir skorti á upplýsingagjöf. „Þið verðið bara að svara okkur,“ segir einn. Annar segir að þjónusta flugfélagsins sé afar sælm: „Ég er búinn að reyna að ná sambandi við ykkur í gegn um Twitter, Facebook og símanúmerin ykkar í Kanada, Bretlandi og Bandaríkjunum. Ég hef enn engin svör fengið. Þetta er mjög pirrandi.“

Nokkrir eru þó ánægðir með upplýsingagjöfina. „Takk fyrir að bjarga málunum,“ skrifar einn flugfarþeginn.