Birgir Dýrfjörð hefur sagt sig úr uppstillinganefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Birgi þar sem hann segist óttast að flokkurinn fremji ódæðisverk gegn óvirkum alkóhólistum.
Birgir er formaður landsmálafélagsins Rósarinnar og á þar með sæti í uppstillingarnefndinni. Líkt og Fréttablaðið greindi frá var Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður flokksins, ekki meðal efstu fimm í könnun Samfylkingarinnar.
Ljóst er á tilkynningu Birgis að hann telur illa farið með Ágúst. Hann tekur fram að hann hafi undirritað þagnareið um störf sín og vilji ekki rjúfa það, sér sé því aðeins fært að ræða sínar persónulegu ástæður fyrir brottför sinni úr nefndinni.
Lýsir Birgir því hvernig hann hafi oft lent í því að drekka sig úr karakter og ausa svívirðingum og tilhæfulausum ásökunum yfir fólk. 40 ár séu næsta sumar frá því hann viðurkenndi vanmátt sinn gagnvart áfengi.
„Ég er svo lánsamur að hafa umgengist gott fólk, sem aldrei hefur núið mér því um nasir, hve oft ég varð mér til skammar drukkinn,“ skrifar Birgir og vísar þar næst í mál Ágústs Ólafs. Þingmaðurinn leitaði sér aðstoðar SÁÁ vegna áfengisvanda, eftir að hafa gengist við ásökunum á hendur sér um kynferðislega áreitni.
„En það breytir ekki því að ég tek mjög nærri mér þegar væn manneskja hefur leitað sér lækningar, og sannanlega náð góðum bata, og bætt ráð sitt, er dæmd vanhæf og brottrekin með þeim rökum, að hún sé ekki traustsins verð vegna fyrri hegðunar í ölæði. Það finnst mér skelfilegt ódæðisverk gegn óvirkum alkóhólistum,“ skrifar Birgir.
„Ég óttast að Samfylkingin fremji nú það ódæðisverki gegn óvirkum alkóhólistum. Þar vil ég ekki vera. Því segi ég af mér, - og get ekki annað,“ skrifar hann. Hann segir eðlilegt að spurt sé hvers vegna hann taki ekki slaginn og láti sig hverfa af vettvnagi.
„Því er til að svara, að ég hef ekkert dagskrárvald í málinu. Það hefur formaðurinn einn. Einnig er því til að svara, að þrátt fyrir að í uppstillingarnefnd sé heiðarlegt vel meinandi og gott fólk, þá finn ég mjög fyrir nöprum næðingi heiftar, sem ég ræð ekki við að stöðva. Ekki frekar en troða strigapoka upp í norðangáttina.“