Átröskun er afleiðing áfalla og hefur áhrif á alla aðstandendur sjúklingsins, segir Elín Vigdís Guðmundsdóttir, lög- og mannfræðingur sem nýverið stofnaði samtökin Sátt um átröskun. Hún mætti á Fréttavaktina á Hringbraut.

Elín Vigdís fór sjálf í meðferð vegna átröskunar utan landsteinanna. „Ég var með alvarlega átröskun frá því að ég var um 17 ára og fór í meðferð við því fyrir fimmtán árum í Kanada og þá var mjög lítil aðstoð hérna í boði eins og líka núna. Meðan biðin er þá þarf maður að greiða mjög mikið fyrir sálfræðiþjónustu sem er engan vegin fullnægjandi“ segir hún.

Lífshættuleg veikindi og biðlistar

„Okkur finnst nauðsynlegt að bæta meðferðarúrræði hér á landi og auka fræðslu og forvarnir, þetta er mjög útbreitt vandamál, margir glíma við átröskun í okkar samfélagi,“ segir hún og að biðlistar séu mjög langir til að komast í átröskunarteymið á Landspítalanum. Hún segir það líða fyrir fjárskort en átröskun séu lífshættuleg veikindi eins og þekkt er.

Samfélagið verðalaunaði veikindin

Meðferðin í Kanada tók Elínu nokkra mánuði. „Þar fékk ég mjög heildræna nálgun á minn bata. Átröskunin sjálf er í raun og veru bara birtingarmynd vandans, við erum að deyfa eitthvað, við erum að flýja eitthvað vandamál og í mínu tilviki var þetta vandamál sem kom úr æsku, þetta var ótti og stjórn,“ segir Elín Vigdís og síðast en ekki síst hafi jákvæð skilaboð frá samfélaginu tekið við. „Viltu vera módel eða þetta og hitt og allir vildu bara meira af þessu,“ og meinar að því grennri sem hún væri því eftirsóttari hafi hún verið.

Elín Vigdís hefur stofnað ásamt öðrum samtökin Sátt um átröskun
Mynd/Hringbraut

Hún segir að fyrst sé mikilvægt að fá aðstoð til að ná bata með matinn og síðan að fá aðstoð og aðhlynningu til að glíma við orsökina, það hafi hún lært í sinni meðferð. „Ég þurfti að takast á við ástæðuna fyrir því að ég var að nota mat sem mitt fíkniefni og þegar maður vinnur þá vinnu þá þarf maður ekki lengur að deyfa sig.“

Vissi ekki hvað hafði áhrif

Þar hafi hún komist að mörgu um sjálfa sig og verið í öruggu rými að takast á við sjálfa sig: „Það komu í ljós alls konar nýir hlutir sem ég hafði ekki einu sinni ímyndað mér að væru að hafa áhrif á mig.“ Þegar þar var komið fór matur að skipta minna máli, segir Elín.

Stolt af meðferðinni

Margrét Helgadóttir og Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir stofnuðu samtökin með Elínu Vigdísi og saman vilja þær ásamt fleira fólki tala opinskátt um átröskun og hvers konar meðferð þarf við henni.

Hún segist líta á sjálfa sig út frá þeirri sjálfsvinnu sem hún hafi lokið og sé stolt af. „Ég lít ekki á mig sem átröskunarsjúkling í bata, að í hvert skipti sem ég borða þurfi ég að hugsa mikið um það. Ég skilgreini mig út frá því sem ég þurfti að gera til þess að ná mér út úr því, það er það sem ég lít á.“