Sumarið hefur sest að í andliti Loga Más Einarssonar þar sem ég hitti hann vestur á Seljavegi í Reykjavík á heiðríkum júnídegi, en heita má að sólin strái silfri á skalla þessa lífsglaða manns þegar við snörumst utan af gangstéttinni og Logi lýkur upp dyrunum að litlu íbúðinni sinni í gula húsinu við götuna, en það er afdrep hans í Reykjavík.

„Kannski enginn Garðabæjargelmir,“ hefur hann á orði um þessi híbýli sín, „en nóg fyrir strák að norðan,“ bætir hann við, léttur í lyndi, þegar hann sest á móti gömlum granna sínum af Syðri-Brekkunni á Akureyri, en báðir mega nú heita miðaldra og hafa skotið misjafnlega sterkur rótum í Reykjavík, hann þó sýnu veikari en sá sem hér heldur á penna.

Allt í kringum borðstofuborðið eru fögur og litrík málverk eftir son hans, Úlf, sem nemur nú list sína í þýskri borg – og þegar við blim­skökkum augunum yfir þessi litríku portrett sonarins, sterklega strokin, kemur ósjálfrátt upp í huga manns að í ættboga Loga erfist listin í beinan karllegg, en Einar Helgason, faðir Loga, var rómaður listmálari á Akureyri á sinni tíð.

„Ég hefði getað valið myndlistina, vissulega,“ segir sonur Einars úr Norðurbyggðinni, „en ég er rola sem vildi hafa vaðið fyrir neðan mig og valdi arkitektúrinn af praktískum ástæðum,“ bætir hann við og minnir á að alla sína tíð hafi hann átt auðveldara með að teikna en skrifa, eilíflega hafi hann verið að rissa, hvar sem hann hafi borið niður, hugsi frekar í myndum en orðum.

Stóð ekki til að vera formaður lengi

Við horfumst sem snöggvast í augu eftir að hafa notið mynda Úlfs um stund – og í tilviki spyrilsins liggur beinast við að nota tækifærið og spyrja formanninn að því augljósa, af hverju hann sé að yfirgefa forystustólinn?

„Það stóð aldrei til af minni hálfu að vera lengi í þessu,“ svarar Logi og á við formennskuna, en það er til merkis um örlög norðanmannsins að hann hefur setið lengst allra á formannsstóli í tuttugu og tveggja ára sögu Samfylkingarinnar, „sem líklega enginn átti von á,“ hnykkir hann á – og brosið, eins og stundum áður, nær auðveldlega til augnanna.

„Það var augljóst eftir þingkosningarnar síðastliðið haust að flokkurinn uppskar ekki það sem liðsmenn hans vonuðust eftir og mér fannst þá gefið að ég myndi axla mín skinn,“ segir Logi og kveðst hafa tekið ákvörðun sína á þeim tíma – og hún hafi verið jafn einföld og hún var auðveld. „Ég ætlaði að hætta strax, en ég var hvattur til að bíða með þá ákvörðun, að minnsta kosti um sinn.“

Nú er umþóttunartíminn að baki. „Ég beið eftir hentugu tækifæri til að greina frá ákvörðun minni og núna er það runnið upp, með góðum fyrirvara fyrir landsfundinn í haust. Sumarið er að byrja – og þetta er rétti tíminn fyrir mig til að segja frá því að ég sé að hætta formennsku og þetta er líka rétti tíminn fyrir flokkinn til að undirbúa nýja forystu,“ segir hann einbeittur.

Hann kveðst kveðja sáttur, „alveg afskaplega sáttur,“ segir hann ákveðið og leggur áherslu á það með hreyfingu handa sinna. „En ég er auðvitað að axla ábyrgð. Við skulum ekkert horfa fram hjá því. Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég,“ segir Logi og kveðst engu að síður geta horft stoltur um öxl.

„Mér finnst mér hafa tekist ágætlega upp í leiðtogahlutverkinu – og ef ég á að vera alveg ærlegur þá hefur mér tekist bara býsna vel að halda hópnum saman. Ég hef alltaf haft það að leiðarljósi í starfi og leik að virkja fólkið í kringum mig, enda finnst mér samvinna og samstarf alltaf skila betri árangri en að hlaða völdunum í kringum sig og hleypa helst engum öðrum að ákvarðanatökunni. Þannig hef ég aldrei viljað vinna,“ segir Logi og það er sem honum sé hlaupið kapp í kinn.

Kallaður útfararstjóri Samfylkingarinnar

Hann settist á þing fyrir Samfylkinguna árið 2016 eftir að flokkurinn hafði goldið sögulegt afhroð í alþingiskosningunum þá um haustið, en pólitískur ófriður hafði geisað í landinu vegna leka á gögnum úr skattaskjölum sem endaði með sögufrægri afsögn forsætisráðherra og stjórnarkreppu.

„Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég,“

Samfylkingin fékk aðeins þrjá þingmenn kjörna í landsbyggðarkjördæmunum, engan í Reykjavík og nágrenni – og af þessum þremur þingmönnum var Logi, oddvitinn í Norðausturkjördæmi, sá eini af þeim sem var kjördæmakjörinn. Lægra gat risið ekki orðið á flokknum sem örfáum árum áður státaði af tuttugu þingmönnum.

Og svo lágt var það reyndar að gamalreyndur þingmaður Vinstri grænna sá svo miklar aumur á fámennum þingflokki Samfylkingarinnar að hann bauð honum að sameinast þingflokki sínum. „En ég sagði nú bara takk, en nei takk,“ segir Logi og það færist kunnuglegt glott yfir varir hans.

Þremenningunum hafi meira að segja verið boðið að fylgja með í pakkanum í næstu ríkisstjórn og starfa þar með Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum, „en ég sá nú bara strax fyrir mér teikningu Halldórs af fjórflokknum í Fréttablaðinu,“ segir Logi og kveðst hafa metið þetta tilboð eins og hvert annað grín, þá nokkurra vikna gamall formaðurinn.

„Ég var kallaður útfararstjóri Samfylkingarinnar þegar ég tók við formennskunni af Oddnýju G. Harðardóttur sem hafði strax sagt af sér eftir kosningaúrslitin og átti eftir að reynast mér afskaplega vel,“ segir Logi þegar hann rifjar upp þessa umbrotatíma, en hann var varla tekinn við sem varaformaður flokksins að hann var orðinn formaður hans í desember á þessu undarlega kosningaári.

Ekki hafði hann órað fyrir því hlutverki nokkrum mánuðum áður. „En fyrst ég var orðinn formaður svona óvænt hugsaði ég með sjálfum mér, það er ekkert annað að gera en að spýta í lófana, þetta er alvöru verkefni og ég tek það alvarlega, mjög alvarlega.“

Og eftirleikinn þekkja menn. „Núna spá engir Samfylkingunni dauða, heldur spyr fólk sig þeirrar eðlilegu spurningar af hverju flokkurinn sé ekki með að minnsta kosti tuttugu prósenta fylgi. Svarið við því er einfalt, hann á að geta orðið slíkur flokkur, enda hefur hann alla burði til þess, en einn lykillinn að því er að hann fái nýtt blóð í forystuna,“ segir Logi og lemur hæfilega fast í borðið – og það er greinilegt að honum er meira umhugað um hreyfingu jafnaðarmanna en eigin hag í pólitíkinni.

Ég færi mig til á vellinum

Hann kveðst hlakka til þess að gerast óbreyttur þingmaður – og vel að merkja, það er ekkert fararsnið á honum úr þinginu, enda iðar hann enn í sínu pólitíska skinni. „Ég hlakka til þess frelsis að vinna að mínum pólitísku málum sem fótgönguliði. Það fylgja því ákveðnar skyldur að leiða stjórnmálaflokk og þar hefur maður einkum það hlutverk að miðla sameiginlegri sýn flokksmanna. Eftir að formennskan verður að baki á ég væntanlega auðveldara með að tala út um mína pólitík. Og starfa meira á heimavelli í mínu kjördæmi. Ég færi mig til á vellinum, fyrirliðinn breytist í vinstri bakvörð, en vel að merkja, mjög sóknarþenkjandi,“ segir hann og meinar það, en það má lesa tilhlökkun úr andliti þessa fráfarandi formanns Samfylkingarinnar, sem, já, hefur setið þar manna lengst.

Við tölum um mistök hans á formannsstóli – og Logi er ekki tregur til svars enda megi það heita sammannlegt að gera mistök, stór og smá.

„Það er þannig í lífi og starfi formanns í stjórnmálaflokki að hann verður að taka af skarið án þess að hann sjái endilega lyktirnar fyrir. Og þó að ákvörðunin á einum tíma leiði ekki til þeirra niðurstöðu sem vænst var, þá hefði sennilega verið verra að heykjast á henni. Aðal­atriði er að taka ákvörðunina og vera ekki hræddur við hana,“ segir hann og lyftir höfði, íbygginn.

Og þegar gengið er á hann með þeim orðum að Samfylkingin hafi færst full mikið til vinstri í hans formannstíð, þvertekur hann fyrir að svo hafi verið, enda hafi það fyrst og fremst verið pólitíkin sjálf sem hafi verið að færast til hægri. „Utanað­komandi áhrif kalla hins vegar á róttækari lausnir en nokkru sinni og það á ekki aðeins við um loftslagsmálin heldur ekki síður öfluga samneyslu sem hefur aldrei verið mikilvægari.“

Hann segist ekki hafa verið beittur þrýstingi til að stíga niður af formannsstóli, ekki nokkru sinni. „Ég hef notið ótrúlega mikils velvilja í flokknum og furðulega mikillar þolinmæði, verð ég nú að segja, í ljósi þess að ég er eflaust gallagripur og get verið fljótfær og hvatvís.“

Og þegar hann er inntur eftir því hvort hann hafi verið umdeildur innan eigin flokks, stendur heldur ekki á svari eftir að brosið færist yfir kinnarnar. „Svei mér þá, ég held ekki,“ og hann skellir upp úr, svo lengi að full ástæða er til að ganga á lagið og spyrja hvort hann haldi að hann hafi verið ástsæll foringi – og þá fórnar hann höndum. „Nei, ekki láta mig svara þessu.“

Og þar við situr.

Það þarf öðruvísi mann en mig

Talið berst að því hvernig formann flokkinn vanti. „Öðruvísi mann en mig,“ svarar hann sposkur að bragði. Hans hlutverk hafi verið að halda flokknum á floti við mjög flóknar aðstæður, efla samheldni innan flokksins, þétta raðir og hlúa að vináttu. „Og ég held að mér hafi að mörgu leyti tekist að halda sjó ásamt því góða fólki sem hefur verið með mér í forystu flokksins og starfsmönnum hans.“

Hann segir að Samfylkingin þurfi á næstu árum að hafa formann í brúnni sem hafi óbilandi trú á sjálfum sér, „en það hef ég nú ekki alltaf haft,“ bætir hann við, ærlegur, enn sem fyrr. „Mundu,“ segir hann, „að ég sóttist ekki eftir formennskunni, en fékk hana í fangið. Og þótt ég sé óhræddur og vanur við að takast á við flókin og erfið verkefni er ég ekki endilega viss um að mér hafi verið ætlað að halda lengi um valdataumana í flokknum.“

Logi hefur verið á þingi fyrir Samfylkinguna undanfarin sex ár.
fréttablaðið/eyþór

En hann hafi vissulega notið þessa tíma sem er orðinn hálft sjötta ár og gott betur. „Hann hefur gefið mér tækifæri til að vera í miklum samskiptum við fólk af öllu tagi. Það er súrefnið sem ég þarf. Það er súrefnið sem ég hef alltaf þurft. Og þótt ég geti nú alveg þrifist í samneyti við sjálfan mig og einveruna þá eflist ég miklu fremur við það að vera innan um sterkt og afgerandi fólk, jafnt í Samfylkingunni og öðrum flokkum. Það er svo nærandi að geta notið sín í breiðum hópi fólks sem hefur ólíkar skoðanir. Og formennskan hefur heldur betur veitt mér það tækifæri.“

Fátt segir hann einmitt mikilvægara í pólitík en að virða skoðanir annarra. „Umburðarlyndi er svo mikilvægt, það hefur alla ævina verið að kenna mér eitthvað nýtt – og án þess væri lífið, held ég, óbærilegt.“

Gott og vel, hefur spyrillinn næst á orði, fyrst flokkinn vanti öðruvísi formann, þá liggi beinast við að spyrja, hvern?

„Það er ekki mitt að segja það,“ og Loga er bent á að láta ekki svona. „Jæja,“ svarar hann strax og kveðst sjá tvo til þrjá einstaklinga innan flokksins sem geti gert góða hluti.

Og hverjir eru það, er hann spurður að bragði?

„Er það ekki nokkuð augljóst,“ og nú birtist gamla Norðurbyggðar­glottið á vörum hans, sem hefur blessunarlega aldrei elst af honum.

Breikka þarf ásýnd flokksins

Og það þarf víst að skipta um umræðuefni, enda ætlar viðmælandinn ekki að gefa upp kennitölur þessara „augljósu“ eftirmanna sinna, en það er auðvitað hægt að inna væntanlegan forvera þeirra eftir því hvert þeir eigi að fara með flokkinn.

„Ef flokkurinn ætlar sér að stækka og það þarf hann að gera, sjálfs sín vegna og þjóðarinnar, þá verður hann að breikka ásýnd sína,“ svarar Logi að bragði. „Hann þarf að hlúa að umburðarlyndinu innan eigin raða. Og hann þarf að ná aftur eyrum alls venjulegs og vinnandi fólks á sama tíma og hann má ekki hverfa frá grunngildum sínum um jöfnuð og réttlæti, öllum til handa, en vel að merkja – og skrifaðu þetta með feitu letri,“ segir Logi og bendir á skrifblokk pennahafans, „jafnaðarstefnan er lífsspursmál fyrir þjóðina, enda sýna allir mælikvarðar fræðimanna að því meiri sem jöfnuður er í samfélaginu því betri er líðan þess.“

Og hann fylgir því eftir að orðin séu skrifuð á sannfærandi máta í blokkina, harla ánægður þegar þau eru komin á blað, en flýtiskriftin hugnast honum, rissið hefur alltaf verið honum að skapi, unga listamanninum sem þorði ekki að tefla á tvísýnu listnáms, en hélt þess í stað utan til að læra að teikna hús og híbýli.

„Ég sóttist ekki eftir formennskunni, en fékk hana í fangið. Og þótt ég sé óhræddur og vanur við að takast á við flókin og erfið verkefni er ég ekki endilega viss um að mér hafi verið ætlað að halda lengi um valdataumana í flokknum.“

„Veistu,“ segir hann, „að svo kemur það bara í ljós í mínu lífi að stjórnmálin eru eins og arkitektúr og arkitektúrinn er eins og stjórnmálin,“ og það lifnar yfir honum. „Hlutverk arkitektsins er að fá hugmyndir og gera þær að veruleika eftir að hafa tekið tillit til óteljandi margra þátta,“ og nú er hann sjálfur farinn að rissa með fingrunum í borðstofuborðið á Seljavegi.

„Þetta er pólitíkin í verki – og ég var því kannski harla vel búinn undir þennan nýja kafla í lífi mínu sem pólitíkin var á sínum tíma eftir að hafa setið lungann úr starfsævinni við teikniborðið heima á Akureyri.“

Þakklætið skiptir svo miklu máli

Við stöndum upp frá borði, höldum að nóg sé komið af spjalli, en ósjálfrátt reikum við yfir að borðstofuglugganum sem veit út að bakgarðinum. „Lífið er ekki allt í forgarðinum, vinur minn,“ segir Logi og hugsunin kallar á spurningu, hvern mann hann hafi eiginlega að geyma, altso í bakgarðinum.

„Ég er svolítill sullukollur,“ segir hann og horfir dreyminn yfir biðukollurnar aftan við húsið. „Ég hef gaman af lífinu. Ég er jafn hrifnæmur og ég er viðkvæmur. En öðru fremur hef ég áhuga á því fallega,“ svarar hann og horfir enn á garðagróðurinn bærast í sumarþeynum.

„Og ég get þakkað fyrir svo margt, gleymdu því ekki, þakklætið skiptir svo miklu máli og virðingin fyrir því sem maður hefur þó fengið upp í hendurnar, foreldrana mína, Einar og Ásdísi, konuna mína Öbbu og börnin okkar tvö, Úlf og Hrefnu sem bæði eru listhneigð, hann að mála og hún að spila á gítar og syngja,“ og hann kveðst hlakka til að geta verið meira í samvistum við þau, en hann hefur æði margar vikurnar og enn þá fleiri helgarnar verið í fjarbúð með Öbbu sinni, Arnbjörgu Sigurðardóttur héraðsdómara.

„Ég hef verið heppinn í lífinu. Ég elst upp á heimili þar sem hvorki var skortur né peningar. Ég var tíu ára þegar ég áttaði mig á því hvað raunveruleg fátækt er, en þá bauð félagi minn úr fótbolta mér heim til sín. Og af því að við vorum báðir svangir þá kíkti hann inn í ísskápinn. En hann var tómur. Hann var galtómur. Þessi minning gerði mig að jafnaðarmanni,“ og að þeim orðum sögðum skottumst við út á skör og við kveðjumst að hætti gamalla vina að norðan, með þéttu faðmlagi.

„En já, ég hef verið heppinn,“ segir hann að lokum. „Ég hef varla skorið mig á fingri.“