Það er hreinlega ótrúleg upplifun að heyra og sjá Veigu Grétarsdóttur lýsa því í nýjasta viðtalsþætti Sigmundar Ernis, Mannamáli, hvernig hugur hennar hvarflaði á milli þess að svipta sig lífi eða fara í kynleiðréttingu fyrir tæpum áratug.

Á einu augnablikinu, þegar allt virtist vera svart og vonlaust, hafi hún gengið inn í herbergi litlu dóttur sinnar að kveldi til, sem þá var sofnuð – og tekið í hönd hennar – og kvatt hana endanlega í huganum. Veiga myndi ekki vera til staðar fyrir hana daginn eftir.

En einmitt þegar hún hafi staðið upp frá rúmi dótturinn, með þessa einu hugsun í kollinum, hafi hún fundið fyrir því hún gæti ekki yfirgefið dótturina. „Ég gat ekki farið frá henni.“

Þessa sögu hafi hún aldrei sagt áður, ekki einu sinni dóttur sinni.

Og þessi hugsun bjargaði Veigu sem lifir hamingjusömu lífi í dag sem kona, sem dótturinni finnist bara vera sjálfsagt mál, enda þekki hún Veigu sína ekki neitt öðruvísi.

Hér að neðan má sjá Veigu ræða þetta augnablik í lífinu.

Félagasamtök á borð við Pieta og Geðhjálp geta veitt mikilvægan stuðning og er hjálparsími Pieta, s. 552-2218 alltaf opinn, sömuleiðis Hjálparsími Rauða krossins, 1717 og netspjallið 1717.is. Sorgarmiðstöð, s. 551 4141 sinnir stuðningi við aðstandendur og Heilsugæslan getur jafnframt veitt aðstoð.