Samnorræn skýrsla frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, um stöðu barna í leit að alþjóðlega vernd varpaði gráum skugga á stöðu flóttabarna á Norðurlöndunum.

Skýrslan sýndi meðal annars að ekkert Norðurlandanna tryggir réttindi barnanna samkvæmt viðmiðum Barnasáttmálans. Fréttablaðið greindi frá þessu undir lok síðasta mánaðar þar sem rætt var við Evu Bjarnadóttur, réttindagæslufulltrúa hjá UNICEF, sem sagði að hér á landi vantaði mikið upp á að börn fái að njóta þeirra réttinda, sem búið er að tryggja þeim lagalega.

 Kom ein til Íslands sextán ára

Najmo Cumar Fiyasko er tvítugur nemi í Fjölbrautarskólanum við Ármúla. Hún kom hingað til lands ein á báti þegar hún var sextán ára eftir að hafa flúið heimaland sitt, Sómalíu, þegar átti að gefa hana í hjónaband einungis þrettán ára gamla.

Najmo hefur vakið athygli á alnetinu fyrir myndbönd sem hún gerir þar sem hún hvetur ungt í heimalandi sínu til þess að mennta sig. Þrátt fyrir að Najmo sé ánægð með líf sitt hérna á Íslandi finnst henni ýmislegt vera ábúðavant varðandi verkferla í kringum komu fylgdarlausra barna hingað til lands. Henni fannst hún meðal annars ekki vera kynnt réttindi sín nægilega vel og að hennar mati ættu börn sem sækja um hæli hér á landi að fá að ganga í skóla strax frá komu til landsins. Eins finnst Najmo kennsla í menningu og siðum Íslendinga hafa verið of lítil, sem hafði áhrif á samskipti hennar við fósturfjölskyldu sem hún bjó hjá fyrstu tíu mánuði sína á Íslandi. 

Fjölskyldulífið erfitt fyrst um sinn

„Ég hafði aldrei búið með útlendingum og talaði ekkert nema sómölsku og smá ensku, ég gat sagt nafnið mitt og aldur og það var í raun allt,“ tjáir Najmo blaðamanni.

„Þau settu mig til fósturfjölskyldu sem ég bjó með í svona tíu mánuði, sem var erfitt fyrir mig því þá hafði ég ekki búið með fjölskyldu síðan ég var 11 ára. Eftir það þurfti ég alltaf að berjast fyrir lífi mínu og réttindum og ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt.“ Najmo flúði frá Sómalíu þegar hún var þrettán ára og fannst því  erfitt að vera skyndilega komin með forráðamenn sem vildu leiðbeina henni eins og foreldrar gera. Enda er líf unglinga á flótta töluvert með öðrum máta en líf barna sem hafa alist upp í öruggu umhverfi á Íslandi.

„Ég var alltaf inni í sjálfri mér og fjölskyldulíf var erfitt fyrir mig, af því að ég kom hérna ein og svo þegar fósturmamma mín var að spyrja mig, hvert ertu að fara eða hvern ertu að tala við var það erfitt því ég hugsaði bara, bíddu ég kom hingað ein, ég er ekkert að fara að týnast,“ segir Najmo og hlær. 

Hefði viljað læra íslensku fyrst

Annar hlutur sem Najmo hefði viljað að íslensk yfirvöld stæðu betur að varðandi komu flóttabarna hingað til lands er íslenskukennsla, en Najmo var sett í enskukennslu áður en henni var kennd íslenska. 

Hún er þó orðin nokkuð sleip í íslensku, fjórum árum síðar, en enskan er þó töluvert betri. „Ég held að ef að ég hefði lært íslensku þá ætti ég auðveldar með skólann í dag. Ef þú kannt ekkert annað tungumál, þá neyðistu til að halda þig við íslensku, þá verður þú að tala við fólk í daglegu lífi á íslensku.“

Aðspurð segir Najmo einnig hefði getur verið betur staðið að menningu og siðum Íslendinga. „Ég vildi að ég hefði verið í hóp að læra og ég vildi að ég hefði hitt fólk í sömu aðstæðum og ég. Ég hitti aldrei neinn flóttamann sem hafði verið hérna á undan mér. Ég hitti bara Íslendinga og Sómala sem höfðu flutt hingað.“ 

Óttast um fjölskylduna heima í Sómalíu

Najmo gat heldur ekki útskýrt líðan sína nægilega fyrir fósturfjölskyldunni sem hún dvaldi fyrst hjá. „Ég gat ekki talað við hana[fósturmóður sína]  og alltaf þegar hún kom til mín sagðist ég bara hafa það fínt. Ég gat ekki útskýrt hvað væri að. Ég gat ekki talað við hana um vandamálin mín.“ Úr þessu hefði mátt bæta með aukinni íslenskukennslu og betri kennslu í menningu og siðum. 

Í Sómalíu á Najmo móður og átta systkini, en faðir hennar er látinn. Þrátt fyrir að búa sjálf í íslensku öryggi leitar hugur hennar gjarnan heim til Sómalíu, enda heyrir hún af sprengingum, dauða og morðum í fréttum nær daglega

„Alltaf þegar ég er á Íslandi í skólanum er hugur minn þar, en hann er líka í Sómalíu. Þegar einhver hringir í mig frá Sómalíu hugsa ég alltaf, hver dó,“ segir Najmo alvarleg.

Var ekki sagt réttilega til um réttindi sín

Stuttu eftir komu sína hingað til lands, árið 2014, fór Najmo að forvitnast um hvort möguleiki væri á því að hún gæti fengið fjölskylduna sína hingað til lands. 

Dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar eru veitt hér á landi á grundvelli 69. -72. greina laga um útlendinga nr. 80/2016. Þau eru veitt nánasta aðstandanda einstaklings sem er búsettur hér á landi, og hefur rétt til fjölskyldusameiningar. Aðrar reglur gilda fyrir börn undir 18 ára aldri sem sækja um fjölskyldusameiningu heldur en einstaklinga sem komnir eru á fullorðinsárin. 

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun eiga börn undir 18 ára aldri og búsett á Íslandi, rétt á að því samkvæmt ákveðnum skilyrðum að veita forsjárforeldri barns yngra en 18 ára dvalarleyfi hér á landi. Najmp var hins vegar ekki tjáð um þessi réttindi sín fyrr en hún var orðin 18 ára, þrátt fyrir að hún hafi leitast eftir því.

Eftir nokkra mánuði hér á landi spurði Najmo fósturmóður sína hvort það væri möguleiki á því fyrir hana að fá fjölskylduna sína hingað til lands. „Ég var síðast með þeim þegar ég var ellefu ára. Vinur minn, sem ég ferðaðist með, fór til Svíþjóðar og hann fékk fjölskylduna sína hratt.“ Najmo var hins vegar sagt að það væri ekki möguleiki og þar sem hún þekkti ekki réttindi sín, eða tungumálið, gróf hún ekki dýpra í málið.

„Þegar ég var búin að læra meiri íslensku seinna þá fór ég að skoða þetta betur sjálf og áttaði mig á því að þetta er möguleiki.“ Þá var Najmo hins vegar orðin átján ára og þar með möguleikinn á fjölskyldusameiningu á grundvelli aldurs hennar floginn út um gluggann.

Flúði undan hjónabandi 13 ára

Þegar ég kom hingað hafði ég verið á flótta lengi og var alltaf að hugsa um það hvernig ég ætti að koma mér áfram. Þegar ég kom hingað þá leið mér loksins eins og ég væri komin með heimili. Að ég væri loksins komin eitthvert sem ég gæti lifað eins lengi og ég vildi.“ 

Hún hefur nú áhyggjur af systkinum sínum í Sómalíu og vildi að þau fengu sömu tækifæri og hún. Systir hennar var til að mynda gift mun eldri manni þegar hún var einungis þrettán ára, en það voru sú örlög sem biðu Najmo þegar hún flúði Sómalíu.

„Pabbi minn var myrtur árið 2009, þegar ég var ellefu ára og eftir smá tíma var ég gefin frænda mínum sem var þá 32 ára,“ segir Najmo í tilraun til að útskýra flótta sinn til Íslands. 

„Í sómalskri menningu, ef að pabbinn deyr og börnin eru ekki fullorðin þá á bróðirnn að stíga inn fyrir föðurinn og það gerði föðurbróðir minn.“ Föðurbróðirinn vildi gifta Najmo strax og fór með hana í sveit þar sem hún átti að giftast frændanum sem var þá meira en tvöfalt eldri en hún. 

„Þetta er eitthvað sem menning og trúarbrögð í Sómalíu leyfa. Ég vildi þetta ekki svo ég flúði til Mogadishu. Þar slasaðist ég í sprengingu og endaði á spítala,“en Najmo er enn með ör á fætinum eftir sprenginguna. Föðurbróðir hennar fann hana á spítalanum og vildi koma henni aftur til frændans, en þá aðstoðuðu aðrir fjölskyldumeðlimir hana til þess að komast úr landi. 

Vissi ekki að aldursgreining ætti sér stað

Þá lá leið Najmo til Súdan. „Ég gat ekki verið þar lengi því það er erfitt að vera í landi þar sem er engin framtíð og maður er ekki að gera neitt.“ Frá Súdan hélt Najo svo ásamt hópi fólks í gegnum Sahara, til Líbíu og þaðan með þremur bátum til Möltu. 

Ferðalagið var langt og erfitt og í hópnum var meðal annars ólétt kona og sjö ára stúlka. Eftir langt og strangt ferðalag komst hún svo til Íslands, þar sem hún sótti um hæli. 

Við komuna til landsins var Najmp send í læknisskoðun og þar hún var meðal annars send í aldursgreiningu hjá tannlækni. Aðferð sem hefur verið harðlega gagnrýnd. Eva Bjarnadóttir, réttindagæslumaður UNICEF, sagði meðal annars í samtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði að það sé mikilvægt að börn hafi val um slíkt inngrip sem aldursgreiningin er.

Aðspurð segir Najima ekki hafa mikla skoðun á málinu, en hún hafi verið send í slíka greiningu án þess að vita af því. „Þau gerðu þetta við mig og ég man eftir því. Ég vissi reyndar ekkert af því, ég hélt þau væru bara að athuga hvort ég væri heilbrigð og frétti svo af því nýlega að þau hefðu verið að tékka hvað ég væri gömul,“ segir Najima og hlær. Hún kveður þó möguleika vera á því að hún hafi verið látin vita greiningunni en ekki skilið hvað væri í gangi.

Aðgerðarleysi gerir þig þunglyndan

 Í ofangreindri skýrslu UNICEF er fjallað um það hvernig fylgdarlaus börn eru stundum vistuð með fullorðnum einstaklingum þar til þau fá kennitölu. Najmogagnrýnir það að börn þurfi að bíða eftir kennitölu til að geta hafið skólagöngu og séu stundum vistuð með fullorðnum einstaklingum.

„UNICEF segir að öll börn eigi rétt á menntun. Það að þau þurfi að bíða eftir kennitölu með að fara í skóla, þá geta þau orðið þunglynd og ef þú getur ekki farið í skóla eða vinnu þá verðuru þunglyndur,“ segir hún. Najmo kveðst einnig þekkja til stráks sem var meinað að spila fótbolta með liði þar sem hann var ekki kominn með kennitölu. 

„Ég vil að krakkar geti farið í skóla um leið og þau koma til landsins. Það er betra fyrir þau að fara strax í skóla. Við höfum upplifað stríð og séð svo marga hluti. Ef ég lít til baka þá hugsa ég, vá þetta voru hræðilegir hlutir sem ég var að flýja og ég vil bara eyða minningunum.“ 

Býr til myndbönd til að blása aðrar stúlkur innblástri

Najmo er ánægð með lífið á Íslandi núna, en henni finnst erfitt að heyra hvernig ástandið er heima og vildi að staðið hefði verið öðruvísi að sínum málum á sínum tíma. „Ég er ánægð með að vera á Íslandi þó það sé sárt að heyra að það sem hefði komið fyrir mig sé enn að gerast fyrir aðrar ungar stelpur.“

Hún horfir þó björtum augum til framtíðarinnar, vill halda áfram að mennta sig og reyna að blása öðrum ungmennum frá heimalandinu innblæstri til þess að mennta sig. Etir menntaskóla stefnir hún á að læra félagsfræði í háskóla, en hana langar líka að læra stjórnmálafræði og kynjafræði.

„Stundum hugsa ég til baka og efast um sjálfan mig og hugsa, gerðist þetta í alvörunni? Stundum finnst mér lífið mitt hérna ekki vera satt, ég vakna á morgnana og áður en ég fer í skólann hugsa ég, bý ég í alvörunni hérna með þessari fjölskyldu sem mér þykir svona vænt um. Er þetta satt?“