Aðalmeðferð er hafin í Héraðsdómi Reykjaness í máli gegn Jóhannesi Tryggva Sveinbjörnssyni nuddara, sem var í fyrra dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að nauðga fjórum konum.

Jóhannes gaf skýrslu í gegnum fjarfundabúnað þar sem hann er í sóttkví. Hann sagði við upphaf þinghalds að hann ætlaði að nýta sinn rétt til að tjá sig ekki um sakargiftir umfram það sem kemur fram í lögregluskýrslunni.

„Ég get sagt það með fullri vissu að ég kom ekki við brjóst eða kynfæri þessarar stúlku á óviðeigandi hátt,“ sagði Jóhannes Tryggvi.

Þinghald er opið sem er afar fátítt í kynferðisbrotamálum. Jóhannes Tryggvi hafði farið fram á þinghald yrði lokað en konan, sem kærir Jóhannes Tryggva fyrir kynferðisbrot, krafðist þes að þinghald yrði opið og Landsréttur samþykkti það.

Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, sækir málið og Steinbergur Finnbogason lögmaður er verjandi Jóhannesar Tryggva.

Dómurinn er fjölskipaður en ásamt Inga Tryggvasyni dæmir annar héraðsdómari málið auk Hjördísar Þóru Jónsdóttur sjúkranuddara.

Málið er háð fyrir opnum tjöldum í Héraðsdómi Reykjaness. Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, sækir málið.
Fréttablaðið/Anton Brink

Segist vera að hjálpa konum

Dagmar Ösp sækjandi spurði Jóhannes Tryggva um orð sem hann lét falla í skýrslutöku hjá lögreglu.

„Samkvæmt þessu segir þú í lögregluskýrslunni; „Nei sko, þú veist, ég vinn við að ... Ég hef farið inn í leggöng til að laga vandamál en ég fer bara ekki inn í leggöng til að vera fullnægður, sko.“ Kannastu við þetta?“ spurði Dagmar og svaraði þá Jóhannes Tryggvi að hann kannaðist við að hafa verið inn í leggöng kvenna sem hafa leitað til hans vegna ýmissa vandamála.

Aðspurður hvort hann hefði gert það í máli stúlkunnar svaraði Jóhannes neitandi.

Steinbergur Finnbogason, verjandi Jóhannesar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fleiri konur leituðu til lögmanns eftir umfjöllun

Rann­sókn á máli Jóhannesar Tryggva hófst árið 2018. Það sama ár fjallaði Frétta­blaðið ítar­lega um málið og ræddi við Sig­rúnu Jóhanns­dóttur lög­mann og réttar­gæslu­mann nokkurra kvenna sem höfðu lagt fram kærur á hendur manninum. Eftir umfjöllun Fréttablaðsins um málið fjölgaði konunum og að sögn Sigrúnar leituðu á þriðja tug kvenna til hennar vegna meintra kynferðisbrota mannsins. Alls kærðu á annan tug kvenna Jóhannes fyrir kyn­ferðis­brot.

Lýsingar kvennanna voru flestar á þann veg að þær hefðu leitað til hans vegna stoð­kerfis­vanda­mála, við með­ferðina hefði hann snert kyn­færi þeirra og í flestum til­fellum farið með fingur inn í leg­göng þeirra eða enda­þarm.

Dómurinn þyngdur í Landsrétti

Meðhöndlarinn var dæmdur í fimm ára fangelsi í héraðsdómi fyrir að nauðga fjórum konum og var svo fangelsisdómurinn þyngdur í héraðsdómi í sex ár.

Brotin voru framin í skjóli starfs hans sem nuddari á tíu ára tímabili, frá árinu 2007 til 2017.