Barnabæklunarlæknir segir ástandið aldrei hafa verið neitt í líkingu við það sem það er núna á spítalanum. „Ég kem börnunum ekki í aðgerð innan ásættanlegs tímaramma,“ sagði Sigurveig Pétursdóttir við Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélagsins sem fór fram 14. október síðastliðinn.

Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Sigurveig hefur starfað sem læknir í 38 ár þar af í 30 ár sem barnabæklunarlæknir og unnið með fötluðum börnum. Hún sagði ástandið aldrei hafa verið verra.

Á aðalfundinum gafst læknum tækifæri til að greina frá áhyggjum sínum við heilbrigðisráðherra og lét Sólveig ekki sitt eftir liggja.

Sigurveig sagðist hafa verið með börn á biðlista sem hefðu beðið í ár. „Fatlað barn sem gengur með annan fótinn skakkan í ár af því að það er ekki pláss á skurðstofunni. Af hverju er ekki pláss? Jú, af því að starfsfólkið hættir. Þetta er ekki spurning um að það hafi ekki verið starfsfólk. Það hætti. Spítalinn er á hliðinni,“ sagði Sigurveig og bætti við að spítalinn væri á hliðinni núna og að það hefði ekki gerst í gær.

Á fundinum var skorað á stjórnvöld auka framlög til heilbrigðismála og lýstu fundarmenn yfir vonbrigðum með fjárlagafrumvarp næsta árs. Mikilvægt væri að grípa til aðgerða vegna heilsubrests lækna og vaxandi brotthvars þeirra.

Sigurveig sagðist sjálf vera á hnjánum og að gefast upp. „Ég er ekki manneskja sem gefst upp í fyrsta kasti og það er enginn að fara í fótspor mín. Enginn,“ sagði hún og vísaði til læknaskorts.

Á fundinum var skorað á stjórnvöld auka framlög til heilbrigðismála og lýstu fundarmenn yfir vonbrigðum með fjárlagafrumvarp næsta árs. Mikilvægt væri að grípa til aðgerða vegna heilsubrests lækna og vaxandi brotthvarfs þeirra.