Páll Óskar segir að sér sé gífur­lega létt eftir að hafa birt nektar­myndir af sjálfum sér fyrr í dag sem ó­prúttinn aðili hafði dreift af honum í ó­þökk hans eftir að hafa fengið þær sendar frá Palla á stefnu­móta­for­ritinu Grindr.

„Mér bara léttir stórum við að setja þetta í loftið,“ segir Páll. „Ég set þetta sjálfur inn á mitt Face­book og mitt Insta­gram í eigin mætti.“ Að­spurður að því hvort hann muni beita sér frekar í málinu segir Páll að hann myndi kæra við­komandi ef hann myndi vita hvern um væri að ræða.

„Ég átti þarna sam­tal fyrir svona einu og hálfu ári síðan við ein­hvern gaur á Grindr og ég venju­lega gef ekki á­fram svona per­sónu­legar myndir fyrr en sam­talið er komið á flug,“ segir Páll. Hann reyni að lesa í það hvernig við­komandi svari sér, hvort hann sé stutt­orður og svo fram­vegis.

„Og það er ekkert mál að villa á sér heimildir inn á svona stefnu­móta­öppum. Það hefur greini­lega gerst í mínu til­viki,“ segir Páll. Þegar þessi við­komandi stakk upp á því að skiptast á myndum, byrjaði hann á að senda myndir „sjálfum sér“ og fékk myndir frá Palla um hæl.

„Um leið og ég var búinn að ýta á send að þá slitnaði sam­bandið. Og ég veit ekki hvort hann hafi þá blokkað mig eða strokað út pró­fælinn sinn eða hvað,“ segir Palli. „Ég sat þarna bara og leið eins og ég hefði hlaupið 1. apríl.“ Hann fór að heyra af því fyrir rúmu ári síðan að við­komandi myndir væru í dreifingu og sá svo að það voru sömu myndir.

„En ég var ekkert að kippa mér upp við það, því í fyrsta lagi skammast ég mín ekki fyrir að lifa kyn­lífi, ég skammast mín ekki fyrir að vera á Grindr, og ég skammast mín ekki fyrir að hafa líkama og rass eins og allir hinir.“

Hann hafi aftur á móti heyrt af því í kringum af­mælið sitt í mars síðast­liðnum að myndirnar hafi farið í enn frekari dreifingu á Snapchat. „Ég er búinn að fá fleiri og fleiri skila­boð frá ó­kunnugu fólki að þau séu að sjá þetta bæði á Face­book og í Mess­en­ger og Snapchat, á lokuðum hópum,“ segir Páll.

„Þá hugsaði ég bara: „Af hverju ætti ég að vera í ein­hverri vörn? Það fer mér ekki.“ Svo ég kaus bara að snúa vörn í sókn og birti þetta bara sjálfur með skjá­skoti af þessum nýjum lögum.“

Um­rædd lög sem Páll vísar til voru sam­þykkt þann 17. febrúar síðast­liðinn. Þar kveður á um að slíkar mynd­birtingar varði hegningar­lög og sektum eða fangelsi til fjögurra ára.

„Þessi lög eru núna raun­veru­leiki. Og fólk sem lendir í svipuðu getur núna nýtt sér þau. Þetta er hætt að vera grín,“ segir Páll.

Já, gott fólk. Svona lít ég út. Fávitinn, sem ég sendi þessar myndir í trúnaði á Grindr og er nú að dreifa þeim út um...

Posted by Páll Óskar on Saturday, 17 April 2021

Myndirnar hafa verið fjarlægðar af Instagram eins og má sjá hér að neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.