Bæjarráð Garðabæjar samþykkti í dag að ganga til viðræðna við Samtökin ´78 um starfssamning til að efla hinsegin fræðslu og vitundarvakningu um hinsegin málefni í grunnskólum sveitarfélagsins.
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ´78, fagnar samþykktinni og segist hlakka til að setjast að samningaborðinu með fulltrúum Garðabæjar til að ræða þetta brýna málefni.
Leggja áherslu á fræðslu inn í grunnskólana
„Það helsta sem við myndum leggja áherslu á í þessum samningi er að þarna komi hinsegin fræðsla frá okkur inn í grunnskólana sem og aðkoma að félagsmiðstöðinni okkar fyrir hinsegin ungmenni,“ segir Álfur. Samningurinn yrði á pari við þá sem samtökin hafi þegar gert við önnur sveitarfélög.
„Nú þegar erum við með þjónustusamning við Reykjavík, Hafnarfjörð, Grindavík og Snæfellsbæ. Garðabær yrði þá fimmta sveitarfélagið á landinu sem semur við okkur,“ segir Álfur.
Aðspurður segir hann að almennt séð sé vel haldið utan um fræðslu í hinsegin málefnum, þá sérstaklega í þeim sveitarfélögum sem hafi málefni hinsegin fólks á skipulagi sínu og stefnu.
„Hingað til hefur þetta verið mjög flott hjá þeim, en okkar fræðsla beinist aðallega til starfsfólks grunnskólanna og svo til grunnskólanemenda. Eins og þetta er núna, til dæmis Grindavík og Snæfellsbæ, þá komum við inn í lífsleikni í þriðja, sjötta og níunda bekk. Þetta er stigskipt fræðsla, en smám saman verður þetta skýrara þegar krakkarnir eldast,“ segir Álfur.
Telur að alltaf megi gera betur
Þrátt fyrir almenna vitundarvakningu í samfélaginu um málefni hinsegin fólks segir Álfur að alltaf mega gera betur, þá sérstaklega innan skólakerfisins. Til dæmis sé erfitt að nálgast skólastjórnendur sveitarfélaga þar sem þessi málefni eru ekki á stefnuskrá sveitarfélagsins.
„Á mörgum stöðum veltur þetta helst á geðþótta skólastjórnenda og það er bara miserfitt að ná til þeirra. Þeir eru kannski allir af vilja gerðir, en hafa mismikið fjármagn, misskýra stefnu í þessu sjálf og sjá mismikla þörf. Þannig að stundum þarf maður að selja þeim hugmyndina um að koma,“ segir Álfur.
Álfur segist spenntur fyrir þessu verkefni, sérstaklega þar sem Garðabær sé stórt sveitarfélag. „Þetta eru fimm grunnskólar í Garðabæ, þannig að þetta eru feiknar mörg börn sem fá þessa þjónustu. Við vonum að þetta gefist vel og höfum fulla trú á því, segir Álfur. Hann hvetur fleiri sveitarfélög til að íhuga að gera slíkan samning við samtökin. „Við erum alltaf til.“