Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í farþegaflugvél á alþjóðaflugvellinum í Miami síðdegis í gær.
Vélin var að koma til lendingar eftir flug frá Santo Domingo í Dóminíska lýðveldinu þegar lendingarbúnaður gaf sig. Vélin rann að hluta út af flugbrautinni og kom eldur upp í kjölfarið.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að 126 farþegar hafi verið um borð og voru þrír fluttir á sjúkrahús með minniháttar meiðsl. Eðli málsins samkvæmt greip mikill ótti um sig meðal farþega eftir að eldurinn kom upp og vélin fylltist af reyk.
„Fólk var skelfingu lostið,“ segir einn farþeganna á meðan annar bætir: „Ég hélt ég myndi deyja.“ Vélin, sem er af gerðinni MD-82, var á vegum Red Air sem er nýlegt lággjaldaflugfélag í Dóminíska lýðveldinu.