„Ég er búinn að búa hérna í yfir fjörutíu ár og ég hef aldrei upplifað neitt eins og þetta í gær,“ segir Guðrún Newman íbúi í Sarasota þar sem fellibylurinn Ian gekk yfir í gærkvöldi „Þetta var í tólf klukkutíma sem húsið var barið út í gegn af rigningu og roki,“ segir hún en vindhraðinn á svæðinu fór upp í 140 kílómetra á klukkustund og yfir 160 í hviðum.

„Ég hélt að þakið myndi fara af og ég er með frekar nýlegt hús. Maður bara saup hveljur hérna, ég var alveg skíthrædd,“ segir Guðrún en sem betur fer slasaðist hvorki hún né fjölskylda hennar í storminum „Allir Íslendingar sem ég þekki hér, það er allt í lagi með þá, þó að það hafi kannski rifnað aðeins af þakinu hjá sumum. En það er allt í lagi með alla og allir á lífi,“ segir hún.

Gríðarlegur vindhraði var á meðan stormurinn stóð yfir en hann mældist 160 kílómetra hraði í hviðum.
Mynd/Getty

Margir án rafmagns

Hús Guðrúnar varð ekki fyrir alvarlegum skemmdum í rokinu og að flest hús í kringum hana hafi sloppið ágætlega

„Það er ekki mikið um skemmdir í mínu hverfi þar sem þetta eru nýleg hús sem eru byggð í kringum 2002 til 2005 en eldri húsin hafa ekki farið eins vel. Það eru yfirleitt þakplötur sem hafa farið,“ segir Guðrún og bætir við „en það er ofboðslega mikið af fólki sem er ekki með rafmagn,“ segir Guðrún en hún er þó enn með rafmagn og missti það ekki á meðan veðrinu stóð.

„Það versta var að rokið var svo mikið að það var ekkert hægt að reyna að laga neitt. Skilti og annað fauk bara um eins og pílur sem fóru inn í húsin. Fólk átti ekki von á svona miklu roki og líka í svona langan tíma,“ segir Guðrún sem telur þó að hennar svæði hafi farið mun betur út úr veðrinu en önnur.

„Þau fyrir sunnan okkur fengu allt vatnið inn á sig. Það er mikið um dauðsföll þar. Það eru allavega tvö dauðsföll hér í Sarasota en það er miklu miklu meira í Fort Myer eða fleiri hundruð,“ segir hún en tilkynningar um dauðsföll í Fort Myer fara vaxandi á meðan yfirvöld leita í húsarústum eftir óveðrið.

„Það er ekki fallegt að sjá myndirnar þar. Það eru heilu húsin sem hreinlega fóru,“ segir Guðrún.

Sumir áttu fótum fjör að launa þegar þeir reyndu að komast í skjól.
Mynd/Getty

Færri stormar en mun öflugri

Guðrún hefur búið í Bandaríkjunum síðan 1976 og segir að hún sjái greinilega þær breytingar sem orðið hafa á veðri vegna loftslagsbreytinga.

„Þegar við fengum þrumuveður þá var það allt annað fyrir tuttugu árum síðan. Þá kom yfirleitt smá stormur og það urðu einhverjar eldingar, vissulega smá læti en svo var allt í lagi“ segir hún.

„En þegar við fáum þetta núna þá eru þetta svo ofboðslega miklar eldingar. Það kom til dæmis ein hérna í garðinn hjá mér fyrir mánuði síðan og þá blossaði bara upp af henni. Þetta er orðið miklu verra heldur en þetta var hér áður,“ segir Guðrún og tekur

Stór tré rifnuðu upp með rótum í storminum og var mikið um trjágróður víðsvegar um borgina.
Mynd/getty