Niðurstöður úr skimun Íslenskrar erfðagreiningar benda til að ekki sé útbreitt samfélagslegt smit hér á landi.

Af 1.900 sýnum sem greind hafa verið hjá fyrirtækinu eftir að það hóf aftur skimun á miðvikudag hafa einungis tvö verið jákvæð fyrir COVID-19.

Þá hefur ekki sést fjölgun í jákvæðum sýnum við landamæraskimun, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.

„Mér finnst allt benda til þess að við séum að ná einhverjum tökum á þessari hópsýkingu og að þetta sé ekki að fara úr böndunum,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi rétt í þessu.

Næstu dagar muni skera úr um það hvort svo reynist.

25 greinst við landamæraskimun frá upphafi

„Ég held að við séum bara í nokkuð góðum málum og munum halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið að feta fram að þessu.“

Sjö innanlandssmit greindust í gær og eru nú 58 einstaklingar í einangrun með virkt smit hér á landi. 454 eru í sóttkví. Enn er beðið eftir niðurstöðu raðgreiningar á hluta smitanna sem greindust í gær og er smitrakning enn í gangi.

„Það virðast vera mjög fá smit út í samfélaginu allavega eins og tölurnar líta út núna,“ bætti Þórólfur við.

25 smit hafa greinst á landamærum frá því skimun hófst þar þann 15. júní.

Þar af eru tíu búsettir á Íslandi en aðrir eru langflestir búsettir á skilgreindum áhættusvæðum.

Mjög fá smit sem hafa orðið út frá þessum sem hafa greinst hafa á landamærunum, að sögn Þórólfs.