„Ég fylgdi Rewidu og Abdalla út strætó í dag. Þau voru á leið í Covid-test. Ég kvaddi þau með þeim orðum að við myndum sjást aftur á morgun hér í skólanum.“

Svona hefst Facebook-færsla Friðþjófs Helga Karlssonar, skólastjóra Háaleitisskóla á Ásbrú.

Friðþjófur hefur kallað eftir því að stjórnvöld beiti sér gegn því að börnin, sem ganga í Háaleitisskóla, verði vísað úr landi ásamt fjölskyldu sinni. RÚV greindi fyrst frá en þar segir að ekki hafi orðið að því að börnin yrðu skimuð fyrir COVID-19 í dag.

„Rewida horfði á mig sorgmæddum augum og sagði ,,Ég held að við komum ekki á morgun í skólann. Mig langar svo mikið til að vera áfram á Íslandi“ - á henni mátti sjá að hún var búinn að glata voninni.“

Hjónin Doaa og Ibrahim komu hingað til lands í ágúst 2018 ásamt fjórum börnum sínum á aldrinum 5 til 12 ára, til að sækjast eftir alþjóðlegri vernd. Hefur þeirri beiðni verið hafnað og stendur til að senda þau aftur til Egyptalands næsta miðvikudag.

„Ég fylltist reiði vegna þeirrar grimmdar og mannvonsku sem mérr finnst felast í þessum aðgerðum yfirvalda. Aðgerðum sem svo sannarlega brjóta á grundvallarmannréttindum þessara barna,“ segir Friðþjófur að lokum.

Hrædd og hvekkt

Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, staðfesti í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að þau væru bæði hvekkt og hrædd en þau voru látin undirgangast sýnatöku vegna COVID-19 í dag sem hluti af undirbúningi brottvísunarinnar.

Sagði Magnús þau enn trúa því að ekki verði af henni á miðvikudag.

Dooa og Ibrahim segjast hafa orðið fyrir ofsóknum í Egyptalandi vegna þátttöku Ibrahim í stjórnmálastarfi. Útlendingastofnun synjaði þeim um vernd í lok júlí í fyrra og mat að fjölskyldan væri örugg í Egyptalandi.

Var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála rúmum 15 mánuðum síðar en til stóð að fjölskyldunni yrði vísað úr landi í febrúar. Lögmaður þeirra segir þau vera ósammála niðurstöðunni og segjast þau óttast mjög að þau verði bæði handtekin í Egyptalandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ég fylgdi Rewidu og Abdalla út strætó í dag. Þau voru á leið í Covid-test. Ég kvaddi þau með þeim orðum að við myndum...

Posted by Friðþjófur Helgi Karlsson on Monday, September 14, 2020