Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 8. ágúst 2020
07.00 GMT

Ingibjörg sem býr í London ásamt fjölskyldu sinni hefur dvalið hér á landi frá því í lok júní.

„Við vorum orðin rosalega þreytt í London, enda verið lokuð inni frá því í mars. Ég var að vinna heima, maðurinn minn þurfti að mæta í vinnuna en börnin okkar tvö voru í heimaskóla og þetta var orðið svolítið þrúgandi ástand.“

Ingibjörg hefur sinnt starfi sínu sem ritstjóri stafrænna miðla hjá CNN héðan frá Íslandi, en allir starfsmenn CNN í London vinna heiman frá sér eftir að heims­faraldurinn náði til London.

Börn Ingibjargar eru komin á unglingsaldur og segir hún í léttum tón að eitt sé að fara yfir margföldunartöfluna með yngri börnum, en þegar sonur hennar hafi beðið hana að fara í gegnum rússnesku byltinguna með sér hafi verkefnið verið henni ofviða. „Ég var bara inni á Wikipedia að reyna að redda mér. Þetta var í raun orðin önnur vinna ofan á mína eigin vinnu.“

Eiginmaður Ingibjargar sneri aftur til London eftir tvær vikur hér á landi, en hún og börnin fara til baka nú í ágúst.

„Það verður örugglega erfitt að koma aftur eftir að hafa vanist frelsinu hér, en það er alltaf gott að komast heim til sín og að fjölskyldan verði sameinuð.“


Stríð án óvinar


„Í London er fólk ekki að hittast og lítið við að vera. Við vorum alveg lokuð inni í tvo mánuði en máttum fara út einu sinni á dag til að stunda líkamsrækt. En ef fólk til dæmis settist niður á bekk í garðinum, þá voru eftirlitsþyrlur og bílar á ferð og ráku það upp með gjallarhorni. Þetta var orðið eins og ákveðið stríðsástand og líðan fólks eftir því. En ólíkt stríði, þá sá maður ekki óvininn. Ráðamenn nota þetta orðfæri líka mikið og tala um að við séum í stríði og eftir svolítinn tíma hefur þetta áhrif á geðheilsu manns.“


„Ráðamenn nota þetta orðfæri líka mikið og tala um að við séum í stríði og eftir svolítinn tíma hefur þetta áhrif á geðheilsu manns.“


Ingibjörg segir þetta tímabil einnig hafa verið gott að mörgu leyti. „Allt í einu vorum við ekki í stanslausu skutli allar helgar í fótbolta og tennis og svo framvegis. Fjölskyldan var frekar heima að spila og í hjóla­túrum saman og þegar fram líða stundir mun það líklega standa upp úr. En ég geri mér fulla grein fyrir því að þannig er ekki fyrir komið hjá öllum, enda heimilisaðstæður ekki alls staðar góðar. Bretland er jafnframt mjög flókið samfélag og til að mynda fjölmörg börn sem fá aðeins mat í skólanum og maður getur rétt ímyndað sér hvernig er ástatt fyrir þeim og við höfum reynt að vekja athygli á stöðu þeirra með fréttum.“


Starfsmenn CNN sendir heim


Ingibjörg fer fyrir alþjóðlegum teymum stafrænna fréttamanna CNN og eru teymin í London, Hong Kong, Abú Dabí og Lagos.

„Teymið mitt í Hong Kong hafði unnið heima alveg frá því í janúar, en á þeim tíma var þetta svo fjarlægt manni. Ég var til dæmis í Bandaríkjunum í febrúar og man eftir því að hafa átt samtöl við fólk um hversu agalegt ástandið væri nú í Hong Kong.“


Hún segir að þegar faraldurinn náði til London hafi hlutirnir gerst mjög hratt. „Á þriðjudegi var ákveðið að allir starfsmenn CNN ynnu heima og á föstudegi voru allir komnir heim til sín. Yfirmenn Warner Media sem á CNN sögðust ekki ætla að taka neina áhættu og því yrðu allir heima. Á stafrænu miðlunum var þetta ekkert sérlega flókið, en meiri áskorun fyrir sjónvarpskollegana mína.“


Aldrei verið í klúbbnum


Ingibjörg starfaði hjá breska ríkisútvarpinu, BBC, um 15 ára skeið og gegndi þar ýmsum ábyrgðarstöðum, nú síðast sem ritstjóri fréttaforsíðu miðilsins. Fyrir tæpum fimm árum færði hún sig yfir til CNN og starfar í útibúi miðilsins í London.

„Ég hafði prófað fjölmörg störf hjá BBC en var komin í hálfgert þrot, ég fann að maður kemst bara ákveðið langt ef maður er ekki í klúbbnum, og ég hef aldrei verið í þeim klúbbi. Maður finnur mikið fyrir stéttaskiptingu í Bretlandi, þar sem er mikilvægt að hafa verið í rétta skólanum og þekkja rétta fólkið. Ég aftur á móti kom frá Íslandi og kunni ekki rétta handabandið og þar fram eftir götunum. Mér fannst ég vera komin þangað að ná ekki að gera það sem ég vildi gera,“ segir Ingibjörg.


„Ég hafði prófað fjölmörg störf hjá BBC en var komin í hálfgert þrot, ég fann að maður kemst bara ákveðið langt ef maður er ekki í klúbbnum, og ég hef aldrei verið í þeim klúbbi."


Yfirmenn CNN leituðu á þeim tíma eftir kröftum hennar og greip Ingibjörg tækifærið eftir nokkurra mánaða viðræður.

„Mér fannst frábært tækifæri að fá að hafa aðgang að öllum þeim úrræðum sem stórfyrirtæki eins og CNN getur boðið þér, en fá að ráða mitt eigið teymi og búa þannig til þann kúltúr sem ég vildi hafa. Draumur minn hefur alltaf verið að gera þessa stafrænu breytingu á fjölmiðlum, að þeir taki yfir prent og sjónvarp, og stjórna því hvernig það muni líta út.“


Ritstýrir erlendum fréttum


Aðspurð í hverju starf ritstjóra stafrænna miðla felist, svarar Ingibjörg: „Ég held utan um allar erlendar fréttir fyrir vefsíður CNN, önnur þeirra er ætluð bandarískum lesendum og hin restinni af heiminum, og ég og mitt teymi sjáum um allar erlendar fréttir fyrir báðar síðurnar.“ Ingibjörg lýsir starfinu á enn einfaldari máta: „Ef Trump fer til Þýskalands, þá þarf ég að pæla í því, en ef hann er bara í Bandaríkjunum þarf ég þess ekki.“

Ingibjörg hefur allan sinn starfsferil látið til sín taka í jafnréttismálum en segist undanfarið hafa beint augum sínum meira að kynþáttamisrétti en áður. Fréttablaðið/Ernir

Nú þegar Ingibjörg er á Íslandi fundar hún með teymum sínum klukkan sjö hvern dag.

„Þá ákveðum við hvað við ætlum að gera þann daginn og útdeilum verkefnum eftir umræður um stöðuna. Við erum að breyta svolítið um aðferðafræði og mín stefna síðustu tvö ár hefur verið að fara meira út í fréttaskýringar og kafa dýpra í málin. Við erum ekki að einblína á „hvað?“ heldur „hvers vegna?“.“


Ég treysti mínu innsæi


En ætli stór hluti starfsins sé ekki að fylgjast með fréttum af alþjóðavettvangi? „Að vissu leyti, en snemma á ferli mínum spurði maður sem hafði verið yfir erlendu deildinni hjá BBC mig að því hvað væri mikilvægast í starfi ritstjóra, og ég svaraði að það væri að vera inni í öllum málum og vita allt. Hann sagði mér þá að hann hefði verið yfir öllu erlenda teyminu og ekki vitað neitt og bætti við að hæfileiki góðs ritstjóra væri ekki að vita allt – góður ritstjóri spyrði réttu spurninganna,“ og segist Ingibjörg hafa tileinkað sér þessa hugsun að miklu leyti.


„Hann sagði mér þá að hann hefði verið yfir öllu erlenda teyminu og ekki vitað neitt og bætti við að hæfileiki góðs ritstjóra væri ekki að vita allt – góður ritstjóri spyrði réttu spurninganna.“


„Maðurinn minn vinnur fyrir tyrkneskan miðil og les allt sem hann kemst yfir, hann segir mér oft fréttir þegar hann kemur heim, en sjálf les ég ekki lengur allar fréttir. Ég les mikið af bókum og dýpri og lengri greinar í til dæmis New Yorker, Vanity Fair og Atlantic. Ég hlusta mikið á hlaðvörp, fyrirlestra og lengri þætti, frekar en að lesa hverja einustu frétt á miðlunum. Ég treysti mínu innsæi og maður nær þessu rétt svona 50/50,“ segir hún í léttum tón.


Þetta er ekki mín barátta


Ingibjörg hefur allan sinn starfsferil látið til sín taka í jafnréttismálum en segist undanfarið hafa beint augum sínum meira að kynþáttamisrétti en áður.

„Um mitt síðasta ár átti ég samtal við konur af asískum og afrískum uppruna í teyminu mínu. Þær bentu mér á að það sem ég segði um kvenréttindamál ætti ekkert endilega við þær. Ég hafði alltaf hugsað með mér að ég gæti barist í kvenréttindamálum enda væri það eitthvað sem ég þekkti af eigin raun, en ég gæti ekki tekið allar hinar barátturnar líka. En þegar ég fór að hlusta á þær áttaði ég mig á því að þetta væri stór ástæða fyrir því að við kæmumst ekki áfram. Við röðum okkur í hópa og verðum þannig ekki heild, og þannig verður aldrei jafnvægi.

Það er auðvelt fyrir forréttindahópa að segja: „Þetta er ekki mín barátta þó að ég styðji hana.“ Ef við hugsum öll þannig náum við aldrei jafnrétti. Hluti þess sem ég þarf að gera er að gefa eftir hluta af mínum forréttindum. Ef við erum öll til í að gera það þá breytist loks samfélagið en þetta getur reynst erfitt.“


Forréttindin sjást ekki


Talið berst að Black Lives Matter hreyfingunni í Bandaríkjunum sem er ætlað að varpa ljósi á misréttið sem svartir Bandaríkjamenn verða fyrir.
„Stór samfélög eru flókin og þeim er ekki breytt á einu ári en það sem skiptir máli í þessari baráttu er sú vakning sem verður innan forréttindahópsins sem um ræðir, og mér finnst sem sú vakning hafa verið að gerast í Bandaríkjunum í tengslum við Black Lives Matter. Ég horfi bara til þess bandaríska fyrirtækis sem ég starfa fyrir og finnst meira hafa gerst á undanförnum mánuðum en á síðustu fimm árum.“

Eiginmaður og barnsfaðir Ingibjargar, Chuck Nwosu, er frá Nígeríu og því ekki úr vegi að spyrja hvort málið snerti hana persónulega.

„Já, að vissu leyti. Kannski fannst mér ég hafa meiri skyldur í þessum málum vegna fjölskyldunnar. En forréttindi má skilgreina á ýmsan hátt. Forréttindi barna minna eru að koma reglulega hingað, tala íslensku og vera íslensk. Ég hef spurt þau hvernig þau upplifi að vera á Íslandi. Sonur minn hefur sagt að ef hann er einn þá horfi fólk á hann. Þau tala reiprennandi íslensku og hann getur orðið pirraður á að fólk tali ensku við hann. Forréttindi þeirra eru að koma frá millistéttarfjölskyldu sem hefur efni á að veita þeim menntun og fleira og þeir hafa því mikið meira forskot en fátækir Bretar. En úti á götu sér það enginn – það sér enginn forréttindin.

Eiginmaður Ingibjargar, Chuck Nwosu, er frá Nígeríu og segir hún umræðu um kynþáttamisrétti snerta hana persónulega. „Það er enginn vafi á því fjölskylda mín og maðurinn minn setja mér ákveðnar skyldur sem hvít kona í Bretlandi.“ mynd/ásta kristjáns

Það er enginn vafi á því að fjölskylda mín og maðurinn minn setja mér ákveðnar skyldur sem hvít kona í Bretlandi. En maðurinn minn hefur aldrei verið í neinni slíkri baráttu, enda sjálfur úr ákveðnum forréttindahópi og gekk í einkaskóla í Bretlandi. Forréttindi eru margþætt og þú getur verið svartur með meiri forréttindi en hvítur og þar fram eftir götunum. Ég er eiginlega á því að mín forréttindi liggi í því að ég geti notað rödd mína meira en margir.“


Fimm ára rússíbani


Ingibjörg segir tímann hjá CNN hafa verið viðburðaríkan. „Þetta hefur verið rússíbani í tæp fimm ár. Sex vikum eftir að ég tók við starfinu urðu hryðjuverkaárásirnar í París og næst kom Brexit, Trump og svo framvegis, Hong Kong mótmælin og það sem er að gerast í Kína.

Ég hugsaði alltaf með mér að árið 2012 þegar ég vann hjá BBC hafi verið stóra fréttaárið. Það var hver stórviðburðurinn á eftir öðrum; Ólympíuleikarnir í Bretlandi og drottningin var með Golden Jubilee og ég hugsaði með mér, þetta er árið sem allir munu tala um,“ segir Ingibjörg. „Þarna komum við aftur að þessu 50/50, þarna hafði ég sannarlega rangt fyrir mér,“ segir hún og hlær. „Eftir 2012 geturðu í raun valið ár, það er allt búið að vera vitlaust.“


„Eftir 2012 geturðu í raun valið ár, það er allt búið að vera vitlaust.“


Ingibjörg viðurkennir að bæði sé starfið spennandi og álagið mikið. „Við erum undir stöðugum árásum frá æðstu yfirmönnum í Bandaríkjunum. Út frá faglegu sjónarmiði er það spennandi áskorun að fjalla um bandarísk stjórnmál en sorglegt að finna hvað núverandi stjórn hefur gert fréttaiðnaðinum, og að orðin „Fake News“ sé orðið eitthvað sem fólk talar um. Þegar æðstu yfirmenn ráðast á fjölmiðlana er það slæmt fyrir lýðræðið.“


Trump afvegaleiðir umræðuna


„„Fake news“ er það þegar einhver hreinlega býr til fréttir til þess að græða peninga en svo eru til slæmar fréttir. Það er fullt af miðlum sem vinna enga rannsóknarvinnu, það eru lélegar fréttir og allt annað hugtak en falsfréttir. En svo er það stóra batteríið sem er í gangi, það er þetta „misinformation“ og „disinformation“, sem er það sem Rússarnir og fleiri hafa verið að gera. Það er áróður en ekki endilega „fake news“. Eins og þegar Trump segir eitthvað sem er ekki rétt, en heldur ekki kolrangt, og afvegaleiðir þannig umræðuna og það er allt annað en „fake news“. Það er mikilvægt að kalla þetta réttum nöfnum.“


Stjórn Donalds Trump og fylgjendur hennar hafa úthrópað CNN fyrir að vera þeim mótfallin vegna umfjöllunar miðlanna um ríkisstjórnina og verk hennar. „Við erum einfaldlega að segja fréttir af því þegar hann segir ekki satt og rétt frá. Sú staðreynd að það skuli gerast með svona rosalega reglulegu millibili þýðir ekki að við séum á móti honum, heldur einfaldlega að við séum að segja fréttir af valdamesta manni heims.“


„Við erum einfaldlega að segja fréttir af því þegar hann segir ekki satt og rétt frá. Sú staðreynd að það skuli gerast með svona rosalega reglulegu millibili þýðir ekki að við séum á móti honum, heldur einfaldlega að við séum að segja fréttir af valdamesta manni heims.“


Valdaskiptin ekki friðsamleg


Forsetakosningar eru á dagskrá í byrjun nóvember í Bandaríkjunum og Ingibjörg er farin að undirbúa sig fyrir þær.

„Það eru alltaf stórar fréttir þegar forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum, en umfjöllun í kringum þær hefur alltaf verið á svipuðum nótum. Ég var þó einmitt að segja við kollega minn að handritið sem við höfðum að bandarísku forsetakosningunum, það væri farið.

Ég held að þemað hjá okkur verði hvernig veröldin er allt öðruvísi núna en árið 2016. Þá var veröldin á ákveðinni leið, það ríkti ákveðin sátt og milliríkjasamningar voru í gangi, nú er búið að rífa þá alla niður. Hvað þýðir það? Fyrir umhverfismál? Vopnamál? Jafnréttismál? Ég hef miklar áhyggjur af því sem er að gerast í Austur-Evrópu og held að veröldin ætti að hafa áhyggjur af því, þetta eru skoðanabræður Trumps.“

Aðspurð hvort hún sjái fram á friðsamleg valdaskipti svarar Ingibjörg ákveðin: „Nei. Ég held ekki. Ég held að þetta verði barátta alveg fram á síðasta dag.

Ég veit að allar skoðanakannanir segja að Biden sé svo gott sem búinn að vinna þessar kosningar, en þá hugsar maður til þess að árið 2016 hélt maður ítrekað að banahögg Trumps væri komið. Það er allt óvíst í þessum efnum. Bæði fjölmiðlafólk og almenningur þurfa að vera meðvituð um að það sem við dæmdum út frá áður, eins og að ekki mætti tala um konur á þann hátt sem Trump gerði rétt áður en hann var kosinn, að ekki mætti kalla lönd „shitholes“ og þar fram eftir götunum, það er allt horfið, okkar viðmiðunarstuðull er allt annar.“


„Það er allt óvíst í þessum efnum. Bæði fjölmiðlafólk og almenningur þurfa að vera meðvituð um að það sem við dæmdum út frá áður, eins og að ekki mætti tala um konur á þann hátt sem Trump gerði rétt áður en hann var kosinn, að ekki mætti kalla lönd „shitholes“ og þar fram eftir götunum, það er allt horfið, okkar viðmiðunarstuðull er allt annar.“


Talið berst að erfiðri stöðu fjölmiðla þegar þrengir að á tímum sem þessum. „Það eru miklar uppsagnir hjá fjölmiðlum sem standa höllum fæti, samkeppni er heilbrigð og það er það mikið að gerast í heiminum núna, en hafa ber í huga að ef færri blaðamenn eru til að rannsaka mál eru meiri líkur á að spilling og ólýðræðislegir stjórnunarhættir fái að ágerast.

Þegar heimurinn fer á hliðina, hvort sem það er í fjármálakreppunni 2008 eða í heimsfaraldri núna, eru fjölmiðlar aldrei mikilvægari og aldrei erfiðara að reka þá.“

Athugasemdir