Um helgina voru stað­fest kaup Elon Musk á Twitter og hefur frá því verið greint síðan þá að hann sjái fyrir sér ýmsar breytingar á miðlinum og ætli sér að taka fyrir­tækið af markaði. Í gær var sem dæmi greint frá því að hann hafi leyst upp stjórn fyrir­tækisins og að hann ætli sér að rukka á­skriftar­gjald sem muni fela í sér auð­kenningu.

„Hann ætlar að taka fyrir­tækið af markaði og kannski er of snemmt að draga á­lyktanir núna en sam­kvæmt frétt sem birtist í morgun er nú stjórnin að­eins mönnuð honum,“ segir Atli Þór Fann­dal fram­kvæmda­stjóri Ís­lands­deildar Tran­s­paren­cy International um kaupin og breytingarnar.

Hann segir að mögu­lega muni hann setja nýja stjórn í staðinn og um sé að ræða um­breytingar­tíma­bil. Það verði að koma í ljós.

Hann segir að gagn­sæi miðilsins verði minna við það að fyrir­tækið sé tekið af markaði því ekki hvíli þá á því sömu skyldur. „Það er mjög mikil upp­lýsinga­skylda á fyrir­tækjum á markaði. Það þarf að til­kynna allar stórar breytingar.“

Aukin haturstjáning

Fjöldi hefur lýst yfir á­hyggjum með kaup Musk og hefur verið greint frá aukinni haturstjáningu á miðlinum frá því að hann tók við auk þess sem fólk sem var bannað hefur nú snúið aftur. Rann­sókn sem var fram­kvæmd við Montclair State há­skóla í Bandaríkjunum stuttu eftir að Musk tók við sýndi að að­eins nokkrum klukku­stundum eftir að hann tók við fjölgaði þeim skiptum þar sem hug­tökum sem skil­greind eru sem hatur­s­orð­ræða fjölgaði veru­lega. Í frétt ABC um málið er talað um bæði hatur­s­orð­ræðu gagn­vart á­kveðnum kyn­þáttum en einnig trúar­brögðum.

„Ég held að það sem veki hræðslu hjá fólki er að Musk hefur lýst því yfir að hann sé svo­kallaður „free speech ab­solutist“,“ segir Atli og að það sé það sama og fólk í te­poka­hreyfingunni og QA­non noti til að lýsa sér.

„Það er al­gjör­lega grund­völlur fyrir þessum á­hyggjum fólks. Elon Musk er ekki sá riddari tjáningar­frelsis sem hann vill meina að hann sé. Þó að hann tali eins og hann ætli að gera þetta að ein­hverri tjáningar­frelsis­veislu þá held ég að það sé alveg ljóst að hann mun ekki hætta allri reglu­væðingu. Það er ekki það sem hann er að tala um. Hann er frekar, að mínu mati, að gefa til kynna að hann vilji sjá á­kveðnum skoðunum lyft upp,“ segir Atli.

Hann segir hans hug­myndir um tjáningar­frelsi þó ekki endi­lega þær vin­sælustu meðal þeirra sem rannsaka það.

„Það er ekki vin­sæl hug­mynd meðal rann­sak­enda á tjáningar­frelsinu sem hafa reynt að reglu­væða það með ein­hverjum hætti. Það gleymist oft að leik­reglur geta jafnað leikinn, svo að allir geti tekið með. Þær eru ekki alltaf til að kúga,“ segir Atli sem segist draga það í efa að hægt verði að reglu­væða með gervi­greind eins og Musk hefur sagst ætla að skoða.

Milljarðamæringur sem ólst upp við auð

Þá segir hann að það geti einnig vakið á­hyggjur fólks þegar litið er til þess með hverjum hann hangir eða ver tíma sínum með og hvernig hann ólst upp.

„Þetta er maður sem hefur minni tengingu við al­menning en hann ef­laust sjálfur heldur. Þetta er milljarða­mæringur sem ólst upp við mikinn auð.“

Atli segir að, miðað við fréttirnar og það sem hefur komið fram, þá virðist sem Musk hafi ekki áttað sig á því að það verði „al­gert hel­víti að stjórna þessu“. Hann segir að tæknin að baki miðlinum sé í raun mjög ó­merki­leg og að helstu verð­mæti og eign miðilsins séu not­endur hans og svo séu helstu við­skipta­vinir hans aug­lýs­endur.

„Það er þess virði að hafa á­hyggjur af þessu, því þetta er stór miðill, en ég held að þetta verði al­ger mar­tröð fyrir Elon Musk. Eina eign fyrir­tækisins sem er ein­hvers virði eru not­endur miðilsins og það er al­ger mar­tröð að stýra þeim. Það vita allir sem hafa komið ná­lægt slíku verk­efni,“ segir Atli og að allir sam­fé­lags­miðlar sem hafi á­kveðið að slaka á kröfum og búa til rými sem ekki sé öruggt fyrir not­endur hafi horfið af vett­vangi.

„Það er mjög ó­lík­legt að við­skipta­vinir muni hafa mikinn á­huga á því að aug­lýsa á miðli sem er orðinn eins og sirkus. Það er raunin sögu­lega. Það er enginn svona miðill eða vett­vangur sem hefur lifað af án þess að það séu ein­hverjar reglur.“

Elon Musk ætlar sér að breyta ýmsu á Twitter.
Fréttablaðið/EPA

Barnalegar hugmyndir um tjáningarfrelsið

Atli Þór segir að það megi heldur ekki gleyma því að markaðurinn gæti sett fram mót­vægi við þessum breytingum Musk. Til dæmis í gegnum annað fyrir­tæki hans, Teslu, sem við­skipta­vinir gætu snið­gengið gangi hann of langt á Twitter. Auk þess sé enn ó­ljóst hvernig Musk ætlar að haga þessum breytingum og opnara sam­fé­lagi í al­þjóð­legu sam­hengi. Það séu ó­líkar reglur víða um heim og tekur dæmi um Þýska­land sem hefur strangar reglur.

„Hann mun reka sig fljótt á það að þessar barna­legu hug­myndir um það hvernig tjáningar­frelsið virkar munu ekki ganga upp í neinu við­skipta­um­hverfi.“

Spurður um að­komu Tran­s­paren­cy Internation að svona máli segir Atli að sam­tökin taki í raun svona mál ekki beint til skoðunar en að sam­tökin séu með sam­fé­lags­miðla al­mennt til skoðunar, virkni þeirra og hvort það sem kemur þar fram sé skað­legt.