Um helgina voru staðfest kaup Elon Musk á Twitter og hefur frá því verið greint síðan þá að hann sjái fyrir sér ýmsar breytingar á miðlinum og ætli sér að taka fyrirtækið af markaði. Í gær var sem dæmi greint frá því að hann hafi leyst upp stjórn fyrirtækisins og að hann ætli sér að rukka áskriftargjald sem muni fela í sér auðkenningu.
„Hann ætlar að taka fyrirtækið af markaði og kannski er of snemmt að draga ályktanir núna en samkvæmt frétt sem birtist í morgun er nú stjórnin aðeins mönnuð honum,“ segir Atli Þór Fanndal framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Transparency International um kaupin og breytingarnar.
Hann segir að mögulega muni hann setja nýja stjórn í staðinn og um sé að ræða umbreytingartímabil. Það verði að koma í ljós.
Hann segir að gagnsæi miðilsins verði minna við það að fyrirtækið sé tekið af markaði því ekki hvíli þá á því sömu skyldur. „Það er mjög mikil upplýsingaskylda á fyrirtækjum á markaði. Það þarf að tilkynna allar stórar breytingar.“
Aukin haturstjáning
Fjöldi hefur lýst yfir áhyggjum með kaup Musk og hefur verið greint frá aukinni haturstjáningu á miðlinum frá því að hann tók við auk þess sem fólk sem var bannað hefur nú snúið aftur. Rannsókn sem var framkvæmd við Montclair State háskóla í Bandaríkjunum stuttu eftir að Musk tók við sýndi að aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann tók við fjölgaði þeim skiptum þar sem hugtökum sem skilgreind eru sem hatursorðræða fjölgaði verulega. Í frétt ABC um málið er talað um bæði hatursorðræðu gagnvart ákveðnum kynþáttum en einnig trúarbrögðum.
„Ég held að það sem veki hræðslu hjá fólki er að Musk hefur lýst því yfir að hann sé svokallaður „free speech absolutist“,“ segir Atli og að það sé það sama og fólk í tepokahreyfingunni og QAnon noti til að lýsa sér.
„Það er algjörlega grundvöllur fyrir þessum áhyggjum fólks. Elon Musk er ekki sá riddari tjáningarfrelsis sem hann vill meina að hann sé. Þó að hann tali eins og hann ætli að gera þetta að einhverri tjáningarfrelsisveislu þá held ég að það sé alveg ljóst að hann mun ekki hætta allri regluvæðingu. Það er ekki það sem hann er að tala um. Hann er frekar, að mínu mati, að gefa til kynna að hann vilji sjá ákveðnum skoðunum lyft upp,“ segir Atli.
Hann segir hans hugmyndir um tjáningarfrelsi þó ekki endilega þær vinsælustu meðal þeirra sem rannsaka það.
„Það er ekki vinsæl hugmynd meðal rannsakenda á tjáningarfrelsinu sem hafa reynt að regluvæða það með einhverjum hætti. Það gleymist oft að leikreglur geta jafnað leikinn, svo að allir geti tekið með. Þær eru ekki alltaf til að kúga,“ segir Atli sem segist draga það í efa að hægt verði að regluvæða með gervigreind eins og Musk hefur sagst ætla að skoða.
Milljarðamæringur sem ólst upp við auð
Þá segir hann að það geti einnig vakið áhyggjur fólks þegar litið er til þess með hverjum hann hangir eða ver tíma sínum með og hvernig hann ólst upp.
„Þetta er maður sem hefur minni tengingu við almenning en hann eflaust sjálfur heldur. Þetta er milljarðamæringur sem ólst upp við mikinn auð.“
Atli segir að, miðað við fréttirnar og það sem hefur komið fram, þá virðist sem Musk hafi ekki áttað sig á því að það verði „algert helvíti að stjórna þessu“. Hann segir að tæknin að baki miðlinum sé í raun mjög ómerkileg og að helstu verðmæti og eign miðilsins séu notendur hans og svo séu helstu viðskiptavinir hans auglýsendur.
„Það er þess virði að hafa áhyggjur af þessu, því þetta er stór miðill, en ég held að þetta verði alger martröð fyrir Elon Musk. Eina eign fyrirtækisins sem er einhvers virði eru notendur miðilsins og það er alger martröð að stýra þeim. Það vita allir sem hafa komið nálægt slíku verkefni,“ segir Atli og að allir samfélagsmiðlar sem hafi ákveðið að slaka á kröfum og búa til rými sem ekki sé öruggt fyrir notendur hafi horfið af vettvangi.
„Það er mjög ólíklegt að viðskiptavinir muni hafa mikinn áhuga á því að auglýsa á miðli sem er orðinn eins og sirkus. Það er raunin sögulega. Það er enginn svona miðill eða vettvangur sem hefur lifað af án þess að það séu einhverjar reglur.“

Barnalegar hugmyndir um tjáningarfrelsið
Atli Þór segir að það megi heldur ekki gleyma því að markaðurinn gæti sett fram mótvægi við þessum breytingum Musk. Til dæmis í gegnum annað fyrirtæki hans, Teslu, sem viðskiptavinir gætu sniðgengið gangi hann of langt á Twitter. Auk þess sé enn óljóst hvernig Musk ætlar að haga þessum breytingum og opnara samfélagi í alþjóðlegu samhengi. Það séu ólíkar reglur víða um heim og tekur dæmi um Þýskaland sem hefur strangar reglur.
„Hann mun reka sig fljótt á það að þessar barnalegu hugmyndir um það hvernig tjáningarfrelsið virkar munu ekki ganga upp í neinu viðskiptaumhverfi.“
Spurður um aðkomu Transparency Internation að svona máli segir Atli að samtökin taki í raun svona mál ekki beint til skoðunar en að samtökin séu með samfélagsmiðla almennt til skoðunar, virkni þeirra og hvort það sem kemur þar fram sé skaðlegt.