Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, greinir frá því í við­tali við Ríkis­út­varpið að hann telji lík­legt að næsta vika komi til með að sýna fram á fram­göngu far­aldursins hér á landi. Eins og staðan er í dag eru 80 manns í ein­angrun vegna CO­VID-19.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í dag að átta ný innanlandssmit hafi greinst í gær og að raðgreining sýnanna hafu leitt í ljós að um er að ræða sömu gerð veirunnar og hefur sést í annarri af tveimur hópsýkingum sem eru í gangi.

Helmingslíkur á sprengingu


„Ég held að næsta vika verði mjög af­gerandi, annað hvort koma þessi smit til með að hjaðna eða það verður sprenging og þetta breiðist út sem ný bylgja af þessum far­aldri. Ég held að það séu svona helmings­líkur á hvoru fyrir sig,“ sagði Kári í sam­tali við RÚV.

Að því er kemur fram í frétt RÚV um málið átti Kári fyrr í dag fund með Ölmu Möller land­lækni, Þór­ólfi Guðna­syni sótt­varna­lækni, Víði Reynis­syni yfir­lög­reglu­þjóni og full­trúum úr smitrakningar­teyminu um stöðuna þegar kemur að far­aldrinum og á­kveða næstu skref Ís­lensku erfða­greiningar.

Fjöldi ótengdra smita

Að sögn Kára var á­kveðið eftir fundinn að skimun verði frekar beint að þeim sem hafa um­gengist þá sem sýktir eru af veirunni í stað slembi­úrtaks en rað­greining Ís­lenskrar erfða­greiningar hefur leitt í ljós að 16 ein­staklingar séu með sama stökk­breytinga­mynstur af veirunni þrátt fyrir að ekki sé hægt að tengja þá með neinum hætti.

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir í samtali við Fréttablaðið að þróunin síðustu daga valdi áhyggjum. Þá segir hann að fjöldi ótengdra smita vekji upp spurningar um hvort veiran sé útbreiddari en upprunalega var talið.

„Þá hljóta að vera einhverjar manneskjur þarna á milli sem eru veikar og við vitum ekki um þær. Þetta er frekar erfitt ástand núna og við þurfum að fara svolítið varlega,“ segir Thor en bætir við að næstu vikur muni þó gefa skýrari mynd af því hvert faraldurinn stefnir.