Henry Alexander Henrys­son, aðjúnkt við sagn­fræði- og heim­speki­deild Há­skóla Ís­lands, telur ljóst að þeir Gunnar Bragi Sveins­son og Berg­þór Óla­son hafi tapað trú­verðug­leika sínum. Hann ræddi mál þing­mannanna tveggja sem sneru ó­vænt á þing eftir að hafa farið í tíma­bundið leyfi vegna Klausturs­málsins í Silfrinu í morgun. 

„Ég held að þeir hafi tapað sínum trú­verðug­leika, að þeir verði dá­lítið eins og, ef þeir ætla að sitja inni á Al­þingi, þá verða þeir eins og ein­hverjir reka­viðar­drumbar sem svona skolast til þarna í öldu­rótinu núna næstu ár,“ sagði Henry Alexander, en til Fann­eyjar Birnu Jóns­dóttur, þátta­stjórnanda Silfursins, voru þau Árni Helga­son, Halla Gunnars­dóttir og Ingi­björg Dögg Kjartans­dóttir einnig mætt. 

Geta ekki leyft sér að tala svona

Hann lýsti einnig yfir furðu sinni með þær á­stæður sem Berg­þór og Gunnar Bragi gáfu þegar þeir sneru aftur. Það er að segja að þeir fengið sím­töl og skila­boð þess efnis að þeir hefðu enn trúgverðug­leika kjós­enda sinna. Henry sagði að upp kæmu grund­vallar­spurningar um lýð­ræði þegar Klaustursmálið væri rætt.

„Þurfa þing­menn bara að vera trú­verðugir í augum sinna kjós­enda og sinna vina eða þurfa þeir að vera trú­verðugir í augum al­mennings?“ spurði hann og bætti við. „Ég held að þeir hafi tapað sínum trú­verðug­leika. Það er ekkert hægt að komast fram hjá því, ég held að við séum öll sam­mála því. Þeir fá hann ekkert auð­veld­lega aftur. Ég held að þeir séu ekki að öðlast hann aftur með sínum við­brögðum í vikunni.“ 

Þá vék hann að skýringum Berg­þórs í Kast­ljós­við­tali í vikunni þar sem þing­maðurinn sagði að það sem fram fór á Klaustri hafi ekki sært neinn fyrr en upp­tökurnar voru gerðar opin­berar. Henry gefur lítið fyrir það og segir greini­legt að þeir geri sér ekki grein fyrir því að þeir geti ekki leyft sér að tala svona, sem kjörnir full­trúar. 

Mikilvægt að siðanefnd taki málið fyrir

„Það er lykil­at­riði í þessu og ég held að það bara megi ekki gleymast að kjörnir full­trúar geta ekki haft þessar skoðanir. Þeir geta ekki leyft sér þetta. Þetta er bara ekki í boði hvort sem þetta hafi farið út eða ekki.“ 

Hann sagði einnig mikilvægt að siðanefnd tæki málið fyrir og er ósammála þeim sem segja að umræðan sé orðin þreytt, þó svo að málið kunni að vera leiðinlegt.

„Ég held að það sé mikilvægt að þetta fari til siðanefndar og að Alþingi reyni að bregðast við þessu máli. Ég held það skipti gríðarlegu máli hvernig við leysum úr þessu.“