Kristín Þórdís Þorgilsdóttir er ein þeirra fjölmörgu kvenna sem deilt hafa sögum sínum í kjölfar átaks Stígamóta um sjúka ást, sem snýr að ofbeldi í nánum samböndum ungmenna. Kristín segir að hún telji mikilvægt að opna umræðuna og því hafi hún ákveðið að stíga fram og segja sína sögu núna.

“Ég er að gera þetta fyrir allar ungu stelpurnar í lífi mínu og fyrir sjálfa mig, einskonar uppgjör á þessum kafla í lífi mínu sem er orðinn allt of langur, og til að rjúfa þögnina. Ég vona að saga mín hjálpi einhverjum, sem er fastur í þessum sporum, að sjá að þetta er ekki eðlileg hegðun og að hún er ekki að fara að hætta þrátt fyrir fögur loforð. Við þá sem eiga svipaða sögu, vil ég segja, það er aldrei of seint að leita sér hjálpar til að vinna úr þessu. Segið frá, þið eigið ekki að standa í þessu ein!”

Byrjuðu saman við lok 9. bekkjar

Kristín byrjaði með fyrsta kærastanum sínum fjórtán ára gömul, við lok 9. bekkjar. Hann var tveimur árum eldri en hún og voru þau saman í rúmlega tvö og hálft ár. „Ég var ástfangin upp fyrir haus. Ég var blinduð af ást og áttaði mig ekki á því að það væri kannski ekki eðlilegt að strákurinn, sem átti að elska mig, vildi ekki að ég borðaði pepperoni á pizzu, því þá gæti ég orðið feit.“

Þannig segir Kristín andlega ofbeldið hafa byrjað. Hún átti alltaf að vera með honum og vinum hans, og sjálf hafi hún túlkað það þannig að hann væri svo rosalega skotinn í henni. „Hann taldi mér trú um að vinkonur mínar og fjölskylda mín væru að reyna að eitra sambandið okkar, svo smátt og smátt minnkuðu samskiptin mín við bæði vini og fjölskyldu.“

Hún heldur áfram, og segir „Hann taldi mér trú um að ég væri heppin að hann vildi vera með mér, því ég væri svo ljót að enginn annar vildi mig. Ég trúði þessu öllu.”

Ofbeldið var að sögn Kristínar bæði andlegt og líkamlegt “Þetta byrjaði bara svona, eins og allt sem ég hef lesið nýlega, að brjóta mig niður og svo í kjölfarið kom líkamlega ofbeldið.“ Hún segir að hún muni eftir mörgum atvikum, en þó séu þau nokkur sem hún muni betur eftir en öðrum.

„Hann reisti sig þá upp og réðst á mig fyrir utan tjaldið.“

Eitt atvikið, sem hún man vel eftir, átti sér stað á Færeyskum dögum í Ólafsvík, eitt sumarið. Þangað fór hún í fylgd með foreldrum sínum. Kærastinn og vinkona hennar voru líka með og fengu þau að vera á unglingasvæðinu, en fullorðna fólkið var á öðru svæði.

„Eitt kvöldið var hann orðinn það fullur að hann stóð ekki í lappirnar. Ég, með hjálp vinkonu minnar, náði að koma honum inn í tjald þar sem hann, að ég hélt, dó áfengisdauða. Ég var hálf út úr tjaldinu að basla við að taka hann úr skónum. Ég var pirruð og skammaðist mín fyrir hann og framkomu hans og ég kallaði hann fávita. Hann reisti sig þá upp og réðst á mig fyrir utan tjaldið. Hann sat ofan á mér og kýldi mig nokkur högg í andlitið þangað til hann var rifinn af mér. Hann grét þá og skildi ekki hvað hafði gerst og ég endaði á að hugga hann. Ég skildi heldur ekki hvað hafði gerst og trúði fögrum loforðum hans um að þetta myndi ekki gerast aftur. En þetta gerðist aftur...og aftur og aftur.“

Næsta dag vaknaði Kristín með glóðarauga. Þegar hún fer að hitta foreldra sína og systir, til að fara heim, var hún spurð hvað hafi komið fyrir. Hún sagðist hafa opnað klósetthurð á andlitið á sér.

Aðspurt hvort foreldrar hennar og vinir hafi vitað af því hvað var í gangi hjá henni, rifjaði hún uppi ferðina heim „Ég held að örugglega innst inni hafi fólk vitað, en ég veit það ekki. Vinir mínir urðu að einhverju leyti vitni að ofbeldinu. En kannski vissi enginn alveg hvað var í gangi. Við vorum öll svo ung og óþroskuð. Fólk, eins og foreldrar mínir, kannski bara trúðu því ekki að það væri eitthvað svona í gangi. Bara eins þetta atvik í Ólafsvík, ég var ræða það við vinkonu mína nýlega og hún man óljóst eftir atvikinu en man mjög greinilega eftir því í bílnum á leiðinni heim, þegar mamma og systir mín spurðu mig hvað hafi komið fyrir og ég segist hafa gengið á klósetthurð. Vinkona mín hugsaði með sér að þau myndu aldrei trúa þessu, en svo fóru bara allir að hlæja og sögðu „þú ert svo mikill klaufi““

Hringdi tvisvar á lögregluna, en fékk enga aðstoð

Kristín skilur ekki sjálf í dag hvers vegna enginn hafi gert sér grein fyrir því sem raunverulega gerðist, en segir „þetta var auðvitað árið 2002, þetta var ekkert í umræðunni og ég hafði ekki sjálf hugmynd um hvað var í gangi. Ég hefði aldrei haldið að þetta væri heimilisofbeldi, bara fullorðnir lentu í því.“

„Það vissu margir að það var eitthvað í gangi, en það vissi enginn nákvæmlega hvað. Mér finnst eins og allir hlytu að hafa vitað, en enginn gerði neitt. Lögreglan gerði ekkert. Samfélagið gerði lítið úr þessu, þannig ég gerði lítið úr þessu.“

Kristín segir að hún hafi tvívegis hringt á lögregluna, eftir að hann lamdi hana. Í bæði skiptin fékk hún þau svör að lögreglan sinnti ekki slíkum málum. Annað skiptið höfðu þau rifist og hann tekið hana hálstaki upp við vegg „ég náði ekki andanum. Það skildi eftir sig áverka á hálsi. Ég ætlaði að hlaupa út um útidyrahurðina en hann greip mig og dró mig inn aftur. Ég sat grátandi á forstofugólfinu og hringdi á lögregluna, sem þá sagði mér að þau sinntu ekki svona erindum. Ég reyndi að hlaupa út um bakdyrahurðina en hann reif mig á hárinu inn í forstofu aftur og henti mér í gólfið. Ég næ þó að hlaupa út á endanum. Hann elti mig en ég næ að komast undan.“

Kristín segir að svona hafi þetta haldið áfram, og hún ávallt fyrirgefið honum.  „Ég var í afneitun og vissi ekki hvað var að gerast. Ég trúði fögrum fyrirheitum og mér fannst ég heppin að hann vildi vera með mér. Sjálfsmyndin var í molum. Ég vildi ekki segja neitt því það þekkti hann enginn eins og ég, Hann var svo næs inn á milli.“

Inngrip barnaverndar

Sambandinu lauk að lokum með inngripi barnaverndarnefndar. „Barnaverndarnefnd kom bara inn í málið. Vinkona mín sagði mömmu sinni frá þessu og í kjölfarið hefur mamma hennar líklega hringt þangað. Vinkona mín sótti mig til hans, því ég var ekki komin með bílpróf, og heima hjá henni beið mamma hennar eftir mér. Mamma hennar hringdi þá í mömmu mína og eftir það kom barnaverndarnefnd inn í málið.“

Aðspurð að því hvernig barnavernd tók á málinu segir Kristín að hún muni það ekki „Ég mundi hreinlega ekki eftir þessu fyrr en mér var sagt þetta um daginn. Ég hef eiginlega aldrei talað um þetta. En nýlega fór ég til Drekaslóðar og í kjölfarið á því fór ég heim og skrifaði allt sem ég mundi eftir. Ég sendi það á hann og vinkonur mínar. Þær vissu að það hefði verið eitthvað í gangi en ég hafði aldrei talað um þetta svo þær vissu ekki í raun ekki neitt“

Fimmtán ár síðan

Síðan þetta gerðist eru fimmtán ár og Kristín hefur verið að glíma við afleiðingarnar alla tíð síðan. Kristín leitaði sér hjálpar fyrir hálfu ári síðan „Ég man eftir að hafa lesið sögu Bryndísar Ásmundsdóttur. Ég hafði lesið margar svona sögur áður, og engin þeirra hafði þau áhrif á mig. En þegar ég las hennar sögu, þá fæ ég rosalegt flassbak. Þau fóru svo að aukast og ég gat ekki lengur ýtt þeim frá mér. Ég var farin að fá grátköst. Ég fann bara að ég þurfti að leita mér hjálpar. Mér fannst það mjög erfitt, því mér fannst þetta ekki vera neitt. Þetta var bara einhver dramatík og ég vissi ekkert hvað þetta hét eða hvað gerðist.“

Kristín sótti viðtalsmeðferð hjá Drekaslóðum og fór síðan sjálf til sálfræðings, sem sérhæfir sig í áfallastreitu. „Ég var hjá henni vikulega í meðferð. Ég er búin þar og á að fara í eftirfylgni eftir átta vikur.

Hefur tekið á ofbeldinu með núverandi manni sínum

En þetta hefur ekki einungis áhrif á Kristínu, því eins og hjá mörgum öðrum, þá geta afleiðingarnar haft áhrif á núverandi sambönd, mörgum árum seinna. Kristín sagði manninum sínum, núverandi, frá þessu fyrir fimm árum, og hafa þau tekið á þessu saman.

„Þetta hefur mjög mikil áhrif. Ég er mjög lokuð og á erfitt með að treysta fólki. Ég er búin að vera með manninum mínum í níu ár núna, en við höfum þurfti að vinna með þetta. Við fórum í fjölskylduráðgjöf saman. Þetta er baggi.“

Hún segir ákveðnar aðstæður hafa meiri áhrif en aðrar, og hún þurfi alltaf að vera meðvituð um það. „Mér finnst erfitt að eiga í samskiptum við „aggressífa“ einstaklinga og get verið mjög meðvirk. Stundum tek ég gagnrýni ekki vel, þó hún sé sögð í gríni, og upplifi hana oft sem árás. Þetta eru svona hlutir sem maður þarf að vera meðvitaður um og vinna með. Það er eitthvað sem ég gerði ekki vel lengi, og hafði áhrif í fyrri samböndum. Ég mæli ekki með því að fara beint í annað samband. Það er ekki lausnin. Það er mjög mikilvægt að ljúka fyrst þessari vinnu.“

Mikilvægt að opna umræðuna

Kristín stígur fram núna, því hún telur mikilvægt að opna umræðuna enn betur og fræða bæði ungmenni og foreldra.  

„Ég held að það vanti fræðslu í skólum. Ég hef sjálf verið að kenna á unglingastigi. Það er erfitt að horfa upp á það sem er í gangi. Krakkarnir fengu bara einn tíma hjá hjúkrunarfræðing. Það var kynfræðslan, sem fjallaði einungis um líffærin og hvernig allt virkar. Það vantar alveg þennan félagslega þátt, um sambönd og merki óheilbrigðra sambanda. Hvernig á að koma fram og hvernig á ekki að koma fram. Þetta eru bara litlir krakkar, sem byrja kannski í sambandi fjórtán ára, og vita ekki neitt“

En hún telur einnig mikilvægt að foreldrar fái fræðslu, um einkenni slíkra sambandi, og þau séu óhrædd að ræða við börn sín um einkennin og það sem er í gangi í þeirra lífi

„Ég var með áverka á hálsi, á höndum, og annars staðar. Það á að teljast skrítið að ég geti ekki verið heima, án þess að vera með trefil í einhvern ákveðin tíma. Ég vil ekkert kenna foreldrum mínum um, því það var engin fræðsla, ekki fyrir mig og ekki fyrir þau. En það þarf að bæta úr þessu.“