Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur verið í slæmu skapi í allan dag ef marka má Twitter reikninginn hans en forsetinn tísti fjölda misvísandi tísta, bæði um lokun alríkisstofnanna en einnig um Rússarannsóknina svokölluðu og var forsetinn þar að bregðast við fréttum þess efnis að FBI hefði hafið rannsókn á tengslum hans við Rússa um leið og hann rak James Comey, þáverandi yfirmann stofnunarinnar úr embætti árið 2017, eða mun fyrr en áður var talið. 

Um var að ræða forsíðufrétt hjá bandaríska miðlinum New York Times en ekki hefur komið fram fyrr en nú að rannsóknin hafi hafist svo snemma og þá er það talið sæta tíðindum að forseti Bandaríkjanna sé vændur um að ganga mögulega erinda annarra ríkja.

Sjá einnig: FBI hóf eigin rannsókn á Trump 2017

„Vá, ég var að frétta af því í hinu hnignandi New York Times að spilltir fyrrverandi leiðtogar FBI, sem allir hafa verið reknir eða neyddir til að yfirgefa stofnunina fyrir einhverjar mjög slæmar ástæður, hafi sett á laggirnar rannsókn á mér, af engri ástæðu og án nokkurra sannanna, eftir að ég rak lygalaupinn James Comey, algjöran óþverra!,“ ritaði forsetinn meðal annars á Twitter.

Þá fullyrti hann jafnframt ranglega að FBI hefði klúðrað rannsókn á Hillary Clinton og einnig að Comey væri verndaður á einhvern hátt af Robert Mueller, sem fer með rannsókn á tengslum kosningateymis Trump við afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016. Þá ítrekaði hann að hann hefði svo sannarlega látið Rússa heyra það í embætti.

„Ég hef verið MIKLU harðari gagnvart Rússlandi heldur en Obama, Bush eða Clinton. Mögulega harðari en nokkur annar forseti. Á sama tíma og eins og ég hef oft sagt, er gott að láta sér lynda við Rússland, ekki slæmt. Ég býst fyllilega við því einn daginn að við munum eiga í góðum samskiptum við Rússa aftur!“

Ákvarðanir Trump í utanríkismálum og samband hans við Vladimír Pútín, Rússlandsforseta, hafa ætíð vakið athygli og áhyggjur bæði andstæðinga hans sem og samstarfsmanna en ekki er langt síðan að James Mattis sagði af sér sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna vegna ákvörðunar Trump um að draga bandarískt herlið til baka frá Sýrlandi. Svo virðist þó vera sem að sú ákvörðun hafi að einhverju leyti verið dregin til baka.

Fréttir af rannsókn Mueller hafa ekki borist í nokkurn tíma en Nancy Pelosi, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni hefur að undanförnu látið í ljós þá skoðun sína að lokun hluta alríkisins vegna óska Trump um landamæravegginn við Mexíkó, sé liður í viðleitni forsetans til þess að dreifa athyglinni frá Rússarannsókninni.